19.12.1985
Neðri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1936 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. 1. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Nd. hefur ekki haft langan tíma til þess að fjalla um þetta mál. Staðreyndin er sú að þetta mál hefur verið afgreitt á tveimur fundum frá nefndinni. Hygg ég að þess séu fá eða engin dæmi að fjh.- og viðskn. Nd. hafi verið sett í aðra eins pressu við að reyna að afgreiða lánsfjárlög hæstv. ríkisstj.

Þegar málið var tekið út úr nefndinni í gær greiddi ég ásamt hv. þm. Guðmundi Einarssyni atkvæði gegn því að málið yrði tekið út úr nefndinni vegna þess að við töldum að það væri ófullburða og gallað í veigamiklum atriðum, allar forsendur lánsfjárlagafrv. óskýrar og á floti og bersýnilegt að stjórnarmeirihlutinn hefði ekki enn þá áttað sig á ýmsum veigamiklum grundvallaratriðum í þessu máli. Engu að síður ákvað hæstv. fjmrh. að strekkja við að þræla þessu máli í gegnum þingið fyrir hátíðar þó að hann örugglega viðurkenni í sínum huga eins og aðrir að flest bendi til þess að hér verði aðeins um skemmri skírn að ræða og ríkisstj. verði óhjákvæmilegt að koma hér inn þegar líður á veturinn með annað lánsfjárlagafrv. til þess að geta bætt úr ófullkomleika þess frv. sem hér liggur fyrir.

Á þskj. 359 höfum við, ég og hv. þm. Guðmundur Einarsson, skilað áliti 1. minni hl. fjh.- og viðskn. þar sem við leggjum til að þessu frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ég vil hefja mál mitt á því, herra forseti, að lesa þetta nál., en það er á þessa leið:

„Ríkisstjórnin vill knýja fram afgreiðslu á lánsfjárlögum fyrir árið 1986 enda þótt flestar forsendur þeirra séu óljósar og málið í heild ótækt til afgreiðslu nú fyrir áramót. Af þeim ástæðum lagðist 1. minni hl. nefndarinnar gegn afgreiðslu málsins út úr nefnd, enda fékk nefndin aðeins tvo daga til að fjalla um málið. Leggur 1. minni hl. til að deildin vísi málinu frá með rökstuddri dagskrá.

Verður nú vikið að fáeinum atriðum frv.:

1. Aðalgrein frv. um erlendar lántökur var ekki frágengin þegar meiri hl. ákvað að taka málið út úr nefnd í gær þar sem forsendur fjárlagafrv. lágu ekki fyrir. Þegar málið var tekið út úr nefnd lá fyrir að mati meiri hl. að það vantaði 200-300 millj. kr. í erlendar lántökur skv. greininnil Slík var nákvæmnin af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans í þessu máli. Þá er gert ráð fyrir því að hækka töluna yfir innlendar lántökur um 250 millj. kr. án þess að því fylgi ýkja trúverðugur rökstuðningur.

2. Í 3. gr. er gert ráð fyrir því að strekkjast enn við að heimila 200 millj. kr. lántöku vegna hugsanlegra samninga um stækkun álversins. Hefur komið fram að stjórnarmeirihlutinn bindur helst vonir við kínverskt fyrirtæki í þeim efnum. Allt er málið þó óljóst og bersýnilegt að óþarfi er að taka þessa málsgr. inn í frv. Skal minnt á að sams konar málsgr. var inni í lögunum s.l. vor og meiri hl. heimtaði greinina inn þá enda þótt fyrir lægi að heimildin yrði ekki notuð á þessu ári.

3. Óljós eru fjármál raforkufyrirtækjanna samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið. Mun ríkisstj. þegar hafa tekið ákvarðanir um verðskrár fyrirtækjanna á næsta ári án þess að tekið hafi verið mið af lánsheimildum Orkubúsins og RARIK. Er þar allt óskýrt.

4. Í 5. gr. frv. er fjallað um þróunarfélagið. Formaður stjórnar þess, Davíð Scheving Thorsteinsson, skýrði frá því á fundi nefndarinnar að hann hefði tekið að sér formennsku í stjórninni í trausti þess að félagið hefði 450 millj. kr. til ráðstófunar á næsta ári. Í ljós kemur að fjárheimild handa félaginu er mun lægri og kom fram í máli formannsins að hann telur vafasamt að félaginu takist að standa við verkefni sín á næsta ári. Einnig kom fram að engin heildarútlánastefna hefur verið mótuð fyrir félagið.

