18.12.1985
Efri deild: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Af ærnu er að taka nú við þessa afgreiðslu flókins og viðkvæms máls, sem hvergi verður krufið til mergjar nema á löngum tíma þar sem hlutlausir aðilar gætu farið ofan í saumana á þeim deiluatriðum sem hér er um að ræða. Reynslan mun hins vegar skera úr um það hversu til mun takast um hinar nýju reglur um skattgreiðslur sem hér er fjallað um. Því miður óttast ég að sú reynsla verði ekki hin glæsta glansmynd undarlegra útreikninga sem aðstandendur þessa samnings bera á borð og hafa birst okkur hér í ýmsum myndum, m.a. í kolröngum tölum í upphafi sem hæstv. iðnrh. lét snarlega leiðrétta þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði bent á óskapnaðinn. Um þessi meginatriði fjalla ég í nál. mínu, en óhjákvæmilegt er að taka hér tvö atriði til umræðu í upphafi.

Í fyrsta lagi samningsgerðina við Alusuisse og það algera sambandsleysi við stjórnarandstöðuna sem þar gilti, þann leyndarhjúp sem um viðræðurnar var sveipaður án þess að fulltrúar annarra en stjórnarflokkanna fengju að skyggnast þar á bak við. Leyndin þótti hæfa best og þykir engum mikið sem árangurinn sér, og nær að kynna sér þá hæpnu „ávinninga“ sem hampað er af veikum mætti.

Í Nd. kom glögglega fram við afgreiðslu málsins að þeim framsóknarmönnum þar hló ekki hugur í brjósti, né ljómaði aðdáun af nál. þeirra hv. þm. Páls Péturssonar, þingflokksformanns framsóknar, og hv. þm. Ingvars Gíslasonar, forseta Nd., sem treystu sér engan veginn til þess að eiga samleið með sjálfstæðismönnum á sameiginlegu þskj. þar og skiluðu undarlegu nál., mótsagnakenndu, en þó með semingi sæst á að segja já við samkomulaginu.

Hitt atriðið er varðandi umfjöllun málsins í þessari hv. deild. Sá virti og ágæti formaður iðnn., hæstv. forseti Sþ., hefur tekið þann kost að afgreiða málið héðan úr deildinni efnislega órætt og óunnið af nefndinni, einfaldlega af því að annars var ekki kostur á þeim tíma sem nefnd var ætlaður til meðferðar málsins. Að öðrum kosti hefði orðið að fresta afgreiðslu málsins, sem ég hygg að flestum okkar í iðnn. hefði verið geðfelldast og þótt í alla staði eðlilegast miðað við þau vinnubrögð sem þessi virðulega deild viðhefur.

Mér er hins vegar ljúft að verða við þeim tilmælum hæstv. forseta Sþ. að afgreiða málið nú, enda ljóst að stjórnarliðar eru ákveðnir í að láta málið ná fram að ganga þó greinilegt sé að þeim þyki það misgott. Hæstv. ráðherrar hafa enda séð fyrir því með samningsgerð sinni að ekki verður aftur snúið af þeirra hálfu og þeirra fylgiliðs. Ég hlýt hins vegar að harma það að svona skyldi þurfa að standa að málum í hv. iðnn. og veit gjörla hversu miður formanni þykir það að engin efnisleg umfjöllun, engin athugun eða úttekt á útreikningum fór fram, og málinu vísað hér í deildina aftur óskoðuðu af nefnd, þó að við í nefndinni höfum vitanlega hver um sig reynt að átta okkur á málinu og stuðst þá, eins og ég geri a.m.k., við álit og skoðun Nd.manna.

Þetta er rétt að fram komi í upphafi og raunar ekki einsdæmi hér á þingi, því miður, en það réttlætir ekki þessi vinnubrögð nú sem við hljótum að átelja. Hversu vel sem við treystum félögum okkar hlýtur eigin skoðun, eigið álit, byggt á eðlilegri athugun málsins að eiga að gilda. Á því var ekki kostur.

Um allt þetta stóra mál mætti vissulega hafa uppi langt mál. Samskiptasaga íslenskra stjórnvalda og svissneska auðhringsins er öll með þeim hætti að hún er samfelld aðvörun, samfelld lexía, sem vissulega má margt læra af. Varðandi allt þetta mál, eða þennan þátt þess, mætti eflaust með réttu rifja það upp hversu haldið hefur verið á málum gagnvart þessum auðrisa, hvort og hvenær menn hafa uppréttir gengið eða hoknir í hnjám, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Og verðugt er að rifja það upp alveg sér í lagi að án sérstakrar vinnu, ötullar og óhvikullar af hendi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar værum við eflaust ekki að ræða þessi mál yfirleitt, eða hefðum verið á undangengnum árum. Áður en hv. þm. tók á þessu máli, lýsti það upp, þá heyrðist ekki hósti né stuna um það að allt væri ekki í góðu gengi. Raforkuverð sem skattgreiðslur og viðskipti almennt voru varin og talin af hinu góða fyrir okkur Íslendinga. Allt þetta þarf, og á vissulega, að minna á hér og nú.

