19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

145. mál, stjórn fiskveiða

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Nú ætlar meiri hluta Alþingis að takast að hefta fiskveiðar í fjötra ofstjórnunar næstu tvö árin til viðbótar þeim tveim árum sem þetta kvótakerfi hefur nú þegar verið við lýði. Í nál. 1. minni hl. sjútvn. eru raktar, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, fleiri tillögur en þær sem við erum að fjalla um hér í frv. Það eru skiptar skoðanir um þetta mál.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um tillögur fiskveiðinefndar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, svokallað tegundamark. Þar er lagt til að miðað verði við heildarafla en skipt niður í tímabil og að heildarstjórnunin fari mest fram á þeim tímum þegar aflinn er hvað mestur, þ.e. yfir sumarmánuðina og á vertíðinni. Aftur á móti verði létt mjög á stjórnun varðandi minni báta og á öðrum tímabilum á árinu. Ég tel að miðað við þann heildarafla, sem við erum nú að miða við, sé grundvöllur fyrir því að létta af þessari ofstjórn og leyfa fiskveiðar fremur í samræmi við slíkar tillögur en að reikna kvóta á hvert einasta skip.

Það kom fram hjá hv. þm. Valdimar Indriðasyni þegar hann mælti hér fyrir meirihlutaáliti að það á að breyta viðmiðuninni við heildarkvótann, þorskkvótann, á milli svæðanna, suðursvæðis og norðursvæðis. Þar með eru fallin rökin fyrir því að miða við árin 1981, 1982 og 1983 því að ef þessi viðmiðun á ekki við um heildarkvóta á milli þessara landshluta á hún ekki heldur við þá reynslu sem miðuð er við hvert einasta skip.

Af hvaða ástæðu falla þá ekki þessar nefndir, sem um þetta fjalla, algerlega frá þessum viðmiðunarárum og taka upp nýtt kerfi í stað þess að vera að færa til í heildarkvótum en ekkert eftir öðrum útreikningsreglum? Með þessu eru þeir að viðurkenna að þessi regla standist ekki lengur.

Það hefði orðið minnkun á karfaveiðum sem leiðir það af sér að togarar hér fyrir Suðurlandi geta ekki sótt eins mikið í karfa og áður. Þess vegna þarf að hækka kvótann handa þeim af þorski. En með því að hækka þorskkvótann handa þeim er verið að taka frá öðrum. Þar með held ég að þeir ættu að hugsa sitt ráð og aflétta þessum viðmiðunarárum og reyna að hugsa upp aðrar leiðir og líta á aðrar tillögur sem fram hafa komið en ekki einblína alltaf á kvótann.

Einnig hafa varðandi þessar tillögur, sem komið hafa frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, heyrst þær raddir að þetta séu skoðanir Vestfirðinga. Allt í einu er það orðið tiltökumál að viss landshluti er mjög nálægt gjöfulum fiskimiðum. Þetta er svolítið sérkennileg umræða. Ekki heyrir maður mikið um það rætt hér á þingi að þessi landshluti hér, Reykjavík og nágrenni, búi að einhverjum öðrum gæðum vegna stöðu sinnar hér varðandi þjónustu og annað slíkt sem Vestfirðingar búa ekki við. Menn tala oft fagurlega um byggðastefnu en svo þvert á móti þegar landshlutar liggja nálægt miðum. Ég get ekki séð nokkur rök fyrir því að færa til kvóta milli skipa vegna þess að einn landshluti búi nær gjöfulum fiskimiðum. Ég held að það sé nægilegt óréttlætið sem landsbyggðin býr við í öðru efni, varðandi þjónustu og vöruverð, verð á húshitun og annað slíkt og ekki þurfi að koma á kvótakerfi til að jafna legu þeirra miðað við fiskimiðin.

Í annan stað eru tillögur Farmanna- og fiskimannasambandsins alls ekki sérstaklega sniðnar fyrir Vestfirðinga því að þar er 30% tegundamarkið sett á til að þessir bátar og togarar þurfi að sækja í aðrar fisktegundir en þorsk.

Því hefur oft verið haldið fram að kvótakerfið stuðli að réttlátari skiptingu milli skipa og byggðarlaga. Ég held að það sé alger rangtúlkun og að reynslan þessi tvö ár hafi sýnt okkur það og sýni okkur það og sanni enn frekar nú þegar þarf að hækka í prósentutölu heildaraflamarkið fyrir suðursvæðinu meira en fyrir norðan vegna þess að það kemur verr út fyrir togara fyrir Suðurlandi ef miðað er við þessi viðmiðunarár sem notast hefur verið við.

