19.12.1985
Neðri deild: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

168. mál, Aflatryggingarsjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 319. Það er svohljóðandi:

„Þær millifærslukúnstir, sem lýst er í frv. og athugasemdum með því, eru alls ekki viðunandi í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Í stað miðstýringar og skaðlegrar forsjárhyggju, sem ríkir í verðlagsmálum greinarinnar, er nauðsynlegt að koma á fiskmörkuðum og frjálsri fiskverðsmyndun, ásamt frjálsari verðlagningu gjaldeyris. Ef venjuleg lögmál viðskiptalífs fengju þannig að ráða hyrfu skammtalækningar eins og frv. lýsir. Undirritaður mun greiða atkvæði gegn frv.“

Við þetta er raunar litlu að bæta. Sá vandi, sem verið er að leysa með millifærslum á þessum uppsafnaða söluskatti, er einfaldlega heimatilbúinn. Hann er til kominn vegna þess hvernig staðið er að því að skapa þessari grein umhverfi og það er dálítið hart að þau verkefni séu kannske þm. fyrirferðarmest á Alþingi sem þeir hafa þannig skapað sjálfir. Því held ég að menn ættu að snúa sér að því - eins og ég segi hér í álitinu að búa þessari grein þannig umhverfi að ekki þurfi sífellt að vera með svona kúnstir, hvort sem það er millifærsla á uppsöfnuðum söluskatti eða peningar sem teknir eru úr öðrum sjóðum. Það er augljóst að við svo búið verður ekki lengur unað.

Eins og ég lýsi yfir í álitinu mun ég greiða atkvæði gegn þessu frv.