19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

145. mál, stjórn fiskveiða

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu. En varðandi síðustu orð hv. 3. þm. Vesturl. þá er það rétt hjá honum að þetta er sama tala í tonnum. En það væri skemmtileg tilbreyting á Íslandi ef hægt væri að koma við þessu kerfi í launasamningum án þess að sagt væri að verið væri að hækka alla jafnt því að þessu má líkja við sömu krónutölu á laun. Hér er verið að lækka tölu í hlutföllum og það var það sem ég sagði. Hér er verið að breyta þeim reynslugrunni sem kvótakerfið byggir á. Það er hægt að breyta því með því að setja sömu tonnatöluna á misjafnlega háar tölur en við fáum það endanlega út að verið er að lækka þetta í hlutföllum. Ég vona að hv. þm. sé sammála mér um þetta efni því að þetta liggur í augum uppi.

En það var skemmtilegt að fram kom hér úr ræðustól hver er guðfaðir kvótakerfisins og eðlilegt að þeim hv. þm. sé svolítið annt um að þetta kerfi haldi lífi. Eins og hann komst svo skemmtilega að orði í ræðu sinni, við endum á þessu kerfi. Það mátti á honum skilja að þetta væri endatakmarkið, hingað værum við komin með þetta ágæta kvótakerfi og út úr því yrði ekki farið meir. (Gripið fram í: Það er rétt skilið.) Já, það er rétt skilið, sagði hv. þm. En ég vona bara að það séu ekki mjög margir sammála honum innan Sjálfstfl. um að það sé hið endanlega takmark, sem Íslendingar skuli ná, að skipta með þessum hætti afla milli skipa og landsmanna.

Hv. þm. sagði að tillögur Farmanna- og fiskimannasambandsins væru ekki hæfar til að stjórna eftir. Það er eðlilegt að manni, sem helst vill stjórna þessu svo rækilega að hverjum einasta fiski verði skipt niður á fiskiflotann, honum finnist lítið til þess koma ef fram koma tillögur um eitthvert frjálsræði innan þessa kerfis. Það skil ég mætavel.

En ég vil undirstrika að ég er algerlega ósammála slíkum skoðunum. Ég held að tillögur Farmanna- og fiskimannasambandsins séu mun betri en þessar tillögur sem hér eru í frumvarpsformi og hv. þm. Skúli Alexandersson fór vel yfir áðan og ég ætla ekki neinu við það að bæta.

En vegna orða Björns Dagbjartssonar, hv. 5. þm. Norðurl. e., varðandi skiptingu á þorskafla milli landshluta, þá er hér ágætis tafla yfir slíka skiptingu. Það má fleira lesa út úr henni en hv. þm. gerði því að þar vildi hann undirstrika að Vestfirðingar hefðu bætt við þorskaflann miðað við 15 ár og síðan tvö s.l. ár. En út úr þessari töflu má líka lesa hvað mikið hefur verið selt af kvóta milli landshluta. Þar kemur fram að Vestfirðingar hafa þurft að kaupa kvóta. Annars vegar kemur fram kvótaúthlutun og hins vegar afli af þorski. Lítill hluti af þessu á Vestfjörðum er vegna sóknarmarks vegna þess að það eru fáir togarar á Vestfjörðum á sóknarmarki. Það kemur fram að kvótaúthlutun hefur verið um 14% af heildarþorskaflanum en aflinn hefur verið yfir 16%. En þegar maður fer að líta einmitt á þetta, úthlutun kvóta og síðan aflamarkið, eða aflann sem hefur fengist, þá er það áberandi hvað kvótaúthlutun hefur verið mun hærri á Reykjanesi heldur en aflinn segir til um. Það segir okkur einnig að kvóti hefur verið mikið seldur frá Reykjanesi. Og það er staðreynd því að víða um land hafa Reyknesingar meira að segja boðið fram kvóta á 5-6 krónur kílóið af þorski og hérna höfum við þetta í töfluformi. Aflinn er um 19% á móti því að rúmlega 24% voru kvótaúthlutun, þannig að þarna er yfir 4% munur.

Austurland hefur einnig losað sig við sinn afla, þeir hafa ekki getað náð þeim afla sem þeir fengu úthlutað, og Suðurland. Það mætti líka velta því fyrir sér hvort Sunnlendingar hafi jafnvel skipt á þorski og öðrum fisktegundum, en það kemur ekki fram í þessu. Þetta gæti líka falist í því, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson nefndi áðan, að menn geta skipt eða breytt síld, meira að segja síld, yfir í þorsk, og það verndar ekki mikið þorskstofninn þegar slíkt kerfi er við lýði.

Ég ætla ekki að fara út í ræðu hv. 3. þm. Suðurl., Árna Johnsens, þar sem hann er ekki í salnum og ég geri mér fullljóst að svona seint að kvöldi er tími til kominn að þessari umræðu fari að ljúka og hvað sem ég stæði hér lengi og mótmælti þessu kvótakerfi er hæstv. ríkisstj. sannfærð um að koma verði þessu kerfi á.

Ég vil þó í lokin benda á tilfærslu á milli fiskiskipa. Það kemur greinilega fram í Útvegi frá 1984 sem ég vitnaði í varðandi þessa töflu. Ég gleymdi reyndar að fá, leyfi hæstv. forseta til þess að vitna í þetta rit en vona að mér fyrirgefist það. (Forseti: Það má margt fyrirgefa á þessu kvöldi.) Þakka þér fyrir það, en ég ætla þá að fá að vitna hér aðeins um hvað aflinn hefur vaxið hjá togurum, en að sama skapi dregist saman hjá öðrum. Hér stendur:

„Nokkur tilfærsla átti sér stað í hlutdeild einstakra veiðarfæra. Netaveiði dróst verulega saman, en afli í önnur veiðarfæri óx, bæði hlutfallslega og að magni. Sem fyrr veiðist mest af þorski í botnvörpu. Nam hlutdeild hennar um 57,8%, sem er nokkur aukning frá fyrra ári. Hlutur togaranna jókst verulega. Af þorskaflanum komu 52,6% í þeirra hlut. Árið 1983 var hlutdeild þeirra 47% og á árinu 1982 44,3%.“ Þarna sjáum við svart á hvítu hvernig þessi stjórnun hefur fært afla, fært verðmæti frá bátum til togaranna. Hvort þetta er gott eða slæmt ætla ég ekki að láta í ljós skoðun á núna, en það er alla vega ekkert frelsi sem er í því fólgið að færa afla á milli fiskiskipa með stjórnaraðgerðum.