19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

145. mál, stjórn fiskveiða

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka til máls við þessa umræðu. Ég lýsti skoðun minni á þessu máli síðast. En ég get ekki látið fram hjá mér fara þegar þessi hv. þm., Stefán Benediktsson, formaður þingflokks Bandalags jafnaðarmanna, heldur hér eina af sínum ræðum, þessum sömu ræðum sem haldnar eru tvisvar til þrisvar við hverja einustu umræðu í öllum málum nú. Þessi sama ræða faríseans í musterinu hjá tollheimtumanninum: Guð ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn.

Ég get bent hv. þm. á það að haldi hann áfram þessum ræðum þá verða - eins og hann hlýtur nú að fara að sjá sjálfur bráðum - ekki prósentin 2, 3 eða 4, heldur kjósendurnir 2, 3 eða 4 sem fylgja þessum flokki. (StB: Ert þú spámaðurinn?) Ég er a.m.k. eins mikill spámaður í þessum efnum og hv. þm. hefur vit á fiskveiðimálum.

Það var svo margt rangsnúið og ruglað sem hv. þm. sagði að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. En fyrst hann byrjaði á að tala um auðlindir, sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, þá ætti hann að lesa sér svolítið til um það í mannkynssögunni t.d. að sameiginleg nýting auðlinda hefur aldrei tekist og mun aldrei takast. Hún er núna eingöngu við lýði við nýtingu beitilanda á nokkrum vanþróuðum stöðum, t.d. hér á landi, vanþróuðum í landbúnaði. (Gripið fram í.) Ég hefði gaman af að vita hvort hann veit það hvenær hætt var að reyna að nýta olíulindir og námur sameiginlega. Sameiginleg nýting auðlinda leiðir alltaf til ofnýtingar, rányrkju og hruns á þeim auðlindum sem í boði eru. Um það vitnar mannkynssagan sem herra þingmaður ætti sérstaklega að fara að lesa núna vel og ekki eftir 15 ár. (Gripið fram í: Það er biskupinn sem er ávarpaður með herra.) Það eru fleiri hér inni sem þyrftu lexíu í þessum málum og ég skil ekkert í hv. þm. þessarar deildar, sem þykjast hafa áhuga á þessum málum og að kynna sér málin til hlítar, að koma ekki á fyrirlestur eins virtasta manns á alþjóðavettvangi hvað varðar mótun fiskveiðistefnu, dr. Rögnvaldar Hannessonar, sem flutti erindi á þriðjudaginn var vestur í háskóla. Þá var þessi deild einmitt nýbúin að ljúka fundi og þá hefðu menn átt að nota tækifærið. Ég held að ýmsir hér hefðu haft gott af því þó að ég viti svo sem og hafi sagt það áður að engin rök bíta í þessu máli. Þetta er hreint trúaratriði hjá þeim sem það er ekki hreint og klárt hagsmunaatriði, því ég reikna ekki með því að hv. þm. Stefán Benediktsson hafi neinna beinna hagsmuna að gæta í þessum efnum. Það hlýtur að vera hans trú.

Ég sagði hérna í ræðu um daginn, sem hv. þm. hefur sennilega ekki hlustað á, og mér er vel kunnugt um það og það var staðfest af dr. Rögnvaldi um daginn, að engin þjóð þar sem fiskveiðar eru stundaðar, sem nokkru máli skiptir, hefur fundið betri leið til að stjórna þeim en með einhvers konar kvótakerfi. Kvótakerfi geta verið mismunandi. Það getur verið kvóti á menn, kvóti á skip, kvóti á byggðarlög, kvóti á útgerðarfélög og svona mætti lengi telja. Þetta kvótakerfi var ekki fundið upp af Framsfl., síður en svo. Ef einhver maður er höfundur að því þá er það ég. Ég skrifaði um þetta grein fyrst í Dagblaðið Vísi vorið 1980, aðra grein í Ægi sumarið 1980 og ég hef skrifað um þetta fleiri greinar. Mér varð það ljóst þá, þó ég vissi að tíminn væri ekki kominn, að við mundum enda á þessu kerfi og engu öðru. Mér var það alveg ljóst þá. Þá vorum við um það bil að taka upp kvóta á loðnuveiðar og við gátum ekki með nokkru móti stjórnað ofsókn í fiskinn nema með einhverjum hætti þar sem fiskinum er skipt niður eftir ákveðnum fyrir fram ákveðnum reglum.