5. Stöðug vandamál komu upp í meiri hl. í sambandi við málefni hitaveitnanna þar sem um er að ræða milljarða skuldir. Tóku þessar tölur því breytingum í Nd. eftir verulegar breytingar í fyrri deild.

6. Harðar deilur standa enn þá milli stjórnarflokkanna um það hvar á að vista 200 millj. kr. vegna skipaviðgerða á næsta ári. Það mál er enn óútkljáð þegar 2. umr. fer fram í Nd.

7. Fram kom í nefndinni algjört stefnuleysi varðandi fiskeldismál og er þeim sem áhuga hafa nú vísað á fjölmarga sjóði auk þróunarfélagsins. Bendir allt til þess að tilviljunarkennd vinnubrögð og stefnuleysi geti stofnað þessari nýju atvinnugrein í hættu ef svo heldur fram sem horfir.

8. Í Il. kafla frv. er kveðið á um skerðingu á einstökum sjóðum og verkefnum. Alvarlegasta skerðingin er á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Byggist frumvarpsgreinin á því að sjóðurinn verði skertur um u.þ.b. 400 millj. kr. eða að lán til námsmanna verði skert um 30% á næsta ári. Verði lánareglum ekki breytt á fyrri hluta ársins 1986 vegna þess að lánsloforð hafa verið send út fyrir aprílúthlutun verður ekkert eftir í sjóðnum eftir mitt ár.

9. Það kom fram á fundi nefndarinnar að niðurskurður framlaga til Kvikmyndasjóðs mun valda verulegum vandræðum hjá hópi kvikmyndagerðarmanna. Bætist það við óvissuna sem ríkti á þessu ári. Þessi stefna ríkisstj. er að vísu aðeins hluti af mennta- og menningarstefnu hennar þar sem framlög til lista hafa aldrei verið lægri en nú um langt árabil - eða u.þ.b. 0,37% fjárlaga að því er Sveinn Einarsson upplýsti á fundi fjh.- og viðskn.

10. Það kom fram á fundi nefndarinnar að Fiskveiðasjóður neitar að taka við skipaviðgerðum inn á verkefnaskrá sína. Er það mál sem fyrr segir óleyst við 2. umr. um frv.

11. Bent skal á þá skerðingu sem Framkvæmdasjóður fatlaðra verður fyrir. Kom Margrét Margeirsdóttir deildarstjóri á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir verkefnum sjóðsins og tilfinnanlegum niðurskurði á framlögum til hans. Verður gerð nánari grein fyrir þessum niðurskurði og verkefnum Framkvæmdasjóðsins í framsöguræðu.

12. Ljóst er að iðnaðurinn á við vaxandi vandamál að stríða, gagnstætt því sem haldið hefur verið fram að undanförnu. Þannig upplýstu forráðamenn Iðnþróunarsjóðs og Iðnlánasjóðs að vanskil við sjóðina hefðu aukist talsvert á þessu ári.

13. Í frv. til lánsfjárlaga heldur ríkisstj. uppteknum hætti og skerðir framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Er þetta í annað sinn sem sjóðurinn er skertur. Er það athyglisvert með tilliti til þess að ríkisstj. hefur í orði kveðnu viljað styrkja fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna. Verkin sýna annað.

14. Í III. kafla frv. eru ýmsar heimildir. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að raðsmíðaskipin verði leyst úr slipp. Mjög óljóst er hve mikla fjármuni það kostar og eru vinnubrögð ríkisstj. í þeim efnum fráleit og hafa þegar bakað ríkissjóði verulegt tjón.

15. Á síðasta fundi nefndarinnar var ákveðið að fella niður framlög til afleysingaþjónustu í sveitum en vísa málinu á stofnlánadeild, m.ö.o. á bændur sjálfa. Þó kom fram hjá meiri hl. að gert er ráð fyrir að velta kostnaðinum af þessu yfir á neytendur í formi hækkaðs vöruverðs.

Hér hafa aðeins verið rakin nokkuð atriði sem sýna að frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1986 er ótækt til afgreiðslu. Þess vegna gerir minni hl. tillögu um svonefnda rökstudda dagskrá:

Þar sem frv. er illa undirbúið, allar forsendur þess óljósar, auk þess sem víða er harkalega vegið að undirstöðuþáttum velferðar- og menningarsamfélags á Íslandi samþykkir deildin að vísa málinu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Guðrún Agnarsdóttir hefur áheyrnaraðild að nefndinni og stendur að nál. þessu.“

Undir þetta rita Guðmundur Einarsson og Svavar Gestsson. Þetta var álit 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Vík ég nú nánar að einstökum þáttum í frv. þessu.

