19.12.1985
Efri deild: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

184. mál, verðjöfnunargjald af raforkusölu

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Það hafa verið gerðar tvær breytingar á þessu frv. í hv. Nd. Önnur breytingin er um það að það komi á undan 1. gr. frv. ný grein og hún varðar breytingu á 8. gr. laga um verðjöfnunargjald af raforkusölu. 8. gr. laganna nú hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki skal greiða verðjöfnunargjald af raforku seldri til Áburðarverksmiðju ríkisins, Íslenska álfélagsins hf., Íslenska járnblendifélagsins hf. og til húshitunar.“

Breytingin er fólgin í því að í staðinn fyrir orðið „húshitunar“ komi: rafhitunar eða varmadælna.

Að forminu til þýðir þetta rýrnun á því fjármagni sem verðjöfnunargjaldið gefur en í raun og veru er ekki um neina rýrnun að ræða vegna þess að lögin hafa verið framkvæmd svo sem að stæði það sem segir í breytingu þeirri sem Nd. gerði.

Hin breytingin sem Nd. gerði varðar 1. gr. frv. og er um breytingu á 2. gr. laganna um verðjöfnunargjald af raforkusölu. 2.. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðjöfnunargjald skal nema 16% árið 1985.“ Breyting sú, sem gerð er í hv. Nd., er fólgin í því að fellt er niður árið 1985 úr 2. gr. laganna. Þessu er ofaukið í raun og veru miðað við lögin eins og þau gilda í dag og miðað við þá breytingu á þeim sem frv. gerir ráð fyrir. Og þó hér sé ekki um efnisbreytingu að ræða heldur aðeins formbreytingu þá fer betur á því að sú formbreyting sé gerð.

Hv. iðnn. þessarar hv. deildar hefur komið saman og athugað þessar breytingar og mælir með því að frv. verði samþykkt eins og það kemur frá hv. Nd.