Ekki skulu nú tíunduð þau frýjuorð sem fallið hafa í garð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fyrir að hafa ekki náð fangs á auðhringnum, eins og sagt hefur verið, að hann skilaði ránsfeng sínum og greiddi réttlátt raforkuverð, kæmi fram við okkur af heiðarleika. Þau frýjuorð fara þeim illa í munni, sem tvístigu allan tímann og gerðu aldrei upp við sig að fullu hvort íslenskum hagsmunum eða Alusuisse skyldi fylgt, veittu aldrei iðnrh. fyrrverandi þann bakstuðning sem dugað hefði til árangurs þess sem öll efni stóðu til, árangurs sem að mestu leyti var glutrað niður, m.a. af því að menn gengu ekki nægilega uppréttir til leiks, og létu auðhringnum eftir þá dýrmætu syndakvittun sem auðhringurinn greiddi þó smánarverð eitt fyrir.

Í önn þessara þingdaga skal ekki höfð uppi sú dapurlega saga sem að baki þessa máls býr, en það verður gert af hlutlausum dómurum seinni tíma um samtímasögu okkar og þennan lærdómsríka þátt hennar. Eitt veit ég: Hlutur hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar verður þar hinn besti svo sem verðugt er.

Áður en ég vík að nál. sjálfu vitna ég, með leyfi virðulegs forseta, í orð Hjörleifs Guttormssonar í Dagblaðinu Vísi, en þar segir hann um þennan samning: „Það átti auðvitað að leiðrétta skattakerfið þannig að tryggt væri að Ísland fengi aukna skatta og tryggari skil á sköttum frá álbræðslunni en verið hefur. Þetta bregst algerlega í fyrirliggjandi samningi. Það eru mestar líkur á því að þessi breyting leiði til þess að Ísland fái minni og jafnvel verulega minni skatttekjur frá álverinu en hingað til.“ Svo segir í þessu viðtali. Þetta eru þung orð þess manns er svo glögglega þekkir til og sannarlega óttast ég bitran sannleik þessara orða.

Hjörleifur greinir svo frá hvernig útreikningar hafi hrunið við nánari skoðun, þagnarmúrinn um þennan samning í fjölmiðlum ríkisstjórnarinnar, þar sæti stoltið ekki í fyrirrúmi. Og upplýsingaflæðið eða hitt þó heldur til stjórnarandstöðu ber hann eðlilega saman við eigin vinnubrögð þegar hann var iðnrh. og allir flokkar þá áttu aðild að álviðræðunefnd.

En í lokin segir Hjörleifur orðrétt, með leyfi virðulegs forseta: „Réttarstaða Íslands í sambandi við endurskoðun á reikningum ÍSALs hefur versnað til muna. Samningar um kaup á rafskautum eru lokaðir og Íslendingar hafa ekkert um þau að segja. Menn fá einfaldlega vottorð frá endurskoðendum sem Alusuisse hefur valið. Svona er einnig um marga aðra þætti þessa samnings.“ Þetta eru þung orð en því miður sönn.

Ég hlaut á hinum skamma tíma er ég hafði að leita til mér færari aðila um nál. og orð þeirra eru hér á ferð í mínu nál. Það er stutt og hlýt ég að lesa það, með leyfi virðulegs forseta, en geri að sjálfsögðu þau orð sem þar eru að mínum:

„Ríkisstjórn Íslands og Alusuisse hafa í allmörg ár átt í deilum um mörg atriði í samningum aðila um álbræðsluna í Straumsvík og ekki síður framkvæmd þeirra samninga. Deilur þessar hafa snert raforkuverð til ÍSALs, skattlagningu ÍSALs, mat á skattskyldum hagnaði ÍSALs og meintan undandrátt Alusuisse í þeim efnum, skatteftirlit, endurskoðunarrétt á samningsákvæðum, byggingu rafskautaverksmiðju í Straumsvík o.fl. Eitt af meginatriðunum í stefnu núverandi ríkisstj., sem tók við valdataumunum í maí 1983, var að binda enda á þessar deilur með skjótum hætti og semja um verulega stækkun álbræðslunnar við Straumsvík.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér lausn ríkisstj. á einu af téðum deiluatriðum. Áður hefur ríkisstj. stöðvað meðferð skattsvikamálsins fyrir hinum alþjóðlega gerðardómi í New York með svonefndri dómsátt sumarið 1984 og fyrirskipað stuðningsmönnum sínum á Alþingi að staðfesta breytingar á rafmagnssamningi og mikilvægum ákvæðum álsamninganna um skyldur Alusuisse og skattskyldan hagnað ÍSALs í nóvember 1984. Um byggingu rafskautaverksmiðju í Straumsvík eða jafnvel athugun á hagkvæmni slíkrar framkvæmdar, sem áður hafði verið um samið, er nú ekki rætt. Ríkisstj. virðist heldur ekki neitt nær því ætlunarverki sínu að fá Alusuisse til að auka afkastagetu ÍSALs - og geta landsmenn vafalaust þakkað sínum sæla fyrir það.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er aðfinnsluvert í fjölmörgum atriðum, engu síður en aðrir þættir samninga ríkisstj. við Alusuisse. Bera allir þeir samningar raunar þess greinilega merki að vanhugsaðar yfirlýsingar ríkisstj. um skjóta og auðvelda samninga við Alusuisse ásamt hinum afdrifaríku mistökum hennar að fallast á ósk Alusuisse um að draga skattsvikamálið út úr hinum alþjóðlega gerðardómi hafa veikt samningsstöðu Íslands svo mjög að Alusuisse hefur nánast getað hagað samningsniðurstöðum að vild.

Helstu efnisatriði. Í iðnn. Nd. voru lögð fram fjögur nál. um þetta frv. Í áliti 1. minni hl. var gerð vandleg úttekt á málinu og ýmsum hliðum þess. Hér verður því aðeins stiklað á stærstu atriðum en vísað, til nánari skýringar, til framangreinds álits 1. minni hl. iðnn. Nd.

I. Líkur á lækkun skatttekna.

Með þeirri breytingu á skattstiga og mati á skattstofni, sem bæði er nú gerð tillaga um í frv. og var gerð á Alþingi í nóvember 1984, eru miklar líkur á að heildarskatttekjur hins opinbera af starfsemi ÍSALs verði minni á komandi árum en verið hefði samkvæmt þeim skattareglum sem Alþingi samþykkti í 2. viðauka við aðalsamning árið 1975.

Áhrifum hins breytta skattstiga er nánar lýst í töflu I og línuriti 2 í nál. Hjörleifs Guttormssonar á þskj. 266.“ Til að flýta fyrir afgreiðslu málsins hér í þessari hv. deild hef ég ekki látið prenta þessar töflur með enda eru þær á þskj. og mönnum kunnugar og geta þeir lesið þær þar.

„Talsmenn ríkisstj. og þeir fulltrúar samninganefndarinnar, sem sömdu við Alusuisse um téðar skattkerfisbreytingar og komu fyrir iðnn. Nd. vegna þessa máls, hafa reynt að bera í bætifláka fyrir þessa augljósu lækkun skattstiga með fullyrðingum um hækkun skattstofns. Um þann málflutning er m.a. þetta að segja:

1. Útreikningar þeir, sem þeir samninganefndarmenn hafa lagt fram í þessu skyni, sbr. fskj. IV í álitum bæði 1. og 2. minni hl. iðnn. Nd., hljóta að teljast afar marklitlir. Kemur þar ýmislegt til. Í fyrsta lagi er hér um að ræða afar óvissan framreikning eins og samningamennirnir sjálfir margtóku fram í yfirheyrslum iðnn. Nd. Í öðru lagi liggur ekkert fyrir um forsendur reikninganna. Það er því ókleift að meta áreiðanleika þeirra eða finna reiknivillur sem reynslan hefur sýnt að oft eru ekki langt undan þegar útreikningar samninganefndar um stóriðju eru annars vegar. Í þriðja lagi hefur ekki verið lagt fram neitt mat óháðs aðila, þ.e. frá aðila ótengdum samninganefnd um stóriðju, sem staðfestir þennan framreikning. Það. er því einungis mat samningamannanna sjálfra, sem eðli málsins samkvæmt eru ekki óháðir og hafa skiljanlega heldur tilhneigingu til að fegra samningaárangur sinn en hitt, sem liggur til grundvallar fullyrðingum um hækkun skattstofns.

2. Auk álits samninganefndarinnar sjálfrar var í iðnn. Nd. lagt fram mat á breytingum á skattstofni sem vísar í þveröfuga átt. Í því áliti (sjá nánar fskj. VI í áliti 1. minni hl. iðnn. Nd.) kemur fram að skattstofn muni e.t.v. heldur minnka við þá breytingu sem gerð er tillaga um í frv.