Í öðru lagi hefur því verið haldið fram að með kvótakerfinu sé reynt að skapa eins tryggt atvinnuástand um land allt og nokkur kostur er. Reynslan sýnir okkur einnig að þetta hefur ekki við nokkur rök að styðjast. Heilu byggðarlögin eru í dag að mestu leyti atvinnulaus vegna þess að togarar bíða hér uppboða og bíða jafnvel eftir nýjum eigendum. Það er kannske ekki eingöngu hægt að kenna kvótanum um það en hann hefur alla vega ekki hjálpað til við að breyta þessu. Þess vegna hafa slíkar fullyrðingar ekki við nokkur rök að styðjast varðandi kvótann.

Einnig hefur verið bent á að þetta stjórnkerfi, kvótakerfið, bæti meðferð á afla og auki verðmætasköpun. Það er hægt að vera með draumóra í þessu efni en það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að kvótakerfið hafi bætt meðferð á afla eða aukið verðmætasköpun. Þar koma allt aðrir þættir við sögu en kvótakerfið. Við getum litið til s.l. sumars þegar yfir sumartímann barst mjög mikill afli að landi. Sumarið þar áður kom ég á marga staði á landinu þar sem mjög mikill afli barst að landi sem pakkað var í mjög ódýrar pakkningar vegna þess að tími vannst ekki til að gera verðmæta vöru úr því hráefni sem fyrir hendi var. Það var ekki um neina framför að ræða, m.a.s. verra ástand í þessum efnum yfir sumartímann en áður hefur verið, áður en kvótakerfið komst á. Þetta hefur því ekki heldur við rök að styðjast.

Einnig er því haldið fram að kvótakerfið sé hvati til lækkunar tilkostnaðar. Það má vel vera. Ég ætla ekki að segja að það geti ekki verið rök fyrir því að menn nýti betur sín veiðarfæri. En það skal ósagt látið hvort það sé kvótanum að þakka eða eingöngu því að menn hafa ekki efni á að endurnýja veiðarfæri nú og eigi þá frekar á hættu að missa skipin sín eins og margir hafa reyndar gert og reyni þar af leiðandi að nýta betur sín veiðarfæri.

Einnig má benda á að ástandið í sjávarútvegi núna, hvort sem það er í fiskvinnslunni eða útgerðinni víðast hvar, bendir ekki til að kvótakerfið hafi stuðlað að meiri samvinnu milli veiða og vinnslu, betri rekstrarskilyrðum fyrir sjávarútveginn eða betri afkomu fiskvinnslunnar.

Í stuttu máli sagt er víðast hvar mjög bágt ástand í sjávarútvegi hvort sem það er fiskvinnsla eða útgerð. Það þarf eitthvað annað til að koma en útreikningur á kvóta á skip eða sala á kvóta á milli skipa.

Á þeim tveimur fundum sem haldnir voru í hv. sjútvn. var farið yfir drög að reglugerð sem tilbúin var og kemur til framkvæmda þegar og ef þetta frv. verður að lögum. Ég vil taka það fram að ég var sammála því atriði að helmingur af línu- og handfæraafla yrði utan kvóta. Það er vegna þess að þetta er leið til meira frelsis innan þessa kerfis. Þess vegna gat ég tekið undir það. Mér þykir það réttlætismál að það séu sömu reglur um bæði línu og handfæri þannig að sjómenn þurfi ekki að setja línubala um borð, halda síðan úr höfn og veiða á handfæri til að snúa á kerfið. Ef þetta ætti ekki við báðar þessar tegundir veiðarfæra mundi það eingöngu leiða til þess að menn reyndu að snúa á kerfið, eins og þeir reyna reyndar í dag eftir bestu getu.

Það er aldrei hægt á nokkurri skrifstofu að búa til svo fullkomið kerfi að það passi fyrir alla landsmenn og alla landshluta. Það verður alltaf að reyna að finna upp einhverjar heildarlínur með sem mestu frelsi til að hefta ekki athafnafrelsi manna og hefta þá ekki í fjötra ofstjórnunar.

Við 1. umr. þessa máls fór ég nokkuð yfir ýmis atriði varðandi málið, m.a. gögn frá Þjóðhagsstofnun þar sem talað er um þá auknu hagkvæmni í útgerð sem kvótakerfið hefur leitt til. Sagt er í niðurlagi þeirrar skýrslu sem er hvergi orðuð þannig að hægt sé að hengja hatt sinn á:

„Líkt og varðandi bætta meðferð aflans er ekki hægt að fullyrða að þetta stafi eingöngu af breyttri stjórnun fiskveiða en hún hefur án efa ýtt rækilega við mönnum að þessu leyti.“

Í þessari skýrslu er bæði verið að tala um hagkvæmni í útgerð og bætta meðferð afla. Það er sem sagt ekki hægt að fullyrða neitt í þessu efni. Þegar farið er yfir gæðaskýrslur kemur fram að miðað við sum veiðarfæri hefur gæðunum hrakað en miðað við önnur hafa þau batnað um 0,1-1,3%. Hér er því ekki um stórar tölur að ræða.

