18.12.1985
Efri deild: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Frsm. 2. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. hefur skilað nál. á þskj. 330. Þar er vikið að því fyrst að í nefndinni komu fram tillögur til breytinga á frv. sem nefndin flytur raunar sameiginlega á sérstöku þskj. Þessar breytingar teljum við í minni hl. allar vera verulega til bóta frá því sem áður var. Þær eiga að tryggja:

Í fyrsta lagi tryggir fyrsta till. að þessi rannsókn verði öllu víðtækari en frv. upphaflega gerði ráð fyrir. Önnur till. tryggir að nefndinni verði heimilað að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum og opinberum aðilum, m.a. starfsmönnum Útvegsbanka Íslands. Það er ljóst, og kom raunar fram í nefndinni, að samkvæmt þeim bankalögum sem taka gildi um áramót gildir bankaleynd ekki þegar búið er að samþykkja lög sem eru orðuð svo sem þessi hér. Það er alveg á hreinu að þá gildir ekki bankaleynd. Þeir bankastarfsmenn, sem skýrslur verða teknar af í sambandi við þetta, geta ekki borið fyrir sig bankaleynd. Það er alveg á hreinu samkvæmt gildandi lögum.

Í þriðja lagi er svo till. um að rannsóknarnefndin skuli hraða störfum og skila skýrslu til ráðherra og að ráðherra geri síðan Alþingi grein fyrir störfum og niðurstöðum nefndarinnar.

Þetta er allt til verulegra bóta. En það er skylt að geta þess að það varð ekki samkomulag um allar tillögur, sem gerðar voru til breytinga, og því flytur 2. minni hl. hér á sérstöku þskj. brtt. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 4. gr. komi ný grein svohljóðandi: Sameinað Alþingi kýs sex alþm. samkvæmt tilnefningu þingflokka til að fylgjast með rannsókn þessari. Hafa þeir rétt til að hlýða á yfirheyrslur og kynna sér gögn málsins.“

Við, sem skipum minni hl., teljum að þetta sé afar mikilvægt atriði, þ.e. að Alþingi hafi aðstöðu til að gegna sínu eftirlitshlutverki sem það á að hafa og hlýtur að hafa eðli máls samkvæmt. Þess vegna teljum við nauðsynlegt að bætt verði inn í lögin ákvæði sem tryggir að Alþingi geti fylgst með framgangi málsins og hvernig því miðar áfram og þar með t.d. beint athygli nm. að ákveðnum þáttum málsins sem alþm. eða fulltrúar Alþingis telji e.t.v. ástæðu til að rannsaka sérstaklega. Við teljum þetta vera atriði sem skipti verulegu máli.

Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að fjölyrða svo mjög frekar um þetta. En ég minni á, eins og kom fram hjá hv. frsm. 1. minni hl., að við meðferð málsins fór samtímis fram í allshn. umfjöllun um frv. til breytinga á gjaldþrotaskiptalögum sem vissulega herðir nokkuð á og tekur af ýmis tvímæli og er áreiðanlega til bóta. Minni hl. leggur sem sagt til þessa brtt., að ný grein bætist við á eftir 4. gr. frv., og ég lýsi því þá yfir að þar sem kunnugt er að Alþýðuflokksþingmaður er 1. flm. tillögu um skipan rannsóknarnefndar samkvæmt 39. gr. stjórnarskrár - sem liggur að vísu fyrir hv. Nd. - að verði þetta samþykkt þá mundum við draga þá till. til baka vegna þess að við teljum að eftirlitshlutverki Alþingis yrði nægilega sinnt ef þetta ákvæði kæmi inn í þessi lög.

Ég sé þá ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að sinni.