19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

151. mál, geislavarnir

Frsm. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. heilbr.- og trn. um frv. til l. um geislavarnir á þskj. 379. Þar segir með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið á tveim fundum en vegna tímaskorts hefur ekki gefist tækifæri til að athuga málið sem skyldi.

Ekki hefur komið fram neinn rökstuðningur fyrir fjölgun ríkisstofnana með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Undirrituð telur að gæta þurfi aðhalds og sparnaðar í rekstri og uppbyggingu opinberra stofnana.

Ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að hægt sé að sinna sem skyldi því eftirliti, sem Geislavörnum er ætlað að annast, hér eftir sem hingað til frá deild innan Hollustuverndar ríkisins eða annarrar ríkisstofnunar.

Alþingi ætti fremur að leita leiða til þess að sameina og fækka ríkisstofnunum en setja á fót nýjar án sýnilegs ávinnings.“

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að átelja vinnubrögð varðandi meðferð á þessu máli en þá er ég ekki að átelja formann nefndarinnar, síður en svo. Það var haldinn nefndarfundur í gærmorgun, því að málinu var vísað til okkar í fyrradag, og við höfðum einn sólarhring til þess að taka ákvörðun um hvort við séum fylgjandi þessu máli eða ekki. Þetta verður að átelja vegna þess að hér er ekki um mál að ræða sem þarf að flýta sérstaklega. Það er ekkert varðandi fjárlagagerðina sem gerir það að verkum að þetta þurfi að afgreiða fyrir áramót, en að því spurðum við sérstaklega. Það er því engin ástæða að mínu mati til að afgreiða þetta mál núna, í þessum önnum fyrir jól. Það er vissulega tilefni til þess að athuga það nánar hvort svo fámenn stofnun, sem telur telur starfsmenn, geti og eigi að vera sjálfstæð. Hvort Geislavarnir eigi ekki frekar að vera deild í Hollustuvernd ríkisins eða Vinnueftirliti ríkisins, eða stofnun eða deild í náinni samvinnu við ríkisspítalana, borgarsjúkrahúsin og sjúkrahúsin um landið, en þar eru langflest þau tæki sem þarf að fylgjast með.

Eins og ég sagði áður þá er hér um örfáa starfsmenn að ræða sem vinna sérhæft starf, þ.e. eftirlit með innflutningi og meðferð geislavirkra efna og geislatækja. Þrátt fyrir þessa sérhæfðu starfsemi sé ég ekki nein rök fyrir því að gera Geislavarnir að sérstakri stofnun. Yfirgnæfandi meiri hluti þessarar starfsemi er eftirlit með tækjum á sjúkrastofnunum, eins og ég hef áður komið að, þ.e. röntgentækjum. Það eru því ekki sannfærandi rök að ekki verði um kostnaðarauka að ræða fyrir ríkissjóð vegna þessarar breytingar. Næsta víst er að um einhvern kostnaðarauka verður að ræða við þessa stofnun, þ.e. við stjórnun þessarar stofnunar og í rekstri hennar, því að af sjálfstæði hennar leiðir að hún verður að hafa eigið bókhald og ýmsa yfirstjórn. Þá hækka starfsmenn, sem þar vinna, í launaflokkum því að þeir breyta um titla og eins og við vitum þá raðast þeir öðruvísi í launaflokka, hækka alla vega um 2-3 launaflokka og þetta lendir að mestum hluta á ríkinu. Við komumst ekki hjá því. Þess vegna tel ég alls ekki tímabært að samþykkja þetta frv., bæði illa athugað og illa rökstutt að það sé rétt að gera þriggja starfsmanna stofnun að sérstofnun innan ríkiskerfisins þar sem manni finnst að á mörgum sviðum ætti að draga verulega saman.