18.12.1985
Efri deild: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. á þskj. 318 vegna frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium. Ég legg til á þessu nál. að frv. verði ekki samþykkt, þ.e. að það verði fellt. Byggist það í sem stystu máli á því að ég tel að ekki hafi náðst sá árangur í þessum samningum sem mátti vænta við upphaf þessa máls, þ.e. þegar núv. ríkisstj. gekk til samninga við Alusuisse vegna þeirra deilumála sem uppi höfðu verið áður en hún settist að völdum.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að núv. ríkisstj. hefði þess vegna getað látið það vera á sínum tíma að ganga til samninga. Hún hafði tvo kosti um að velja. Annar kosturinn var sá að fella niður deilumálin gersamlega, láta eins og ekkert hefði í skorist og viðhalda þannig þeim samningi sem í gangi var. En núv. ríkisstj. tók þann kostinn að ganga til samninga við Alusuisse og þá fyrst og fremst vegna þess að þessi deilumál voru uppi og hún taldi nauðsynlegt að ná betri samningum en áður. Þegar menn taka þennan kostinn eru þeir náttúrlega að hugsa um betri samninga fyrir báða aðila og þá náttúrlega sérstaklega okkur því að það er ríkisstjórnarinnar að halda fyrst og fremst á okkar hagsmunum. Í framsögu sinni 8. nóv. 1984 segir þáv. iðnrh., með leyfi hæstv. forseta:

„Sáttaleiðin hefur ekki verið tekin af því að eitthvað hafi skort á í þessum efnum heldur vegna þeirra kosta sem hún hefur umfram dómstólaleiðina. Enda þótt ákveðið hafi verið á sínum tíma að leggja deilumál aðila fyrir dómnefndir til álitsgerðar eða úrskurðar var það ekki fyrir þá sök, að þetta væri hin eina leið til að leysa úr málunum, heldur vegna hins, að ekki voru möguleikar á að ná fullum sáttum eins og þá var statt.“

Þegar þessi orð voru töluð voru menn búnir að ákveða sig með það að halda áfram á þeim grundvelli sem síðasta ríkisstjórn fór frá, þ.e. að uppi voru deilumál og í stað þess að láta þau algerlega niður falla að gera þessi deilumál upp. Síðan töldu menn sig eiga tveggja kosta völ, annaðhvort að leysa þessi deilumál fyrir dómstólum eða með samningum. Núv. ríkisstj. valdi samningaleiðina, en ekki, eins og fyrrv. iðnrh. segir, vegna þess að þetta væri hin eina leið til að leysa úr málunum heldur vegna hins að ekki voru möguleikar á að ná fullum sáttum eins og þá var statt.

„Það hefur verið eindregið skoðun þeirra, sem um málin hafa fjallað, að halda bæri á þeim eins og hverju öðru dómsmáli, þannig að ekki bæri að vísa á bug neinum raunhæfum möguleikum er skapast kynnu til að leysa úr málinu með sátt á viðunandi grundvelli, heldur gæti slík sátt verið fullgild leið til að ljúka málinu og málareksturinn sjálfur ein af leiðunum til að skapa grundvöll fyrir sáttina.“

Fyrrv. iðnrh. er að lýsa hinum raunverulega bakhjarli samninganna, þ.e. að íslensk ríkisstjórn hafði það fyllilega í hendi sér að höfða mál á hendur Alusuisse sem eflaust hefðu orðið nokkuð langdregið en þó endanlega leitt til niðurstaðna sem hefðu orðið þá grundvöllur að sáttum eða samningum.

Nú höfum við í iðnn. þessarar deildar ekki haft tíma til að kynna okkur málið efnislega, eins og fram er komið í nál. þeim sem þegar hefur verið mælt fyrir. En m.a. hefði verið áhugavert að rannsaka eða láta koma fram í þessu máli enn eina ferðina hver okkar málefnalega staða var hvað þessi hugsanlegu málaferli snerti. Það er mikilvægt þegar horft er til niðurstöðu þessa hluta samningsins því að eins og þáv. iðnrh. sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Sáttargerð sú, er tekist hefur milli aðila með þessum samningi, er liður í samningaviðræðum þeirra um þau málefni sem um getur í bráðabirgðasamningnum og til þess ætluð að treysta grundvöllinn að samningslegum tengslum þeirra og vinsamlegum samskiptum í framtíðinni.“

Ég legg hér áherslu á orð fyrrv. iðnrh.: "... til þess ætluð að treysta grundvöllinn að samningslegum tengslum ...“. Íslensk stjórnvöld voru sér þess fyllilega meðvituð - eða áttu a.m.k. að vera það - að þau höfðu mjög traustan grundvöll á að standa þar sem þau höfðu í hendi sér málaferlaleiðina fyrir dómstólum gagnvart Alusuisse og gátu ætlað það að með því að hverfa frá henni sköpuðu þau sér ákveðna aðstöðu í samningunum við Alusuisse, þ.e. þau máttu fyllilega reikna með að það væri siðferðilegur bakhjarl fyrir samningamenn þeirra til að hvika hvergi í kröfum sínum gagnvart samningsaðilanum.

Það er aftur á móti greinilegt þegar þessi samningur er nú skoðaður - í fljótheitum þó - að samningsstaða okkar hefur ekkert batnað. Þvert á móti virðist hún hafa versnað. Ég vísa þar til gagnrýni hv. 2. þm. Austurl. sem talaði hér á undan mér. Þá var hann að vitna til gagnrýni hv. 5. þm. Austurl. sem mun nú vera sá maðurinn í þessu húsi líklega sem mest veit orðið um þessi mál. Á þeirri vinnu, sem hann hefur látið vinna fyrir nefndina í Nd., er greinilegt að sjá að þessi samningur skilar okkur ekki tölulega betri árangri eða a.m.k. eru mjög litlar vonir við hann bundnar þannig. Aftur á móti virðist hann greinilega skila okkur samningslega verri stöðu að því leyti að áfrýjunarmöguleikar okkar, þegar um einhver vafaatriði er að ræða, eru tímanlega orðnir mjög knappir. Þannig séð erum við verr staddir en við vorum í upphafi.

Það er greinilegt að sú deila, sem við áttum við ÍSAL áður en byrjað var að vinna eftir bráðabirgðasamkomulaginu frá 1983, hefur knúið samningsaðila okkar til að reyna að bæta stöðu sína samningslega gagnvart okkur. Það undarlega hefur gerst að okkar samningsaðilar virðast augsýnilega ekki hafa gert sér grein fyrir því hver hin siðferðilega staða þeirra var í ljósi fortíðarinnar og hreint og beint gefið eftir miklu meira en manni er skiljanlegt þegar maður skoðar efnisatriði málsins.