Þegar farið er yfir frv. til lánsfjárlaga er óhjákvæmilegt að ræða almennt um stöðu ríkissjóðs og það hvernig ríkisstj. hefur haldið á fjárhagsmálefnum ríkisins núna að undanförnu. Því var heitið þegar ríkisstj. tók við að hún mundi stuðla að því að reka ríkissjóð í jafnvægi. Þetta fyrirheit ríkisstj. hefur ekki verið staðið við eins og alkunna er. Samkvæmt upplýsingum sem við fengum í fjh.- og viðskn. var staða ríkissjóðs neikvæð um síðustu áramót um 1256 millj. kr. Í lok nóvembermánaðar var staða ríkissjóðs við Seðlabankann orðin neikvæð um 4163 millj. kr. og hafði því versnað á árinu um tæpa 3 milljarða kr.

Þegar litið er á stöðu ríkissjóðs og ríkisstofnana kemur í ljós að þær hafa verið neikvæðar í heild við Seðlabankann um 1122 millj. kr., um 2666 millj. kr. í lok nóvembermánaðar og hafa því versnað á árinu 1985 um 11/2 milljarð kr. Þessar tölur eru glögg heimild um það stjórnleysi sem ríkir í málefnum ríkisbúskaparins á Íslandi um þessar mundir. Bersýnilega hefur hinn nýi fjmrh. ekki náð neinum tökum á þessum verkefnum umfram það sem forveri hans gerði og þótti þó flestum nóg um og nóg komið í þeim efnum, m.a. flokksbræðrum og flokkssystrum þeirra beggja.

Að undanförnu hefur hæstv. fjmrh. hvað eftir annað lýst því yfir að það hafi verið fundið upp á árinu 1980 að taka erlend lán. Hann hefur lýst því aftur og aftur yfir að í rauninni hafi allt leikið hér í lukkunnar velstandi í sambandi við erlend lán til ársins 1980. Þá hafi hin erlenda lántökustefna byrjað.

Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. trúir þessum yfirlýsingum, þessum ómerkilegu frösum. En ef hann gerir það þá er illa farið. Staðreyndin er sú að þá botnar hann í rauninni ekkert í því sem hefur verið að gerast í íslenskum efnahagsmálum á undanförnum árum. Ég hygg að svo sé ekki, ég hygg að hæstv. ráðh. sé það vel ljóst hvað hefur hér verið að gerast. En ég hygg hins vegar að hann kjósi að halda þessari fjarstæðu fram til að reyna að verja sukkið sem hann og núverandi ríkisstj. bera ábyrgð á í ríkisfjármálum og varðandi erlendar lántökur.

M.a. er því haldið fram af núverandi ríkisstj. að það sé hennar stefna og áhersla að draga úr viðskiptahalla og hann ætti helst að hverfa. Helsta gagnrýnisatriði núverandi fjmrh. á fráfarandi ríkisstj. var að þar hefði verið um verulegan viðskiptahalla að ræða. Það er rétt, hann var verulegur á árinu 1982. Þegar komið var fram á mitt árið 1983 hafði dregið verulega úr viðskiptahalla og var ljóst að stefndi í þá átt að unnt var að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd á árinu 1984 ef rétt hefði verið á málum haldið.

Núverandi ríkisstj. kaus aðra leið. Hún kaus að auka stöðugt viðskiptahallann. Það sem liggur fyrir eftir hana í þessum efnum er það að viðskiptahallinn á árinu 1984 varð 6% af þjóðarframleiðslu, 1985 í kringum 5% og 1986 er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði um 3,7% af þjóðarframleiðslu. M.ö.o. frá því að núverandi stjórn tók við eða á þremur heilum árum núverandi ríkisstj. er gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn nemi samtals 15 milljörðum kr. Hér er um hrikalega tölu að ræða, m.a. með tilliti til okkar almennu erlendu skuldastöðu en ekki síður með tilliti til þeirra yfirlýsinga sem Sjálfstfl. gaf þegar hann tók við alræðisvaldi í núverandi ríkisstj. með aðstoð Framsfl.

Það er einnig nauðsynlegt í þessu sambandi, herra forseti, að hafa í huga að gífurleg breyting hefur átt sér stað á lánskjörum íslensku þjóðarinnar erlendis á undanförnum árum. Það er breyting sem enginn, hvorki núverandi, fyrrverandi eða ríkisstjórnin þar áður, gat í raun og veru gert nokkuð við. Það er barnaskapur að halda því fram að þessir hlutir breytist eftir ríkisstjórnum. Við ráðum því miður ákaflega litlu um vaxtakjör erlendis á okkar erlendu lánum. Stökkbreytingin í þessu efni gerðist 1980-1981. Fram til þess tíma voru raunvextir neikvæðir á erlendum lánum íslenska þjóðarbúsins, þannig að um var að ræða að meðaltali 0,6% neikvæða raunvexti á árinu 1980. 1981 og 1982 snerist þetta við, þannig að á árinu 1982 voru raunvextir á erlendum skuldum þjóðarbúsins út á við komnir upp í hvorki meira né minna en 5,6%.

