18.12.1985
Efri deild: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að bæta mörgum orðum við þessa umræðu. Það er þó alveg ljóst að iðnn. hafði afskaplega nauman tíma til að fjalla um þetta mál og gerði það raunar ekki. Eins og hv. frsm. nál. meiri hl. kom að fjallaði nefndin raunar aðeins um það hvort óhætt væri, ef ég má svo að orði komast, að geyma umfjöllun málsins hér á Alþingi og í Ed. þangað til eftir áramót. En niðurstaðan varð sem sagt þessi, eins og fram er komið, að það var ekki talið óhætt að bíða með afgreiðslu málsins fram yfir áramót.

Það má segja að orðfæri nál. Nd. - þá á ég við þau nál. þeirra sem vilja leggja þessu máli lið, þ.e. samþykktu frv. - sé mjög varfærið, ekki síst ef litið er til niðurlags í þeim nál. Í öðru nál. er sagt að samningurinn sé til bóta - ekki er nú sterkar að orði kveðið - og í nál. þeirra hv. þm. Páls Péturssonar í Nd. og hv. þm. Ingvars Gíslasonar er mjög vægt til orða tekið sömuleiðis. Að mínu áliti er því ekki mikill munur og kannske enginn þar á.

Ég stend hér fyrst og fremst upp vegna þess að ég ritaði undir þetta nál. meiri hl. með fyrirvara. Ég gat þess við 1. umræðu málsins að ég hefði fremur kosið - og vísa ég þá til þeirrar umræðu sem átti sér stað sem eins konar aðdragandi að þessari síðustu samningalotu - að upp hefðu verið teknir veltuskattar. Að vísu hefur verið bent á ýmsa annmarka sem þeir hefðu í för með sér, kannske fyrst og fremst það að þeir eru óháðir afkomu fyrirtækja og það kann að vera að sumum og kannske flestum sýnist það andstætt okkar skattalögum eða að minnsta kosti síður í anda þeirra. Hins vegar er alveg ljóst að enda þótt um væri að ræða veltuskatta hefðum við haft heimildir til að athuga bókhald fyrirtækisins með tilliti til þess að ganga úr skugga um hver velta þess væri á hverjum tíma. Við hefðum því ekki með þessum hætti verið að víkja frá okkur þeim hagsbótum að skoða reikninga fyrirtækisins.

Ég hef ekki og ætla ekki að hafa uppi athugasemdir við einstaka þætti þessa samnings að því er varðar nýjar fyrningarreglur og nýjar reglur vegna aðfanga til verksmiðjunnar. Hins vegar eru það fyrst og fremst tvö atriði í þessum samningi, sem gerður hefur verið, sem ég hef athugasemdir við og er óánægður með. Í fyrsta lagi eru það ákvæðin um grunngjaldið og í öðru lagi er ég óánægður með endurskoðunarákvæðið, þ.e. gr. 27.07.

Varðandi grunngjaldið þá er það alveg ljóst að samningurinn kveður á um sama grunntaxta framleiðslugjalds á hverja smálest áls þrátt fyrir að raunvirði þessa gjalds hafi rýrnað allverulega eins og margoft hefur komið fram. Manni sýnist að ástæður hafi verið meira en ærnar til að hækka þetta gjald með tilliti til þessa. Ég efast ekki um að okkar samninganefndarmenn hafi leitast við að fá fram hækkun. Reyndar kemur það fram í þeim gögnum sem fyrir liggja. En þetta tókst ekki því miður og ég harma það.

Í öðru lagi endurskoðunarákvæðið, 27.07. Í endurskoðunarákvæðinu eru nefndir þeir þættir, sem til endurskoðunar verða á fimm ára fresti, þ.e. málsgr. 26.01, 27.03, 27.04, 27.05, 27.02. Ég tel að endurskoðunarákvæðin hefðu átt jafnframt að ná til 25.03, þ.e. þeirrar greinar í samningnum sem fjallar um grunngjaldið. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að nefna nál. hv. þm. Nd. Hjörleifs Guttormssonar. Ég varð satt að segja svolítið hissa þegar ég veitti því athygli að hv. þm. virðist hafa staðið í þeirri trú að fimm ára endurskoðunarákvæðið ætti við um lágmarksskattinn. Í nál. hv. þm. stendur, með leyfi forseta:

„Þessi lágmarksskattur er áfram óverðtryggður og fyrstu möguleikar á að óska eftir breytingu á honum eru að fimm árum liðnum.“

Nú gæti maður haldið að hér væri um prentvillu að ræða en prósenturnar um lækkun skattsins vegna verðbólgu segja að þessi tala er fram sett af ásetningi en ekki af mistökum. Þetta atriði færir manni e.t.v. heim sanninn um að e.t.v. sé fleira við umfjöllun þessa máls sem ekki hefur nægjanlega komið fram í dagsljósið. Menn hafi e.t.v. þurft að athuga allt málið allnokkru betur. (Iðnrh.: Má ég endurtaka það sem ég sagði. Endurskoðun á grunngjaldi er ekki undir fimm ára ákvæðinu en fer fram 1991 skv. aðalsamningi, 25 ára samningnum. Það er endurskoðun hans en fellur ekki undir þennan 4. lið.) Ég hef haft samband við suma þá aðila sem um þetta hafa fjallað. Ég vil nefna Hjört Torfason, hv. þm. Gunnar G. Schram, Garðar Ingvarsson og Halldór Kristjánsson. Ég hef haft samband við þá um þetta atriði, hvort þessi heimild til endurskoðunar er eftir fimm ár eða eftir níu ár. Þessir aðilar hafa fullyrt að hún sé ekki fyrr en að níu árum liðnum.

Ég hef lofað því að hafa ekki mörg orð um þennan samning. Enda þótt þessir annmarkar séu á samningnum, sem ég hef vikið að, treysti ég mér ekki til að bera ábyrgð á því að þessi samningur öðlist ekki lagagildi. Ég endurtek það að að mínu áliti er enginn fullkomlega ánægður með þennan samning. Að vísu er blæbrigðamunur á þeim rökstuðningi, ef ég má svo að orði komast, fyrir því að menn fylgja honum. Þó er sá blæbrigðamunur ekki mikill.

Virðulegi forseti. Ég vildi ekki láta hjá líða að fram kæmi og væri skjalfest hvað það er sem ég er óánægður með varðandi þennan samning. En þegar á heildina er litið tel ég ekki stætt á því þrátt fyrir allt að koma í veg fyrir samþykkt hans.