24.10.1985
Neðri deild: 9. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það má alltaf um það deila hvernig spurningar skuli bornar fram og hvenær, við hvaða tækifæri. Hér er verið að bera fram spurningu sem kemur þessu einstaka máli ekki nokkurn skapaðan hlut við. Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt að veita hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur upplýsingar um þetta mál og ég skal sjá svo til að svo verði gert á morgun.

Þetta mál er til vinnslu hjá Þjóðhagsstofnun. Það er allflókið. Hins vegar hefur forsrn. gengið mjög eftir því að það væri framkvæmt, mér er kunnugt um það, og það er fullur hugur á því að því verði hrundið í framkvæmd. En það er svo með mörg ágæt mál að þó að menn vilji að þau taki stuttan tíma reynist það stundum flóknara en menn sáu í upphafi. Það liggja t.d. ekki fyrir nægilegar upplýsingar varðandi sundurliðun á skattframtölum, sundurliðun á launamiðum, og úr þessu er verið að reyna að bæta og Þjóðhagsstofnun hefur verið falið það.

Þannig er það ekki vegna þess að ekki lá fyrir nein vitneskja um málið að ég taldi ekki ástæðu til að koma hér upp, heldur vegna þess að ég sá ekki að það kæmi beint þessu máli við, en þar sem svo ákveðið er gengið eftir því taldi ég rétt að verða við því að koma þessu á framfæri.