Það er talið og kemur fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. að 1% vaxtahækkun þýði 242 millj. kr. á verðlagi þessa árs í útgjöldum fyrir þjóðarbúið. M.ö.o. sú vaxtahækkun erlendis upp á 5-6% á árinu 1981 og 1982 þýddi ein 1 milljarð í aukaútgjöld fyrir íslenska þjóðarbúið á árunum 1981, 1982, 1983 á ári hverju. Hér er um að ræða gífurlega stóra tölu, 1% af vergri þjóðarframleiðslu. Þegar við erum að horfa til þess að þjóðarframleiðslan hreyfist kannske um 1-2% til eða frá á hverju ári er ljóst að þjóðarbúið hefur orðið fyrir stórfelldum búsifjum á þessum tíma, búsifjum sem var útilokað fyrir nokkurn innlendan aðila að ráða við.

Það sem hins vegar hefur verið að gerast í þessum efnum, herra forseti, er það að vextir erlendis.hafa að undanförnu verið að lækka og íslenska þjóðarbúið nýtur góðs af því. Það hefur ekkert með stjórnarstefnuna að gera til eða frá. En það er ljóst að 1% lækkun á vöxtum erlendis bætir stöðu þjóðarbúsins um 250 millj. kr. á ári.

Við þetta bætist svo það, sem er meginmál, að á árinu 1982 verður þjóðin fyrir því að þjóðarframleiðsla dregst verulega saman. Þá er um að ræða mál sem þjóðin eða ríkisstj., hver sem hún er, getur ekki ráðið við. Samdráttur þjóðarframleiðslunnar þýðir sjálfkrafa hækkandi erlent skuldahlutfall. Það er þess vegna ómerkilegur áróður af hæstv. fjmrh., ómerkilegur Heimdellingsáróður sem hann þarf að vaxa upp úr sem fyrst, að setja málin þannig upp að í rauninni hafi verið um að ræða einhverja sérstaka óráðsíu stjórnvalda sem hann er hér að tala um.

Hins vegar hefur þjóðarframleiðsla að undanförnu farið vaxandi. Því er spáð að þjóðarframleiðsla aukist að raun um 2% á árinu 1986 og 2% á árinu 1987. Á þessu ári hefur verið um að ræða aukningu á þjóðarframleiðslu. Það er veruleg aukning á þjóðarframleiðslunni núna á tveggja til þriggja ára bili. Eftir það áfall, sem þjóðin verður fyrir á árinu 1982, má því segja að núverandi ríkisstj. hafi búið við góðæri vegna vaxandi þjóðarframleiðslu annars vegar og lækkandi erlendra vaxta hins vegar núna á undanförnum mánuðum. Þetta tvennt hefur í för með sér bata fyrir þjóðarbúið upp á nokkur hundruð milljónir kr. eða milljarða.

Það er þetta, þessi happdrættisvinningur, sem gerir það kleift að þær tölur, sem hæstv. fjmrh. er stundum að sýna, eru skárri en ella hefði verið. En þegar hann er að breiða sig yfir landslýð og segja: Þetta er allt ríkisstj. að þakka, hún er að laga vandann, þá er það rugl. Ég er viss um að hæstv. ráðh. er þetta ljóst. Hann er hins vegar það mikill áróðursmaður að það ber hann stundum ofurliði. Ég hef tekið eftir því að hann hefur gaman af því að semja fyrirsagnir, hann er gamall blaðamaður eins og ég. En hann verður að gæta þess vandlega að þær fyrirsagnir og ummæli sem hann notar, jafnvel þó að hann sé í áróðursham, séu þó ekki þannig að það sé auðsætt hverju barni að hann sjálfur trúir því ekki einu sinni sem hann er að halda fram.

Ég held að þetta sé rétt, herra forseti, að rifja upp varðandi hinar erlendu lántökur og hvernig þróun þeirra hefur verið hér á undanförnum árum þó að það sé ekki nema til að efna til umræðna um þau mál og fá það fram í þingsölum hvaða skoðanir menn hafi í þeim efnum. Ég er þeirrar skoðunar að ganga þurfi fram með aðhaldssemi varðandi erlendar lántökur. Ég er hins vegar á móti því að gera þá hluti af offorsi þannig að það stofni atvinnulífi, atvinnuvegunum og atvinnunni, í hættu. Ég er þess vegna á móti tillögum Sambands ungra sjálfstæðismanna þótt sumir hér í salnum hampi þeim daglangt og náttlangt svo að segja.

