19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

145. mál, stjórn fiskveiða

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstvirtur forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mikið. Ég hef ekki tekið til máls fyrr um þetta mál, en hér liggur fyrir brtt. á þskj. 395 sem getur haft stórmikla þýðingu fyrir mitt kjördæmi sem er Reykjavík, enda er hún frá hv. 8. þm. Reykv., og er óþarfi að lesa hana upp. En í fáum orðum felur hún í sér að Alþingi skuli ákveða hámarksafla á hverju ári af ákveðnum fisktegundum, sem þar eru taldar upp, og síðan skuli ráðherra sjávarútvegsmála skipta þessu aflamagni jafnt á milli allra landsmanna fyrir 15. janúar - við höfum þarna jólin og samtals hálfan annan mánuð til þess að gera það - þannig að hver landsmaður fái í sinn hlut skuldabréf upp á þá upphæð sem þá kemur út.

Ég get ekki sem 1. þm. Reykv. verið á móti þessu þó ég efist um að þetta sé nú réttlát till. en get þó ekki stutt till. vegna þess að mér finnst hún ekki vera alveg nógu útfærð. Ég hefði viljað fá að vita hvort ríkir jafnt sem fátækir eigi að fá sömu upphæð í skuldabréfum og hvort flm. gæti ekki hugsað sér að þessi ágætasta hugmynd hans væri þá notuð að einhverju leyti til tekjuöflunar á milli landsmanna og hvort ekki væri þá hægt að koma á einhverju fyrirkomulagi þannig að úthlutun færi fram samkvæmt skattaframtölum, eitthvað slíkt. Og hún yrði ekki framkvæmd af ráðherra því ráðherrar hafa yfirleitt annað að gera en að standa í svona málum - e.t.v. væri hægt að efla félagsmálastofnun, t.d. Reykjavíkur, eða stofna nýja félagsmálastofnun landsmanna til að framkvæma þessa tillögu.

Ég vil ekki segja fleira um þetta, en um slíka till. sem hér er lögð fram segi ég að það hvarflar ekki að mér eitt augnablik að hér sé um einhvers konar grín að ræða. Þetta er djúpt hugsað og ég bið hv. þm. að taka þessa till. alvarlega þó að hún sé kannske ekki tilbúin til þess að hljóta afgreiðslu að þessu sinni.