Ef við förum aðeins aftur í tímann og tölum um árið 1983, áður en þessi stjórnun komst á, þá var leyfilegt að veiða 320 þús. tonn en veiddust aðeins 299 þús. tonn. Árið eftir, 1984, með kvótakerfinu, var leyfilegt að veiða 220 þús. tonn en veiddist mun meira. Það segir okkur að kvótakerfið er ekki besta aðferðin til að komast sem næst heildaraflamarki sem ætlast er til eða leyfilegt er að ná á hverju ári. Á yfirstandandi ári var úthlutað 1. janúar 250 þús. tonnum en niðurstaðan verður 317 þús. tonn.

Einnig kemur fram í nál. meiri hl. sjútvn. Nd. að áætlað er að veiða um 100-110 þús. tonn af karfa. Þetta er talið mjög hátt miðað við ástand þess fiskistofns. Við erum því ekki nú að tala um neinar raunhæfar tölur í því sambandi. Talað er um að veiða 300 þús. tonn af þorski. Það verður gaman að sjá niðurstöður á næsta ári því að það er mjög líklegt að þessi 300 þús. tonn af þorski verði orðin að 360 þús. tonnum. Það þykir bara alveg sjálfsagt vegna þess að það var kvótakerfið sem stjórnendur geta sætt sig við og geta rökstutt það með allt öðrum hætti en að það sé sjálft kerfið sem hafi brugðist.

Það er hægt að hafa um þetta mál mjög mörg orð og fara yfir þetta aftur á bak og áfram. En ég ætla ekki að halda um þetta langa ræðu í þetta skiptið. Ég segi eins og hv. þm. Skúli Alexandersson: Það getur verið að ég komi fremur aftur hér í stólinn enda er mjög takmarkaður tími þessa dagana til að undirbúa langar ræður hér á hv. Alþingi. Ef það eru ekki nefndarstörf hálfa nóttina þá er byrjað mjög snemma að morgni og ýtt út úr nefndum viðstöðulaust frumvörpum sem ekki er einu sinni mjög mikil þörf á að afgreiða fyrir áramót. Ég held að þetta ástand á hv. Alþingi hafi aldrei verið verra, ekki a.m.k. þennan tíma sem ég hef setið hér.

En ég vil sem sagt ítreka að að mínu mati hafa ekki komið nokkur rök fram í sambandi við þetta kvótafrv. sem mæla með því að framlengja þetta kerfi, þessa ofstjórnun. Tel ég slæmt að þetta skuli eiga að samþykkja nú til tveggja ára því að það væri þó nær að sætta sig við þetta í eitt ár til viðbótar í þeirri von að menn mundu á þeim tíma reyna að finna aðrar leiðir til að minnka þessa ofstjórnun, til að leggja ekki. ef þessu heldur svona áfram, jafnvel heilu byggðarlögin í eyði, því að það er stór hætta á því að heilu byggðarlögin fari hreinlega langt niður á við.

Nú er mjög mikill flótti frá landsbyggðinni. Íbúðarhúsaverð t.d. hér ekki alllangt frá, í Vestmannaeyjum, er talið vera aðeins helmingur af því sem er hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er því ýmislegt sem heldur í fólk. Það bókstaflega kemst ekki í burtu. Ég er ekki að segja að kvótakerfið sé kannske að leggja Vestmannaeyjar í eyði eða lækki íbúðarhúsaverð þar. Þar koma kannske fleiri þættir inn í - (Gripið fram í: Það hefur engin áhrif.) Það hefur engin áhrif, segir hv. þm. Það eru kannske einhverjir aðrir þættir þar. Lágt kaup í fiskvinnslu gæti t.d. haft þar áhrif og ekki hefur kvótakerfið getað bætt þar um. Ekki hefur kvótakerfið getað bætt um fyrir fiskvinnslunni þannig að hún geti borgað mannsæmandi laun. Það eru því fleiri þættir en bein stjórnun fiskveiða eða bein veiðitakmörkun sem hefur spilað hér inn í.

Ég vil minna á það í lokin að á einum ákveðnum stað, í Grímsey, var kvótinn búinn hjá stærri bátunum í apríl á s.l. ári. Þá gátu þeir aðeins notað báta undir 10 tonnum því að það var leyfilegt að sækja sama fiskinn á bátum sem voru undir 10 tonnum en ekki á stóru bátunum. Menn urðu því að leggja stærri bátunum og fara á litlu trillunum þrátt fyrir að þetta sé eyja norður í Dumbshafi. Slíkt leiðir þetta kvótakerfi af sér og er ekki nokkrum til fyrirmyndar.