Þessi staða kemur fram í 1. gr. frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1986, sem hér er til meðferðar, erlendar lántökur. Þegar fjh.- og viðskn. var að afgreiða málið og meiri hl. ákvað að taka málið út úr nefndinni spurðum við: hvaða tala á að standa í 1. gr. Þá sögðu þeir: Við vitum það ekki nákvæmlega. Hvað haldið þið? spurðum við. Ja, það er svona 2-300 millj. kr. hærra en stendur á blaðinu núna. Ég er ekki að fara fram á að menn séu með smásmygli. En ég er að fara fram á að menn umgangist þetta ekki af slíku kæruleysi eins og mér finnst koma fram í þessu efni.

Staðreyndin er sú, herra forseti, þegar farið er yfir sögu fyrrverandi og núverandi ríkisstjórna í sambandi við ríkisfjármál, erlendar lántökur o.fl., stjórn félagslegra fyrirtækja t.d., að hægri menn fara illa með almannafé. Það er svo að segja alveg lögmálsbundið vegna þess að þeir hafa enga trú á félagslegum rekstri, þeir eru á móti félagslegum rekstri. Þetta sýnir einmitt reynslan undanfarin ár.

Hvernig var afkoma þjóðarbúsins á árinu 1975 þegar Matthías A. Mathiesen var fjmrh.? Hver var þá staða þjóðarbúsins? Hún var sú að viðskiptahallinn var þá sá mesti sem verið hefur hér um áratuga skeið, eða í kringum 11% af þjóðarframleiðslunni sem samsvarar 11-12 milljörðum á verðlagi ársins 1985.

Hugmyndafræði hægri manna er andvíg félagslegum rekstri. Hún telur að skera eigi niður tekjur ríkisins til að þeir, sem hafa tekjur úti í þjóðfélaginu, geti haft meiri tekjur. Þetta kemur þeim fyrst og fremst til góða sem eru sterkastir fyrir. Niðurstaðan verður sú að hinn félagslegi rekstur ríkisins stendur höllum fæti undir forustu þessara manna. Allir fjmrh. Sjálfstfl. á síðustu árum hafa sýnt og sannað að þetta grundvallaratriði er rétt. Hægri menn fara illa með almannafé.

Ég vil þessu næst, eftir að hafa vikið hér, herra forseti, aðeins að 1. gr. frv., rétt fara nokkrum orðum um það að hv. 5. þm. Reykv. flytur hér nokkrar brtt. við frv. Þær eru vafalaust margar góðra gjalda verðar, t.d. till. um þróunarfélagið. En ég verð að segja alveg eins og er að ég átta mig ekki á því enn þá a.m.k. hvernig hv. þm. ætlar sér að skjóta rökum undir þessar till. miðað við núverandi aðstæður þegar fyrirséð er að hér er meiri hl. á Alþingi sem hafnar verulegri tekjuöflun til að draga úr erlendum lántökum.

Það er gott og blessað að flytja till. um að skera niður erlendar lántökur. En menn verða þá á sama tíma að segja: Á að skera niður þennan rekstur, þjónustu eða fjárfestingu, sem verið er að tala um, eða á að afla viðbótartekna? Alþfl. segir: Það á að afla viðbótartekna. En fyrir liggur að meiri hlutinn á Alþingi mun ekki fallast á neinar slíkar till.

Ég held að uppsetning af því tagi, sem víða kemur fram í frv. til lánsfjárlaga og brtt. hv. 5. þm. Reykv., þjóni ekki neinum tilgangi við núverandi kringumstæður. Ég tek það fram hér í upphafi máls míns, svo að segja, að ég mun ekki flytja neinar brtt. við þetta lánsfjárlagafrv., áskil mér hins vegar rétt til að fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Þar er ég einkum að tala um greinarnar um Framkvæmdasjóð fatlaðra, um Lánasjóð ísl. námsmanna og um 200 millj. kr. lánsheimild handa Landsvirkjun vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík.

