24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

Um þingsköp

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstvirtur forseti. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að leiðrétta fullyrðingar og misskilning sem hér hefur komið fram. Það er ekkert einsdæmi að boðaður sé fundur í þessari hv. deild til að fjalla um mál sem kemur frá hv. Nd. á þessum tíma. Það var m.a.s. mun seinna t.d. á liðnu vori. Það er ekkert nýtt. Og allir hv. þm. hafa vitað það, núna líklega í sólarhring, að þetta mál yrði til umræðu og væntanlega til lokaafgreiðslu. Það er rétt að satt sé satt. (Gripið fram í: Þetta er rangt, þetta er alrangt.) Ég fullyrði að það var eftir þrjú sem tekin voru fyrir mál hér á síðasta þingi. Við skulum kanna það nánar. En ég hygg að það hafi verið nærri því á hverju einasta þingi að þetta hafi verið svo og líka raunar oft fyrir jólafrí. Þetta er ekkert einsdæmi. Við skulum hafa sannleika sannleika.

En að því er varðar ummæli hv. þm. Stefáns Benediktssonar um að mál þetta komi Alþingi nákvæmlega ekkert við, þá verð ég líka að mótmæla því. Auðvitað kemur Alþingi mál þetta við og allri íslensku þjóðinni kemur mál þetta við. Þetta er gífurlega mikilvægt mál, einmitt með hliðsjón af efnahagserfiðleikunum sem hv. þm. gat um. Við skulum þess vegna ekki vera með neinn æsing á því sviði.

Það er alveg ljóst að það eru hagsmunir íslensku þjóðarinnar að þessi deila leysist sem fyrst og sem farsælast. Og það eru ekki síst hagsmunir starfsmanna þessa félags að deilan leysist eins fljótt og unnt er. Þess vegna er engin ástæða til að draga það til föstudags eða mánudags. Ég tel að málið eigi að afgreiðast nú.