24.10.1985
Neðri deild: 9. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það eru engin tíðindi að Sjálfstfl. gerðist liðsmaður þeirra afla sem verið er að verja í þjóðfélaginu með þessari lagasetningu. Það eru engin tíðindi að Framsfl. standi að lagasetningu sem þessari þar sem hann í upphafi ferils þessarar ríkisstj. lagði til að samningsrétturinn væri tekinn af launafólki í tvö ár. En það eru nokkur tíðindi að flokkur sem kennir sig við alþýðu þessa lands og stendur utan stjórnar skuli sjá sig að yfirgnæfandi meiri hluta knúinn til þess að ganga til liðs við þessi öfl.

Á morgun fylkja konur þessa lands sérstaklega til baráttu. (ÓÞÞ: Í dag.) Í dag. Það er rétt, skrifari. Sá dagur er runninn. - Til baráttu fyrir rétti sínum. Þær eiga stuðningsmenn hjá hinu kyninu og ég er viss um að sú umræða sem hér fer fram og barátta flugfreyja gegn Flugleiðum sem gagnaðila í þessu máli á eftir að fjölga þeim sem vilja standa við hlið þeirra í baráttunni fyrir launajafnrétti, fyrir jöfnuði í þessu þjóðfélagi. Ég segi nei.