19.12.1985
Neðri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. Nd. um lánsfjárlög. Meiri hlutinn mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem fluttar eru á þskj. 361. Minni hlutarnir munu hins vegar skila séráliti.

Þær breytingar sem meiri hl. nefndarinnar leggur til að gerðar verði fela í sér 1241 millj. kr. hækkun á heildarlántökum, þar af 390 millj. kr. á innlendu lánsfé og 851 millj. kr. á erlendu lánsfé. Ráðgert er að afla 4 milljarða og 210 millj. kr. innanlands og 8 milljarða 277 millj. kr. með erlendum lántökum. Frekar er gerð grein fyrir þessu í nefndarálitinu og vísa ég til þess. Sumar þær breytingar sem gerðar eru tillögur um að gera á frv. eins og það kom frá Ed. eru vegna afgreiðslu lánsfjárlaga, en þetta mun vera í fyrsta skipti sem reynt er að afgreiða lánsfjárlög og fjárlög samtímis og má því segja að nú sé um það bil að renna upp stór stund í sögu ríkisfjármálanna þegar hægt verður að ná heilstæðri mynd áður en fjárhagsárið byrjar.

Á bls. 2 í nál. er gerð grein fyrir þessum breytingum. Vegna afgreiðslu fjárlaga verða nokkrar breytingar á frv. svo sem eins og á grein um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er ljóst að 21. gr. frv. er felld út vegna þess að hún var inni fyrir mistök. 26. gr., eins og hún er í frv. frá Ed., fellur niður vegna breytinga sem gerðar voru í fjvn. Gert hafði verið ráð fyrir 100 millj. kr. skerðingu á framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs, en frá því ráði var horfið.

Þá skal það tekið fram að brtt. er flutt um nýtt skerðingarákvæði sem komi þá á eftir 27. gr. í frv., eins og það kom frá Ed. Það hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. gr. laga nr. 32/1979, um framlög ríkissjóð til greiðslu kostnaðar af forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum, falla þær greiðslur niður á árinu 1986 og skuli þess í stað greiðast af tekjum Stofnlánadeildar landbúnaðarins, skv. 2. tl. 4. gr. laga nr. 45/1971.“

Þetta þýðir, herra forseti, að niður falla úr fjárlögum greiðslur sem ríkið átti skv. lögum að inna af hendi til forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum, þær greiðslur nema u.þ.b. 20 millj. kr., en verða þess í stað bornar uppi af verðlaginu án þess að verðlag hækki. Þetta stafar af því að skv. 2. tl. 4. gr. laga nr. 45/1971 eru lögð gjöld á landbúnað og landbúnaðarafurðir og munu þau gjöld að nokkrum hluta standa undir þeim greiðslum sem áður voru á ríkissjóði.

Þá er hægt að geta áhrifa breyttra verðlags- og gengisforsendna á suma liði frv. Gert er ráð fyrir að við afgreiðslu fjárlaga hafi verðlag hækkað um 5-51/2% frá því að frv. kom fram til verðlags dagsins í dag. Þessi verðlagsbreyting er m.a. vegna launabreytinga upp á 3%. Auk þess kemur til launaskrið og gengisbreytingar. Þá er enn fremur í þessu frv., eins og í fjárlagafrv. þegar það kemur til 3. umr., gert ráð fyrir því að bæta við því sem nemur breytingum á verðlagi milli meðalverðlags ársins í ár til ársins 1986. Það skal einnig tekið fram að ekki eru allir liðir sem innihalda ákveðið fjármagn verðbættir í þessu frv. né heldur í fjárlagafrv.

Þá skal þess getið enn fremur að fluttar eru tillögur um skuldbreytingar á skammtímalánum hjá hitaveitum. Á þetta við um Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, um Hitaveitu Akureyrar og Fjarhitun Vestmannaeyja. Hér er um verulega háar upphæðir að ræða, en þessar upphæðir hækka ekki skuldastöðuna út á við því hér er um skuldbreytingar að ræða.

Þá vil ég vekja sérstaka athygli á því að á bls. 3 í nál. er vikið að nýrri verklagsreglu, en hæstv. fjmrh. beindi þeim tilmælum til nefndarinnar að hún vekti athygli á því að erfitt er að sjá í lánsfjárlögum á hverjum tíma hve miklar lántökuheimildir hafa verið gefnar á undanförnum árum.

Í lok nál. segir svo, með leyfi forseta:

„Til að koma festu á þessi mál þarf því að koma upp ákveðinni vinnureglu varðandi gildistíma lántökuheimilda í lánsfjárlögum. Meiri hl. telur nauðsynlegt að í lánsfjárlögum hverju sinni verði sett inn sérstök grein sem kveði á um að þær heimildir sem þar komi fram gildi einungis innan fjárlagaársins. Jafnframt er lagt til að farið sé með ónýttar heimildir eins og gert er með fjárveitingar til stofnkostnaðar, að hægt sé að sækja sérstaklega um geymslu, eða m.ö.o. að flytja heimildir milli ára. Beiðni um geymslu lántökuheimilda þyrfti að hafa borist Fjárlaga- og hagsýslustofnun eigi síðar en 15. nóvember þess árs sem heimildin er veitt skv. lánsfjárlögum.

