19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

145. mál, stjórn fiskveiða

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því, af því að mér láðist það við 1. umr., að óska hæstv. sjútvrh. og Framsfl. til hamingju. Það er í sjálfu sér oft og tíðum tiltölulega lítil ánægja fólgin í því að sigra óvini sína. Það er yfirleitt miklu meiri fullnæging í að svínbeygja þá. Og svo rækilega hefur Framsfl. svínbeygt Sjálfstfl. í þessu máli að ég held að þess þekkist eiginlega varla dæmi í íslenskum stjórnmálum.

Sjálfstfl. hefur boðið sig fram hér síðan hann varð til sem forsvara eignarréttar, sem vörð eignarréttarins. Nú er það almennt sannmæli hér á landi að sú auðlind, sem fiskafli okkar er, er eign þjóðarinnar. Auðvitað kann það að vera skilgreiningaratriði eins og mjög margt annað, hvort þessi afli tilheyri frekar þessari þjóð heldur en. annarri, en með samkomulagi þjóða í milli hafa menn slegið eign sinni á þann afla sem finnst innan ákveðinna marka sem menn kalla landhelgi eða efnahagslögsögu. Þetta er eign þjóðarinnar og réttur þjóðarinnar á þessari eign þar af leiðandi ótvíræður. Nú er það líka þannig í stjórnarskránni að þar er kveðið skýrara á um eitt atriði mörgum öðrum fremur en það er um það hvernig eigi að ráðstafa eignum manna og að það skuli ekki hægt að gera nema með lögum, og þá ekki nema að almannaheill krefji. Og til enn frekari áréttingar þá er mjög skýrt á kveðið um það að ekki megi leggja gjöld á menn eða afhenda fjármuni öðruvísi en með lögum.

Í öllum þessum atriðum hefur hér verið farið á svig við stjórnarskrána þannig að þetta vald er einfaldlega tekið frá löggjafanum, eða réttara sagt afsalað til ráðherra, ráðherra Framsfl. Og síðan dingla menn bara í hans spottum eftir hans geðþótta. Auðvitað keppast menn um að komast hér í stól og segja að þeir treysti þessum ráðherra öðrum mönnum fremur til að standa vel að verki. Við öðru er náttúrlega ekki að búast, því að varla gætu menn átt von á því að sækja gull í greipar þessa ráðherra ef þeir færu að hallmæla honum mikið hér í ræðustól.

Ég tel ekki öllu skipta hver er ráðherra hverju sinni í þessu máli. Ég tel bara miklu skipta í þessu máli að hér sé um það að ræða að þessi ráðherra er ráðherra Framsfl., sá stjórnarflokkur sem stjórnar með honum í ríkisstjórn núna er Sjálfstfl. og þeir hafa tekið eign þjóðarinnar og afhent hana þessum eina ráðherra til ráðstöfunar.

Menn telja gjarnan að einhver svartasti blettur í sögu íslenskrar þjóðar sé sá kafli hennar sem kenndur er við einokunarverslun. Þá var það á eins manns valdi að ákveða hverjir mættu versla hér á landi, þ.e. hverjir mættu bjóða vöru fala, og það var á valdi þessa sama manns að ákveða hverjir mættu versla við tiltekinn kaupmann og engan annan. Ef menn brugðu út af þessum fyrirskipunum þá voru þeir brotlegir við lög og dæmdir eftir þeim. Ég tel að sú aðferð sem hér er notuð sé alveg sambærileg við þessa einokunarverslun. Þetta eru einokunarlög. Maður sér það kannske einna best á viðbrögðum þeirra sem þurfa að þola þessi lög.

Hv. 4. landsk. þm. gat þess í máli sínu í Nd. við umræðu um þetta mál að viðbrögð þeirra manna, sem stunda útgerð og fiskvinnslu hér á landi, hafi verið tiltölulega hörð í fyrstu, árið 1983 þegar þessi lög komu fram. Flestallir lýstu því sem mjög afdráttarlausri skoðun sinni að þetta væri fyrirkomulag sem alls ekki mætti vara lengi. Núna, nærri þremur árum seinna, eftir tveggja ára gildistíma þessara laga og tveggja ára reynslu af þessum lögum, þá eru viðbrögð manna í þessum atvinnugreinum orðin mjög svipuð viðbrögðum tukthúslima að því leyti að menn eru gjörsamlega hættir - með örfáum undantekningum þó - að ræða það grundvallaratriði hvort löggjafinn hafi yfir höfuð þennan rétt og þá að hve miklu leyti og hvort hægt sé að réttlæta það að afhenda þessi völd einum manni - þó hann sé ráðherra. Menn ræða orðið núna eingöngu um það innan þessarar stéttar hvort fengnum sé réttilega skipt, hvort þessi eða hinn eigi ekki að fá þessari prósentunni meira eða minna og hvort þessi eða hinn landshlutinn eigi ekki að fá þessum prósentunum meira eða minna.

