17.12.1985
Neðri deild: 33. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykn. Kjartani Jóhannssyni fyrir ábendinguna. Ég mun sjá til þess að við 3. umr. verði flutt brtt. sem tekur af öll tvímæli í 2. gr. laganna þannig að ártalinu verði sleppt og aðeins standi 16%. Á þá að vera ljóst að gjaldið er ekki eingöngu lagt á á yfirstandandi ári heldur verður prósentan látin standa þar til Alþingi hefur annað ákveðið. Í lokagrein laganna er ákvæði um að þessi lög séu aðeins í gildi í eitt ár, en vænta má að unnið verði áfram að þessu máli á næsta ári og þá haldið áfram á grundvelli nál. sem fyrir liggur, án þess að í þessum orðum mínum felist nokkurt loforð um að slíkt geti gerst, enda er ríkissjóður ekki mjög aflögufær eins og kemur glögglega fram í séráliti fulltrúa fjmrn. sem sat í þessari nefnd.

Umr. frestað.