18.12.1985
Efri deild: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Frsm. 1. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Mál þetta hefur fengið ítarlega umfjöllun í hv. fjh.- og viðskn. Raunar vildi svo til að fjórir nm. voru jafnframt nm. í hv. allshn. sem hafði skylt mál til meðferðar, þ.e. um breytingu á gjaldþrotaskiptalögunum, þannig að að sumu leyti urðu þetta sameiginleg störf tveggja ólíkra nefnda í sömu deild. Þó að ekki væri það formlega gert þá nutum við aðstoðar og upplýsingaöflunar í báðum deildunum og miðluðum auðvitað þekkingu og upplýsingum á milli.

En að því er þetta mál sérstaklega varðar, sem hér er til umræðu nú formlega, þá fengum við á okkar fund forseta lagadeildar Háskóla Íslands, Gauk Jörundsson, sem var okkur til mikillar hjálpar og skýrði mjög mál fyrir nm.

Allir þekkja meginefni málsins og skal ég ekki fara langt út í að rekja það. En nefndin varð sammála um að flytja öll þrjár brtt., sem eru á þskj. 321 og hefur verið útbýtt. Þó að öllum sé það kunnugt að skoðanir hafi verið nokkuð skiptar um það, bæði hér í þessari hv. þingdeild og eins manna á meðal og í almennri umræðu um það, hvort fara ætti þá leið að setja á stofn sérstaka rannsóknarnefnd vegna viðskipta Útvegsbanka Íslands og Hafskips fremur en að fara þá leið að Alþingi kysi nefnd eftir 39. gr. stjórnarskrárinnar, þá var samstarfið mjög gott í nefndinni og menn leituðust við að samræma sjónarmið og árangurinn varð sem sagt sá, sem ég nefndi, að sameiginlega flytja nm. þessar þrjár brtt.

Það er reyndar um að ræða tvo minni hluta og er rétt að gera grein fyrir því hvernig á því stendur. Hv. þm. Valdimar Indriðason óskaði ekki að sitja fundi nefndarinnar þegar mál þetta var rætt og ekki að taka þátt í neinni afgreiðslu á brtt. og veit ég að menn skilja þá afstöðu. Hins vegar mun hv. þm. Valdimar Indriðason að sjálfsögðu taka þátt í afgreiðslu málsins hér í deildinni og afgreiðslu brtt., enda miða allar þær brtt., sem sameiginlega eru fluttar af nefndinni, að því að uppfylla þau sjónarmið sem hann hefur margsinnis fram sett, að allt ætti að gera til þess að upplýsa mál þetta að fullu. Allar þessar brtt. og eins þær, sem gerðar eru á gjaldþrotaskiptalögunum, hníga í þá átt að auðvelda að upplýsa mál það sem hér er til umræðu að fullu og öllu. Og vonum við að svo fari, þannig að hv. þm. mun auðvitað taka þátt í afgreiðslu hér í deildinni þótt hann óskaði ekki að sitja nefndarfundi þar sem rætt var um brtt. og þær afgreiddar.

2. minni hl. flytur eina brtt. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sameinað Alþingi kýs sex alþm. samkvæmt tilnefningu þingflokka til að fylgjast með rannsókn þessari. Hafa þeir rétt til að hlýða á yfirheyrslur og kynna sér gögn málsins.“

1. minni hl. féllst ekki á þessa till. og þarf ég kannske ekki að hafa um það mörg orð hvert mitt sjónarmið er í því efni. Það held ég að hafi komið æði glöggt fram í ræðu minni hér við 1. umr. að ég óttast mjög að tengt sé saman framkvæmdavald, dómsvald eða löggjafarvald - í þessu tilfelli löggjafarvald og dómsvald - að þar eigi að hafa aðgreiningu sem gleggsta. Ég get mjög vel fallist á að það eru rök fyrir því, sem væntanlega verða hér flutt, að þetta geti gengið. En það eru líka gagnrök og ég tel þau ívið sterkari og hættulegt að fara inn á þessa braut.

Rétt er að geta þess að það kom fram hjá Gauki Jörundssyni að þetta mál mun vera nokkuð einstætt. Slík rannsóknarnefnd er kannske einsdæmi, eins og mig grunaði og gat mér til við 1. umr. að vera mundi, svo langt hefði aldrei verið gengið í rannsókn gjaldþrotamáls, eins og hér er gert ráð fyrir. Hygg ég að það sé vísbending um það að allt sé gert sem unnt er til að upplýsa málið, og þannig orðið við óskum allra hv. alþm. um að ekki standi á þeim að veita þær lagaheimildir sem nauðsynlegar eru til að komast til botns í málinu. En málið er margrætt og ég skal ekki fara lengra út í umræðuna nema tilefni gefist til.