Hv. 8. landsk. þm. ræddi það einmitt hér áðan hvað viðræður af þessu tagi geta tekið á sig ankannalegar myndir. Það er eitt landsvæði hér á landi sem liggur mjög nærri gjöfulustu miðum okkar, þ.e. Vestfirðirnir. Þaðan er stutt að sækja á miðin og gnægð fiskjar. Þegar menn fara að vinna eftir reglum sem þessum, sem settar eru með þessum lögum, þá eru menn í alvöru farnir að tala um það að meina Vestfirðingum að nýta þessi fiskimið eða nýta sér þann möguleika sem þessi nálægu fiskimið gefa og nýta sér þá möguleika, sem nálægð þessara fiskimiða getur verið fyrir efnahag þessarar þjóðar. Því auðvitað (BD: Eiga þeir miðin? Sagðirðu ekki áðan: þeir eiga þau ekki?) - ég var ekki að tala um eignarrétt. Ég var bara að tala um það að einhver maður býr nálægt gjöfulum miðum. Það þýðir að hann á stutt að fara á miðin. Það þýðir að sóknarkostnaður er lítill. Það þýðir að hann getur komið með fisk að landi sem er ferskur, þ.e. gæði fiskjarins eru mikil. Það þýðir að hægt er að vinna þennan fisk á því stigi sem ákjósanlegast er og þar með mestir möguleikar til þess að gera úr honum mikil verðmæti. Og það þýðir möguleika á miklum tekjum fyrir þá sem þessa fiskvinnslu stunda og þessa útgerð og endanlega kemur það íslenskri þjóð til góða. Nei, nú á að fara að stunda jafnaðarmennsku í stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. með þeim hætti að skammta öðrum landshlutum aðgang að þessum miðum og draga úr möguleikum Vestfirðinga til þess að nýta þá.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. kallaði fram í og spurði: Eiga þeir miðin? Það var ekki verið að ræða það, heldur var einfaldlega verið að ræða vegalengdir. Geti menn haft ábata af því að eiga betri aðgang að einhverjum hlutum en aðrir, hvers vegna þá að vera að meina þeim þennan aðgang? Það verður ekki séð að það sé hinum til hagsbóta. Ef við lítum bara á það svona í einhverjum dæmum sem hægt er að lýsa þá getur það ekki verið til hagsbóta fyrir heildina að draga úr sóknarmöguleikum Vestfirðinga á þessi mið og úthluta þeim til annarra landshluta, segjum Sunnlendinga eða Austfirðinga, sem þurfa þá að sækja á þessi mið um langtum lengri veg, með miklu meiri tilkostnaði, færa aflann heim um langtum lengri veg, þ.e. miklu meiri líkur eru á því að aflinn sé ekki í eins góðu ásigkomulagi og þegar um Vestfirðinga er að ræða. Þar af leiðandi er endanlegur munur á verði þessa afla í unninni vöru og tilkostnaði miklu minni en þegar um hagstæðari skilyrði er að ræða. Þarna er á ferðinni eignaupptaka. Eignaupptaka studd af útverði eignarréttarins á Íslandi, þ.e. Sjálfstfl.

Hver hefur svo árangurinn orðið af þessari stjórnun? Menn báðu um það hér nokkuð langt fram eftir hausti að fá, ef hægt væri, einhverjar upplýsingar um árangurinn. 16. október 1985 komu þær upplýsingar fram. Þær komu frá Þjóðhagsstofnun og þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Telja má víst að kvótakerfið hafi leitt til sparnaðar.“ En síðan: „Því miður liggja enn ekki fyrir reikningar fyrir útgerðina í heild á árunum 1984 og 1985, en í áætlunum Þjóðhagsstofnunar er reiknað með því að í kjölfar nýju fiskveiðistjórnunarinnar hafi fylgt 9-10% sparnaður í sóknartengdum útgerðarkostnaði.“

Hv. þm. Einar Guðfinnsson talaði í 1. umr. um þetta frv. í Nd. og taldi upp nokkrar röksemdir fyrir því að ekki væri hægt að finna nokkurt samhengi milli kvótakerfisins annars vegar og breytinga á útgerðarkostnaði, hvort sem þær hefðu leitt til hækkunar eða lækkunar. Enda segir hvergi í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar að hægt sé að fullyrða með óyggjandi rökum eða óyggjandi sannfæringu að hægt sé að finna samhengi milli kostnaðarbreytinga í útgerðinni og kvótakerfisins, heldur segir eingöngu að það megi telja; kvótakerfið ætti að stuðla að; gæðaflokkun 1985 virðist vera svipuð og 1984. En þar segir líka: Auðvitað er ekki hægt að fullyrða að þessi breyting stafi eingöngu af breyttri fiskveiðistjórn en hún gæti átt hér hlut að máli. Þetta þættu nú ekki þungvæg rök í málsvörn og eru það náttúrlega alls ekki í málsvörn þegar um jafnalvarlegt mál er að ræða og þetta.

