19.12.1985
Efri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

151. mál, geislavarnir

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég tók þessu frv. með mikilli styggð þegar ég fyrst leit það, einkum vegna þess að ég hef verið þátttakandi í því að sameina stofnanir og fyrirtæki ríkisins og skildi ekki í þessu afturhvarfi sem þarna átti sér stað. Að vísu gerði ég mér grein fyrir því að nú þegar Sjálfstfl. segir: Báknið burt þá meinar hann: Báknið kjurt. Það var svo skammt frá kosningum sem síðasta umræða um þetta fór fram á sínum tíma.

Ég verð að játa það að eftir að hafa fengið þá aðila, sem komu til fundar við nefndina, til viðræðu varð viðhorf mitt það að rétt væri að samþykkja þetta frv. Það liggur fyrir að Geislavarnir ríkisins eru þáttur í kerfinu sem ekki snertir aðra þætti þess, er mjög sjálfstæður og því e.t.v. eðlilegt að hér sé um sjálfstæða stofnun að ræða. Og það vakti undrun mína í þessari umræðu að Geislavarnir ríkisins hafa starfað sem eins konar góðgerðarstofnun ríkisins gagnvart verktökum og tannlæknum á Íslandi, vegna þess að Geislavörnum hefur verið gert að skyldu að skoða tæki tannlækna einu sinni á ári og tekið fyrir það 3000 kr. Þessu hefur Tannlæknafélagið mótmælt og neitað að borga, en það hefur aftur haft það í för með sér að Geislavarnir ríkisins eru komnar í mál við tannlækna. Og þrátt fyrir það að þvílíkir öreigar eiga þarna hlut að máli, tannlæknar á Íslandi, vona ég að takist að innheimta þessa greiðslu sem fyrst.

Það kom einnig fram í viðræðum við þá sem til voru kallaðir að helstu verktakar á Íslandi þurftu að greiða allt að 7500 kr. fyrir skoðun á flóknum tækjum, þessum niftontækjum. Hvernig þessi verðlagning verður til veit ég ekki en ég verð að játa áð það er með undarlegri hlutum hvernig þetta þriggja manna starfslið ríkisins þarf að vera á framfæri þess til þjónustu fyrir tannlækna og verktaka á Íslandi. Ég veit ekki hvað veldur þessu en ég er andvígur þessu. Ég er andvígur því að ríkið sé að halda uppi einhverri sérstakri góðgerðarstofnun fyrir verktaka og tannlækna á Íslandi. Ég treysti því að hin nýja stofnun vinni fyrir sér og það þarf að vera svo. Og í trausti þess samþykki ég þetta frv., í trausti þess að stofnunin vinni fyrir sér, taki gjald fyrir sína vinnu, verði ekki ómagi á fátæku alþýðufólki á Íslandi. Ég veit að þetta er hugsjónalega á móti þeirri stefnu Sjálfstfl. að ríkið sjái ekki fyrir fyrirtækjum á Íslandi og m.a. þess vegna samþykki ég þetta frv.