3. Enn fremur má benda á það að á því hagnaðarbili hjá ÍSAL sem líklegast má telja á komandi árum, þ.e. innan við 10 millj. bandaríkjadala, þarf skattstofn að hækka mjög verulega til að vega upp á móti lækkun skattstiga. Þetta má t.d. auðveldlega lesa af línuriti 2.

II. Lækkun raunvirðis framleiðslugjaldsins.

Grunnframleiðslugjaldið, sem miðað við reynsluna fram að þessu er e.t.v. líklegast að Ísland haldi áfram að fá í sinn hlut, breytist ekki skv. frv. ríkisstj. Það verður áfram 20 bandaríkjadalir á tonn af áli eins og um var samið árið 1975. Raunvirði þessa lágmarksgjalds hefur rýrnað stórlega s.l. áratug vegna heimsverðbólgunnar og þar með minnkandi kaupmáttar bandaríkjadals og er nú rétt rúmlega helmingsvirði af því sem það var 1975. Úr því að samningamönnum ríkisstj. tókst ekki að semja um verðtryggingu þessa gjalds er fyrirsjáanlegt að grunnframleiðslugjaldið mun halda áfram að rýrna að raungildi á komandi árum.

Þessari þróun raunvirðis framleiðslugjaldsins er nánar lýst í línuriti 1 í nál. Hjörleifs Guttormssonar á þskj. 226.

III. Dregið úr rekstrar- og skattaeftirliti með ÍSAL.

Í frv. ríkisstj. er í raun lagt til að dregið verði úr skattalegu og rekstrarlegu eftirliti með starfsemi ÍSALs og viðskiptum þess við Alusuisse. Þetta felst m.a. í breyttum ákvæðum um verðviðmiðun aðfanga og afurða, styttingu árlegs endurskoðunartímabils og niðurfellingu eldri samningsákvæða um að ÍSAL skuli njóta bestu fáanlegra kjara í viðskiptum við Alusuisse.

Þessi atriði eru nánar tiltekið:

1. Verð á mikilvægustu afurðum og aðföngum eru nú tengd ákveðnum viðmiðunum og þannig bundin til a.m.k. fimm ára í senn.

2. Svigrúm til árlegrar endurskoðunar á ársreikningum ÍSALs er nú takmarkað við fjóra mánuði og bannað að vefengja skattframtal ÍSALs eftir þann tíma.

3. Endurskoðendum Íslands er í samningnum gert óheimilt að afla upplýsinga um söluverð rafskauta frá verksmiðju Alusuisse sem verðið til ÍSALs á þó að miðast við. Þess í stað á Ísland að gera sér að góðu yfirlýsingar endurskoðenda sem Alusuisse tilnefnir. Þess má geta í þessu samhengi að ekki skorti yfirlýsingar frá endurskoðendum Alusuisse um sakleysi Alusuisse í fyrri deilumálum um verð á rafskautum og súráli. Engu að síður greiddi Alusuisse 3 milljónir bandaríkjadala til að forðast dóm í málinu.

4. Viðurlög við skattundandrætti eru engin og beinlínis bönnuð í samningnum.

Öll þessi atriði veikja mjög aðstöðu íslenskra stjórnvalda til eftirlits með starfsemi ÍSALs.

IV. Erlend skattlögsaga.

Engin breyting er gerð á ákvæðum hins upphaflega samnings frá 1966 þar sem Ísland afsalaði sér lögsögu í skattamálum ÍSALs til erlendra gerðardóma. Slík ákvæði, sem ekki voru óalgeng í samningum þróunarlanda við fjölþjóðlega auðhringi á sjötta og sjöunda áratugnum, hafa á þeim áttunda og níunda verið sem óðast að týna tölunni nema einna helst þar sem um er að ræða ríki myrkustu Afríku. Hins vegar var upplýst í iðnn. Nd. að ríkisstjórn Íslands hefði ekki sýnt teljandi áhuga á að fá þessu ákvæði álsamninganna breytt.

V. Tækni- og söluþóknun Alusuisse óbreytt.

Þótt með frv. ríkisstj. sé létt af Alusuisse þeirri kvöð að útvega ÍSAL bestu fáanlegu kjör á afurðum og aðföngum er í engu hróflað við þóknunum Alusuisse fyrir þessa þjónustu. Þessi þóknun er hins vegar ekkert smáræði eða 3,7% af árlegri veltu ÍSALs sem ætla má að geti numið allt að 7 millj. bandaríkjadala árlega.

Niðurstaðan er því sú að þegar á allt er litið verður ekki annað séð en að þær breytingar á skattaákvæðum gildandi samninga, sem ríkisstj. leggur til í umræddu frv., séu gagnstæðar hagsmunum Íslands. Því telur undirritaður að fella eigi frv.“