Hér hefur verið minnst á tillögur sem fram hafa komið frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Þær tillögur miða reyndar líka að fiskveiðistjórnun. Þær tillögur miða að stjórnun sem taki í raun og veru eingöngu til þess tímabils á árinu þegar veruleg hætta er á því að menn fari yfir tiltekið aflamark. Auðvitað er enginn hvati í þessu kvótakerfi til þess að menn, t.d. í útgerð, tempri á einhvern hátt sókn sína, að þeir dragi eitthvað úr henni eða jafni henni. Ef þú hefur eitthvert ákveðið aflamagn, sem búið er að skammta þér, þá sækirðu þennan fisk á sem stystum tíma, með sem minnstum tilkostnaði. Þú hefur tonnafjöldann ákveðinn 1. janúar og þá er það bara þitt að ákveða: Hvenær sæki ég þennan tonnafjölda og hvað ætla ég mér að eyða miklum peningum í það? Og miðað við það að þeirri útgerð sem dýrust er hér á landi, þ.e. togaraútgerð, er náttúrlega hagkvæmast að hugsa mest um þær krónur sem hún þarf að eyða með tilliti til þeirra sem hún fær, þá er náttúrlega auðveldast að taka þennan afla á þeim tíma þegar vel gefur á sjó og auðveldast er að ná í fisk og það er um sumarið. Þá gerist það að menn moka aflanum á land. Þá gerist það að fiskvinnslan hefur ekki undan. Og þá gerist það að forstöðumenn fiskvinnslunnar hrópa hástöfum og biðja sér vægðar. En þeir fá engin grið vegna þess að þeir hafa engin tæki í höndunum til þess að stöðva þennan landburð. (Gripið fram í: Þeir eiga skipin.) Sumir þeirra eiga skipin en ekki allir (Gripið fram í: 80%.) og jafnvel þó þeir eigi skipin þá eiga þeir ekki skipstjórana.

Þetta er náttúrlega að nokkru leyti vegna þess að verð aflans er líka ákveðið einhvers staðar suður í Reykjavík og það skiptir ekki nokkru máli hvernig þessi afli berst að landi og í hvaða magni, hvað menn fá borgað fyrir hann. Ef aflinn er eins og kallað er fyrsta flokks vara þá fer hann í fyrsta flokk og ef hann er það ekki þá gerir hann það ekki. En það fer ekkert eftir framboði og eftirspurn. Þegar heitt verður í veðri á mörkuðum í Cuxhaven þá lækkar fiskur í verði. (EgJ: Ef hann hækkar ekki.) Hann hækkar ekki, herra 11. landskjörinn. (BD: 95% í fyrsta flokk á sumrin ef hann verkast vel.) Gott og vel. En er það eðlilegt miðað við það að fiskvinnslan verði síðan að róta þessu út mestmegnis sem roðfiski? Auðvitað er það ekki eðlilegt. Hún borgar verð fyrir fyrsta flokks vöru en hefur ekki aðstöðu til þess að nýta hana sem slíka. Ef fiskvinnslan réði því hvað hún borgaði fyrir þetta þá reyndu mennirnir ekki að koma með svona mikinn afla að landi. Þá væru þeir farnir að spyrja sig: Hvað fæ ég í krónum á móti mínum tilkostnaði? Það er það sem er verið að tala um þegar menn tala um frjálst fiskverð. Það er það sem er verið að tala um þegar menn fara fram á frjálst fiskverð. Það er mjög einföld leið til þess að samræma hagsmuni fiskvinnslu, útgerðar og sjómanna.