Það var einkennilegur málflutningur hjá hv. þm. líka að halda því fram - og reyndar er það að æra óstöðugan að eltast við að stöðugt eru andstæðingar þessarar stefnu að fara með rangar tölur, og þar er hv. 4. þm. Vesturl. síst undanskilinn, það er stöðugt farið með rangar tölur um hvaða máli þessi fiskveiðistefna hafi skipt fyrir afkomu sjávarútvegsins. Kerfinu er kennt um það að fólk fæst ekki í fiskvinnu. Kerfinu er kennt um það að afkoma fiskvinnslunnar er eins slæm og raun ber vitni. Auðvitað skiptir gengi dollarans afkomu fiskvinnslunnar höfuðmáli. Það er einkennilegt líka að heyra hv. þm. Stefán Benediktsson tala um að verið sé að taka sjálfsbjargarhvötina og kappið frá mönnum og tala um tukthúslimina, þessa sjómenn okkar og útvegsmenn. Ég skil ekki þennan hugsunarhátt. Hvaða óskapleg væmni er það í mönnum að tala sífellt um það að verið sé að taka eitthvert kapp frá mönnum.

Ég hjó eftir ýmsu í ræðum hv. þm. Skúla Alexanderssonar og Kolbrúnar Jónsdóttur. Það er aðeins eitt sem ég ætla að nefna í því sambandi. Ég nenni ekki að rekja mig eftir því öllu. Það er aðeins eitt sem ég ætlaði að nefna. Það kerfi sem kallað hefur verið „Tillögur Farmanna- og fiskimanna- sambands til stjórnunar fiskveiða“ er ekkert kerfi. Þetta eru nokkrir punktar, rammi sem saminn var á nokkrum klukkutímum eftir að nefndin, sem fjalla átti um málið, var sprungin í loft upp. Eftir þessu kerfi er ekki nokkur einasta leið að stjórna. Þetta eru punktar sem gætu hugsanlega orðið að fiskveiðistjórnun ef menn kærðu sig um það. Menn kvarta yfir því að fjölmiðlar hafi ekki fjallað nógu mikið um þetta. Það er einfaldlega af því að þeim fannst það svo ómerkilegt. Tillaga hv. þm. Skúla Alexanderssonar var drepin í föðurhúsum. Hún slapp aldrei út fyrir túngarðinn. Hann var höggvinn á hlaðvarpanum. En um það verður hann að fást við sína fulltrúa í iðnaðarnefndum.

Ef menn geta með nokkru móti fært það sem rök gegn kvótakerfinu að hér sé stunduð nú meiri útgerð sem ber sig, ef menn ætla að finna það kvótakerfinu til foráttu að menn leiti frekar til útgerðar á frystitogurum sem sannanlega bera sig nú og sannanlega selja fyrir meira verðmæti en samanlagt mundi verða það verðmæti sem þeir færðu að landi og unnið verði að fullnustu þar, ef menn vilja færa það kvótakerfi til lasts að fluttur er út fiskur í gámum, minna unninn en ella, þegar það borgar sig, þá skil ég ekki röksemdafærslu. Ef menn vilja halda því fram að einhverjir sem notið hafa forréttinda í gegnum aldirnar, notið hafa forréttinda til að nýta þessar sameiginlegu auðlindir, sem hv. þm. Stefán Benediktsson var að tala um - og þar á ég við þá sem næstir liggja miðunum - þá ættu menn að líta á það hvað gerst hefur síðan kvótakerfið var tekið upp. Það vill nefnilega þannig til að ef við tökum 15 ára tímabilið frá árinu 1968 til 1983, þá var þorskafli Vestfirðinga 15% af þorskafla landsmanna. Í fyrra var hann 17% og verður væntanlega hærra hlutfall í ár. Er verið að svínbeygja þennan landshluta? Ekki get ég með nokkru móti skilið þá röksemdafærslu. En þetta eru tölur sem þessum hv. þm. koma auðvitað ekkert við.

Ég vil líka ítreka það, sem hér kom fram um daginn, að í Grímsey hefur á milli áranna 1984 og 1985 orðið 35% aukning á lönduðum afla. (KolJ: Á lönduðum afla?) 35% aukning á lönduðum afla.

Ég veit ekki hvort það þýðir nokkuð að tala lengur um þetta mál. Það getur vel verið að það sé búið að segja of margt um það, en ég ætla að biðja menn fyrir alla muni að halda sig við staðreyndir í málinu.