19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

145. mál, stjórn fiskveiða

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð til að gera grein fyrir atkvæði mínu hér á eftir. Vinnuaðstæður hér á hæstv. Alþingi þessa dagana eru með þeim hætti að þær leyfa mér því miður ekki þá ítarlegu umfjöllun um þetta mál sem það á skilið.

Kvennalistinn hefur ávallt viðurkennt nauðsyn þess að fiskveiðum í fiskveiðilögsögu Íslands sé stjórnað með einhverjum hætti. Einfaldlega vegna þess að fiskistofnarnir eru takmörkuð auðlind og hámarksnýting þeirra, sem okkur er öllum í mun að tryggja, er háð náttúrlegum aðstæðum hverju sinni. Við viðurkennum og höfum ávallt viðurkennt að ótakmörkuð sókn í þessa auðlind með nútíma veiðitækni gæti leitt til þess að auðlindin gengi til þurrðar. Afleiðingar þess fyrir þjóðarbú Íslendinga þarf ég ekki að tíunda. Þær eru vænti ég öllum hv. þm. ljósar.

Það sem Kvennalistinn hefur hins vegar haft á móti frv. hæstv. sjútvrh. um stjórnun fiskveiða á tveimur umliðnum þingum er hversu mikið vald ráðherra er veitt í stjórnun fiskveiðanna. Þegar frv. hæstv. ráðh. um stjórnun fiskveiða birtist hér í þingsölum á síðasta þingi var það réttilega nefnt „ráðherra-ræður-frumvarpið“ enda sjútvrh. samkvæmt því nánast einráður um stjórnun veiðanna. Slíka miðstýringu gátum við og getum við Kvennalistakonur ekki samþykkt.

Hins vegar er ljóst að töluvert annað er upp á teningnum að þessu leyti í því frv. sem nú liggur fyrir Alþingi. Bæði er það samið í nánara samráði við aðila í sjávarútvegi og eins gerir það ráð fyrir áframhaldandi samráði um stjórnun fiskveiða. Þar með er fallin frá helsta ástæða þess að við Kvennalistakonur höfum ekki greitt kvótafrumvarpi atkvæði okkar á tveimur umliðnum þingum.

Með því fororði að hæstv. ráðherra sinni þeirri skyldu sinni að gera sitt til að sameina og sætta þau sjónarmið sem enn togast á varðandi tilhögun kvótans mun ég greiða þessu frv. atkvæði mitt hér á eftir. Vera má að heppilegra sé að stytta gildistíma þessa frv. úr tveimur árum í eitt. Við erum enn að fikra okkur áfram með stjórnun fiskveiða og kann að vera að ég muni greiða slíkri brtt. atkvæði mitt ef hún kemur fram.