Einn veigamesti þáttur þessa frv. og þessara mála, herra forseti, eru húsnæðismálin sem ég hyggst koma að í öðru lagi. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort ekki mundi vera kostur á því að kveðja hér til hæstv. félmrh. (Forseti: Þess verður freistað að fá hæstv. félmrh. í salinn.) (Gripið fram í: Hann finnst ekki.) Þá mun ég fresta því að ræða um húsnæðismálin en koma þess í stað að fjórða þætti máls míns, þ.e. 2. málsgr. 3. gr. Þar er gert ráð fyrir því að Landsvirkjun fái heimild, til viðbótar því sem greinir í 1. málsgr., til að taka allt að 200 millj. kr. lán eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt semjist um stækkun álversins í Straumsvík á árinu 1986. Sams konar till. var lögð hér fram í vor. Þá voru greidd atkvæði um hana og stjórnarmeirihlutinn ákvað að knýja þetta fram þó að augljóst væri að þessi heimild yrði ekkert notuð.

Ég held að þessi heimild sé nákvæmlega jafnóþörf nú og hún var í vor og það sé engin þörf á því að pína fram slíka heimild hér við afgreiðslu lánsfjárlaga. Ég tel reyndar að þær upplýsingar, sem fram hafa komið um haldreipi ríkisstj., kínverskan ríkiskommúnisma, og vonina um að hann bjargi íhaldinu í sambandi við hina erlendu stóriðju, séu með þeim hætti að engin ástæða sé til að vera að taka svona lagað inn jafnvel þó að menn væru þeirrar skoðunar að auka ætti við hina erlendu stóriðju. Ég mun því greiða atkvæði gegn þessari málsgr., 2. málsgr. 3. gr., vegna þess að ég tel hana út í loftið, óþarfa, auk þess sem ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar að margt annað sé brýnna í íslenskum þjóðarbúskap í dag, að ekki sé meira sagt, en að stækka álverið í Straumsvík.

Ég ætla þessu næst, herra forseti, að víkja að lánsfjárlögunum vorið 1985. Það var í júní sem við vorum að afgreiða lánsfjárlögin fyrir 1985. Þá sögðum við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, að hér væri um að ræða lánsfjárlagafrv. sem væri gallað, það tæki ekki tillit til staðreynda, og töldum að hin endanlegu lánsfjárlög mundu fara langt fram úr því sem var afgreitt í júní í sumar þegar hálft ár var liðið af lánsfjárlagaárinu. Við bentum að vísu á þann möguleika að ríkisstj. tæki upp þann hátt að afgreiða lánsfjárlög fyrir árið 1985 í lok ársins 1985 vegna þess að reynslan sýnir að ríkisstj. er ekki treystandi til að gera áætlanir fyrir tímabil nema í lok viðkomandi tímabils. Því miður féllst ríkisstj. ekki á þessa vinsamlegu hugmynd. En ég ætla, herra forseti, að fara yfir það aðeins, skv. upplýsingum frá Seðlabankanum, hvernig lánsfjárlögin komu út á árinu 1985 miðað við fyrirheitin.

Opinberir aðilar áttu að taka að láni á þessu ári 4,3 milljarða kr. skv. lánsfjárlögum sem voru samþykkt í júní. Hver varð útkoman? Varð hún 5,3, varð hún 6,3? Nei, hún varð 7,2 milljarðar kr. á árinu 1985. Í staðinn fyrir 4,3 milljarða stöndum við uppi með það að svokallaðir opinberir aðilar tóku lán á þessu ári að upphæð 7,2 milljarðar kr. Svona gekk áætlanagerðin í þetta skipti.

Ef þessi mál eru skoðuð nánar kemur fleira fróðlegt fram. Lánastofnanir, þ.e. Framkvæmdasjóður og aðrar slíkar stofnanir, áttu að taka að láni 1,2 milljarða kr. en tóku að láni 1,9 milljarða kr. Hérna er nú aðhaldsseminni fyrir að fara, aðgæslunni og ráðdeildinni í meðferð ríkisfjármála hjá íhaldinu þegar það kemst til valda í landinu.

Framlög til atvinnufyrirtækja áttu að vera 1,7 milljarðar kr. skv. lánsfjáráætlun sem var samþykkt í júní, herra forseti. En niðurstaðan varð sú að atvinnufyrirtækin tóku ekki 1,7 milljarða áð láni heldur 2,4. M.ö.o. hér var um að ræða fullkomið stjórnleysi.

Öll erlend lán áttu að nema 7,2 milljörðum kr. En hver er niðurstaðan? Hún er 11,5 milljarðar. Það er svona sem íhaldið stjórnar ríkisfjármálunum. Hægri menn fara illa með almannafé, það sýnir reynslan okkur. Það er alveg sama hvar við grípum niður í lánsfjárlögum og tölum um erlendar lántökur 1985, alls staðar hefur verið farið stórkostlega fram úr áætlun en þó mest á liðnum „Opinberir aðilar“, úr 4,3 milljörðum kr. upp í 7,2 milljarða kr. Ætlast menn virkilega til að tekið sé mark á því þegar verið er að gera áætlun núna fyrir tólf mánuði 1986 þegar ekki var hægt að gera gáfulegri áætlun fyrir sex mánuði 1985? Staðreyndin er sú að þessar áætlanir eru allar byggðar á sandi, örugglega nú ekki síður en í júnímánuði s.l.

