18.12.1985
Efri deild: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

198. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Benediktsson:

Virðulegur forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan að stjórnarandstaðan byrjaði að vekja athygli stjórnarflokkanna og stjórnvalda á vanda húsbyggjenda og varpa fram hugmyndum um það hvernig hugsanlega mætti standa að því að leysa þennan vanda. En núna á elleftu stundu, alla vega hvað störf þings varðar, er komin fram tillaga. Og ég efast ekkert um það að tilgangur höfunda er góður.

Ég kem heldur ekki hingað í ræðustól til þess að lýsa yfir andstöðu minni við þetta mál, heldur einungis til þess að skjalfesta ýmis atriði sem ég álít rétt að menn hugleiði og þá sérstaklega með tilliti til framhaldsins.

Það er í fyrsta lagi engar upplýsingar að hafa um það hvaða breytingar þetta kemur til með að hafa á tekjur ríkissjóðs. Út af fyrir sig hef ég ekki allt of miklar áhyggjur af því hvort hann hefur nægar tekjur eða ekki, en aftur á móti þykir manni nú skynsamlegra að menn viti nokkurn veginn hvaða tekjum þeir mega við búast. Og án þess að hafa reiknað það neitt nákvæmlega, eingöngu út frá þeim upplýsingum sem hér er að finna í grg. með plagginu og ályktunum út frá þeim, þá þykir mér alls ekki ólíklegt að ríkisstj. verði það á óvart nánast fyrir tilstilli þessa frv. að standa við gefin loforð þessa árs, þ.e. að þjóðin - þeir hennar sem greiða tekjuskatt - fái þessa 400 millj. kr. tekjuskattslækkun sem lofað var. En þá er til þess að horfa að dreifing þessarar afléttingar kann að verða nokkuð óréttlát. Óréttlát í þeim skilningi að mjög margir af þeim, sem eiga í vanda vegna húsbygginga eða íbúðarkaupa, eru tekjulágir og áhrifin af mögulegum vaxtafrádrætti á framtöl þeirra kunna að leiða til þess að þeir eignist bókhaldslega innistæðu hjá gjaldheimtum sínum, en það eru reyndar innistæður sem þeir geta ekki gengið að þar sem við gerum ekki ráð fyrir útgreiðslu eða borgun neikvæðs tekjuskatts. Þetta segir svo mikið sem það að það eru þeir tekjuháu sem koma til með að njóta mests hér af, m.a. vegna þess að menn lögðu ekki í það, sérstaklega vegna tímaskorts að því er okkur er talið, að taka inn í viðmiðunina eignastöðu manna.

Í sjálfu sér horfir þetta þó allt saman til jákvæðrar áttar. Því skal ég alls ekki neita. Og ég lít á þetta sem viðurkenningu ríkisstj. á því að hún verði í krafti jafnaðar og réttlætis að taka þátt í þeim byrðum sem fólk tekur sér á herðar þegar það kaupir sér húsnæði eða byggir yfir sig. Aftur á móti hefði ég talið að það væri heppilegri og réttlátari leið að stefna að því að afnema öll vaxtafrádráttarákvæði tekjuskattslaganna og þá m.a. hvað húsbyggjendum viðkemur að fella allan vaxtafrádrátt vegna öflunar íbúðarhúsnæðis niður á ákveðnum aðlögunartíma, en láta koma á móti húsnæðisframlag til íbúðarkaupenda eða húsbyggjenda, sem tæki mið af fjárfestingu upp að einhverju ákveðnu eða fyrir fram settu marki, miðað þá við fjölskyldustærð og húsnæðisstærð, og það fylgi einstaklingum eða tengist nettóeign. Þetta væri frádráttur - eða framlag réttara sagt - til einstaklinganna sem væri óháður tekjum og óháður því hvernig þeir fjármögnuðu íbúðarbyggingar sínar.

Stóri munurinn á þeirri leið og þeirri, sem núna er lögð til, væri aðallega fólginn í tveimur atriðum. Annars vegar er sú leið, sem farin er í þessu frv., enn þá afkvæmi núgildandi tekjuskattslaga og frádráttarákvæða í þeim anda að það er í raun og veru skuldahvetjandi, þ.e. heimilaður frádráttur í tekjuskattslögum í dag virkar í raun og veru skuldahvetjandi. Og það er mjög mikið atriði að koma þessum málum í það horf að hvetja fólk ekki til að skulda heldur að draga úr áhuga þess á slíku. Þess vegna tel ég heppilegra að framlag ríkissjóðs fari ekki fram í gegnum vaxtafrádrætti heldur beint framlag sem þannig myndi líka dreifast réttlátara en nú er og einnig er lagt til í þessu frv.

Það er enn annað í þessu sem er varhugavert. Það fer ekkert á milli mála þegar maður les þetta frv. að þeir, sem koma til með að njóta góðs af því, munu samtímis hafa mjög einlægan og skiljanlegan áhuga á því að verðbólgan haldi áfram og verði sem hæst.