Ég hef aldrei skilið þá undarlegu samstöðu hægri og vinstri afla hér á þingi - þ.e. ég hef alveg skilið hana en ég hef aldrei fengið skýringu á henni, alla vega ekki héðan úr ræðustól - hvað sjálfstæðismenn og vinstri menn ná hjartanlega saman í þessu máli um frjálst fiskverð. Ef menn rekur ekki minni til þess þá standa vinstriflokkafulltrúar hér alltaf upp þegar talað er um frjálst fiskverð og mótmæla því vegna þess að það verður svo erfitt að semja fyrir sjómenn. Líkt eins og þeir samningar sem í gangi eru núna fyrir sjómenn séu svo ákjósanlegir. Líkt eins og það sé það sniðugasta í heimi að vera með þann millifærslusjóð sem Aflatryggingasjóður er til þess að koma aurum úr fiskverði annars vegar yfir til útgerðar, fram hjá sjómönnum. Og sjómenn geta ekkert að gert. En menn vilja ekki tala um frjálst fiskverð. Nei, kvótakerfi skal það vera. Kvótakerfi Sjálfstfl. og Framsfl.

Ég er ansi hræddur um það að þegar við lítum til baka eftir svona 15 ár þá hristi menn hausinn yfir þessu framsóknartímabili í íslenskri sögu, hvernig mönnum gat dottið í hug í raun og veru að rúlla sér til baka niður til áranna í kringum 1950 þegar fjölskyldurnar fengu sendar heim seðla með miðum sem hægt var rífa í sundur eins og strætisvagnamiða og fara síðan með þá út í búð og kaupa fyrir það vöru. Þá minnir mig að maður hafi stundum heyrt eitthvað æmta í Sjálfstfl. Eða á tímum bátagjaldeyris. Þá minnir mig líka að Sjálfstfl. hafi risið upp til varnar. En ekki nú. Nú lætur Sjálfstfl. sér vel líka og dettur ekki í huga að hreyfa við þessu máli lengur. Ég er auðvitað ekki að tala um þá fáu einstaklinga innan þingflokks Sjálfstfl. sem staðið hafa hér upp og sagt hug sinn í þessu máli, lýst andúð sinni á því og eindreginni andstöðu.

En ég minni á það að þegar þetta kom til álita 1983 þá var lengi fram eftir hausti, t.d. í þessari hv. deild, algjörlega óvíst hvort þetta frv. yrði samþykkt. Svo margir voru andstæðingar þess í fyrstu í þessari deild þá, en síðan beygðust þeir hægt og sígandi. Kannske á mannkynssagan einhvern tíma seinna meir eftir að skýra það út fyrir okkur með hverju Framsfl. beygði þá. (Gripið fram í.) Menn eru farnir að skrifa snöggtum raunsærri og opinskárri mannkynssögu í dag hv. 2. þm. Austurl., en þeir gerðu fyrrum. (HS: En Íslandssöguna?) Íslendingar eru ekki lengur það eyland sem þeir voru. Þeir eiga orðið sitt sæti í mannkynssögunni og býsna skondið á stundum en oft og tíðum þá geta þeir m.a.s. verið svolítið stoltir af því. Og stolt þeirra af sínum þætti í mannkynssögunni snertir nú kannske einmitt sjó og sjávarútveg.

Íslendingar eru tvímælalaust brautryðjendur í landhelgismálum og baráttu fyrir réttindum til hafsbotnsins og efnahagslögsögunnar og sú barátta er enn í gangi. En á meðan þeir berjast fyrir þessum réttindum sínum á alþjóðavettvangi þá skammta þeir landsmönnum sínum viðurværi sitt úr lófa rétt eins og um ölmusumenn væri að ræða. Og menn hafa ekki tækifæri, menn hafa ekki möguleika til þess að sýna hvað í þeim býr. Þetta er þannig séð líka uppeldislega mjög óhollt vegna þess að smátt og smátt er dregið svo gjörsamlega úr sjálfsbjargarhvöt manna að henni er, eins og ég nefndi áðan, nánast hægt að líkja við dvöl tukthúslima í fangelsi þar sem aðaláhyggjumálið er hvað þeir fá í mat í kvöld og hvernig þeir sofa í nótt og hvað þeir fá í mat í fyrramálið. Menn eru gjörsamlega hættir að spyrja: Hvers vegna er ég í þessum sporum og er ekki hægt að breyta þessu?

Það þarf líklega ekki að dyljast nokkrum manni hver afstaða mín til þessa frv. er og þar af leiðandi hvernig ég muni greiða atkvæði, hæstv. forseti. Ég vildi samt sem áður láta það koma fram að ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu frv. og mun halda því áfram svo lengi sem það er borið upp til atkvæða í þessari deild. En ég vona innilega að ég eigi eftir að lifa það að þetta frv. ljúki sínum lífdögum, að þeir tímar komi að menn átti sig á því að til eru aðrar aðferðir til þess að búa í þessu landi. Það eru til aðrar aðferðir og betri til að bæta lífskjör í landinu og það eru til aðrar aðferðir og betri til að auka sjálfsvirðingu fólks í landinu.