Ég vil þá næst, herra forseti, víkja nokkrum orðum að húsnæðismálunum sérstaklega sem eru veigamikill þáttur og undirstaða lánsfjárlaganna. Í frv. til lánsfjárlaga og í nál. meiri hl. koma fram upplýsingar um byggingarsjóðina á árinu 1986. Ég ætla að bera saman tölurnar fyrir árið 1986, eins og þær koma frá meiri hl. annar vegar, og hins vegar eins og þær koma frá Húsnæðisstofnuninni.

Skv. plaggi, sem mér barst í dag, er greiðsluáætlun byggingarsjóða ríkisins vegna 1986 ef staðið væri við lög og reglugerðir, eins og það heitir, 2646 millj. kr. Í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1986 er útlánatalan hins vegar 2500 millj. kr. Mismunurinn er 146 millj. kr.

Nú ætla ég ekki, herra forseti, að fara út í einstakar forsendur þessa en ég ætla að spyrja um eitt. Fyrir nokkrum dögum lýsti ríkisstj. því yfir að hún ætlaði að tryggja 200 millj. kr. til sérstakra ráðstafana í húsnæðismálum. Hæstv. félmrh. lýsti því yfir að við þetta yrði örugglega staðið og peningar væru til. Í áætlun Húsnæðisstofnunar ríkisins er ekki gert ráð fyrir þessum 200 millj. kr. Þar er aðeins um að ræða almennar hefðbundnar lánveitingar. Það vantar sem sagt algerlega að gera grein fyrir þessum 200 millj. og hvaðan þær á að taka.

Þá er tvennt til í dæminu, herra forseti. Annað er það að ríkisstj. beiti sér fyrir skattlagningu upp á 200 millj. kr. aukalega í húsnæðiskerfið árið 1986. Hitt er það að félmrh. beiti sér fyrir því að skera niður útlánaáætlun Byggingarsjóðs ríkisins um þessar 200 millj. kr. 1986. Ég hef grun um að það sé það sem stendur til. Þá vil ég fara fram á það að hæstv. félmrh. geri grein fyrir því hér á eftir hvaða atriði það eru sem hann hugsar sér að skera niður í þessu efni. Eru það nýbyggingar? Eru það G-lán? Eða eru það önnur lán sem þarna er um að ræða?

Þá vil ég í annan stað, herra forseti, víkja aðeins að Byggingarsjóði verkamanna. Þar er ég einnig með undir höndum áætlun frá Húsnæðisstofnun ríkisins, hina nýjustu, sem gerir grein fyrir því hvað þyrfti að lána út á vegum Byggingarsjóðs verkamanna á næsta ári miðað við óbreytta starfsemi og miðað við það að standa við þau loforð sem gefin hafa verið.

Það er skoðun Húsnæðisstofnunar ríkisins að í Byggingarsjóð verkamanna þyrfti á næsta ári 1220 millj. kr. En fjárlagatalan, eins og hún er hér, er 938 millj. kr. Í till. Húsnæðisstofnunar ríkisins um Byggingarsjóð verkamanna á næsta ári er gert ráð fyrir heildarlánveitingum upp á 760 millj. kr. Í till. Húsnæðisstofnunar var gert ráð fyrir 1 milljarði í lánveitingar.

Hvernig á að leysa þetta dæmi þar sem eru til 760 millj. kr. í útlán í Byggingarsjóði verkamanna en hann þyrfti í raun að vera með 1 milljarð? Þetta er leyst með því að skera niður. Hvernig er sá niðurskurður framkvæmdur? Fyrst er það borgað sem stendur og byggist á þegar gerðum samningum. Hvað er það mikið sem á að fara í þegar gerða samninga? Það eru 642 millj. kr. Eftir eru þá til nýrra samninga og endursöluíbúða í verkamannabústaðakerfinu 118 millj. kr. nákvæmlega. sem Byggingarsjóður verkamanna hefur í alla nýja starfsemi og allar endursöluíbúðir.

Miðað við venju má gera ráð fyrir því að endursöluíbúðir taki til sín ekki minni upphæð en 150 millj. á árinu 1986. Ég hygg að það sé ekki fjarri lagi. M.ö.o. Byggingarsjóður verkamanna getur ekki hleypt einu einasta nýju verkefni af stað á árinu 1986. Þetta er frv. til lánsfjárlaga Byggingarsjóðs verkamanna um að stöðva starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna 1986.

