18.12.1985
Efri deild: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1838 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

134. mál, álbræðsla við Straumsvík

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hér í deildinni að þessi álsamningur er mjög umdeildur. Ég sagði við fyrri umræðu að ég teldi að nokkuð hefði áunnist á þann veg að ágreiningsefnum hefði verið fækkað en ég gagnrýndi nokkur atriði og sagði m.a. að þegar á heildina er litið væri líklegt að þessar breytingar á skattstofni og skattstigum muni ekki verða okkur hagstæðari en þær reglur sem nú gilda heldur séu líkindi til að skatttekjur muni frekar minnka. Ég sagði líka að útreikningar væru ótrúverðugir og vitna þá til starfsfólks sem við Alþýðuflokksmenn höfum haft í þessu máli og hefur farið yfir þetta. Við höfum líka gagnrýnt að ekki hefur tekist að fá lágmarksgjald verðtryggt sem er mjög miður.

Það kom fram áðan hjá hv. 2. þm. Austurl. að samninganefndarmenn hafi ekki staðið sig sem skyldi. Það er erfitt að meta það svona úr fjarlægð, einkum vegna þess að við höfum ekki haft aðstöðu til að fara ofan í þetta frv. sem skyldi, slík fljótaskrift hefur verið á þessu máli. Það fer líka eftir því hvaða bakstuðning samninganefndin hefur fengið frá ríkisstj. hvert hennar afl hefur verið.

Við Alþýðuflokksmenn munum ekki samþykkja þennan samning, við munum ekki greiða atkvæði með honum. Við munum heldur ekki greiða atkvæði á móti honum heldur sitja hjá. Ég vil hér lýsa þessari afstöðu okkar sem markast af því, sem ég var að segja áðan, að þrátt fyrir að nokkuð hafi áunnist erum við óánægðir með ýmsa þætti hans og þykir miður að hafa ekki haft meiri tíma til að skoða málið. Ég veit að formaður iðnn. er mjög óánægður með það eins og við hinir en hefur orðið við þeim tilmælum að koma málinu í gegn fyrir áramót vegna eðlis þess, en áramótin munu skipta máli hvað varðar framkvæmd þessa samnings.