Varðandi þá aðila sem telja sig eiga ónýttar heimildir frá fyrri árum verður árið 1986 nokkurs konar uppgjörsár þannig að frá og með áramótunum 1986/1987 falla allar eldri heimildir úr gildi.“

Ég held, herra forseti, að hér sé hreyft veigamiklu máli, og takist það að koma lánsfjárlögum á sama grunn og fjárlög og verði þessi tvenn lög afgreidd samhliða á Alþingi í framtíðinni eins og nú hefur tekist, eða a.m.k. eins og horfir, er um stórkostlegt framfaraspor að ræða í fjármálum ríkisins.

Ég vil aðeins, forseti, víkja fáeinum orðum að Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er ljóst og við reynum ekki að draga dul á það að séu bornar saman tölur í lánsfjárlögum eða lánsfjárlagafrv. og fjárlagafrv. og þær tölur sem birtast a.m.k. nú síðast frá Lánasjóði ísl. námsmanna, munar u.þ.b. 30% á þessum tölum sem gæti þýtt það, ef Lánasjóður ísl. námsmanna hefur rétt fyrir sér og áætlanir hans standast, að 30% vanti á að hægt sé að fullnægja lánaþörf námsmanna skv. þeim reglum sem nú eru í gildi. Það skal tekið fram að hæstv. menntmrh. kom á fund nefndarinnar og skýrði frá því að hann mundi nú innan skamms tíma beita sér fyrir breytingum á reglugerð um Lánasjóðinn og stefna þannig að því að hægt sé að draga úr lánsfjárþörf sjóðsins, eða réttara sagt, úr lánaþörf íslenskra námsmanna. Hann tók hins vegar skýrt fram að staðið verður við allar þær skuldbindingar sem gefnar hafa verið hingað til til þeirra sem eiga rétt á láni úr sjóðnum. Það er því ljóst að á næstu dögum, vikum og mánuðum verður unnið af kappi að því að fara ofan í málefni Lánasjóðsins í því skyni að breyta lánareglum til þess að það sé eðlilegt samræmi á milli fjárþarfar þeirra sem fá lán úr sjóðnum og hinna sem þiggja laun á almennum vinnumarkaði.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að það eru nokkur atriði sem þurfa væntanlega lagfæringar við í frv. eins og það stendur nú og þrátt fyrir þær brtt. sem fluttar hafa verið á þskj. 361. Stefnt verður að því að halda fund í nefndinni á milli umræðna og þess freistað með þeim hætti að samræma endanlega tölur sem þurfa að koma fram í lánsfjárlögum og í fjárlögum fyrir næsta ár. Þar á meðal vil ég benda á að ekki vannst tími til að breyta tölum í 14. gr. frv. eins og það kemur frá hv. Ed., en mér er kunnugt um það að hv. fjvn. hefur þegar gert tillögu til hækkunar á framlagi ríkisins til Stofnlánadeildar landbúnaðarins vegna Lífeyrissjóðs bænda. Þar er um að ræða hækkun vegna verðlagsbreytinga.

Að öðru leyti, herra forseti, get ég vísað til þeirra taflna sem birtast sem fylgiskjöl með nál. meiri hl. Þar er í fyrsta lagi yfirlit um innlendar og erlendar lántökur ef tillögur meiri hlutans verða samþykktar. Í öðru lagi ráðstöfun lánsfjár 1986. Í þriðja lagi greiðsluyfirlit lífeyrissjóða 1986. Í fjórða lagi sundurgreining á fjáröflun og lánveitingum Framkvæmdasjóðs Íslands. Í fimmta lagi sundurliðun á innstreymi og útstreymi Byggingarsjóðs ríkisins. Í sjötta lagi innstreymi og útstreymi Byggingarsjóðs verkamanna. Í sjöunda lagi er tafla yfir fjármunamyndum 1984-1986 sem unnin er af Þjóðhagsstofnun og þar kemur í ljós að fjármunamyndun eða heildarfjárfesting mun dragast saman um 4,2% skv. áætlun sem nú liggur fyrir um árið 1986. Þar munar mestu um byggingar og mannvirki hins opinbera, en gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting hins opinbera dragist saman um 13,6%. Í þeim lið vega þyngst annars vegar rafvirkjanir og rafveitur, sem dragast saman um tæplega 40%, og byggingar hins opinbera, sem dragast saman um 12,3%.

Þess skal getið að væntanlega kemur fram framhaldsnefndarálit frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Í því verður sýnd staðan í greiðslujöfnuði gagnvart útlöndum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri að sinni en ítreka þakkir. Ég vil byrja á því að þakka meðnefndarmönnum mínum, því að þeir hafa lagt á sig að sitja á löngum fundum og nefndin hefur kallað til sín fjölda manna. Ég vænti þess að hægt verði að ná góðu samkomulagi um það að þetta mál verði samþykkt sem allra fyrst í þessari hv. deild, enda þarf að senda málið aftur upp til hv. Ed. til frekari fyrirgreiðslu.