Hér er um að ræða hrottalega aðför að Byggingarsjóði verkamanna. Það kemur ekki á óvart þegar um er að ræða vinnubrögð núverandi ríkisstj. og þá sem ráða í þessum efnum, sem eru t.d. menn eins og hv. þm. Halldór Blöndal.

En þrátt fyrir þetta, herra forseti, ætlar félmrh. að taka inn á Byggingarsjóð verkamanna húsnæðissamvinnufélögin á næsta ári. Það liggur fyrir, húsnæðissamvinnufélögin eru komin inn. Það var upplýst í fjh.- og viðskn. Nd. í gærmorgun. Þá upplýsti forstjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins og deildarstjóri, Katrín Árnadóttir, að húsnæðissamvinnufélögin væru komin inn. Búið væri að heimila framkvæmdir og staðið yrði við lánveitingar til þeirra, til 16 íbúða í Grafarvogi, ef ég man rétt, og þau lán yrðu greidd út á árinu 1986.

Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. félmrh. hvort þetta sé ekki örugglega rétt haft eftir hans embættismönnum í húsnæðiskerfinu. Og ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðh. á hvaða lagaákvæðum hann byggir þessa ákvörðun. Ég þykist vita hans svar. Hann byggir það á c-lið 33. gr. húsnæðislaganna. En mér þætti gaman að vita, herra forseti, hver er skoðun hv. 2. þm. Norðurl. e. Er hann víðs fjarri nú, aldrei þessu vant? (Forseti: Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur leyfi um stund, forsetaleyfi. Hann verður hér innan stundar.) Ég vil þá beina þessari spurningu til hæstv. fjmrh. Hver er hans skoðun á þessari ákvörðun félmrh.? Mér sýnist að félmrh. hafi tekið hér vel til hendinni, tekið af skarið um gamalt þrætumál stjórnarflokkanna. Það er fróðlegt að vita hver er afstaða þeirra og þar með fulltrúa Sjálfstfl. í húsnæðismálastjórn í þessu efni.

Mér sýnist að áætlun Byggingarsjóðs ríkisins fyrir árið 1986 sé ákaflega knöpp, að ekki sé meira sagt. Mér er tjáð að stjórnarliðar séu þeirrar skoðunar að hún muni standast vegna mikils samdráttar í íbúðarbyggingum á næsta ári. Það var eitthvað annað sem stóð til hjá íhaldinu þegar það tók við húsnæðismálunum á sínum tíma. Þá átti nú að leysa þau úr læðingi. Þegar kommarnir væru farnir út úr stjórnarráðinu átti margt að lagast, m.a. það. Þá áttu menn að fara að byggja, það áttu að fara að rísa upp íbúðir um allt land. En nú binda þeir vonir sínar við að samdráttur verði svo mikill í íbúðarbyggingum á árinu 1986 að þær fari niður úr lágmarkinu 1985. Þeir bera því við að samdráttur verði í íbúðarbyggingum. En síðan birta þeir hér fskj. varðandi framkvæmdir og fjárfestingarþróun á árinu 1986 þar sem kemur fram, á bls. 9 í nál. meiri hl., að íbúðarbyggingar eiga að standa í stað. Þetta gengur m.ö.o. ekki upp, herra forseti. Annars vegar byggja menn útlánaáætlun Húsnæðisstofnunar á því að samdráttur verði í framkvæmdum, hins vegar birta menn framkvæmda- og fjárfestingaráætlun sem byggist á því að framkvæmdir verði óbreyttar. Þetta er auðvitað eins og annað í þessu lánsfjárlagafrv. Það stendur ekki steinn yfir steini. Þessir hlutir mynda ekki rökræna heild, það er kastað til þessa höndunum, það er ekki búið að vinna málin eins og mönnum sæmir hér á hv. Alþingi eða í ríkisstj. í þessu efni.

Ég held að óhjákvæmilegt sé að fá um það upplýsingar hjá hæstv. félmrh. hvað hann geri ráð fyrir að þessi samdráttur verði mikill á næsta ári þannig að hægt verði þá að koma því inn í fjárfestingartöfluna fyrir árið 1986 því ef samdráttur verður í húsbyggingum á næsta ári er sú tafla vitlaus. Það á auðvitað að leiðrétta hana. Ef ekki verður samdráttur í íbúðarbyggingum vantar 2-300 millj. kr. í Byggingarsjóð ríkisins. Það getur ekki hvort tveggja verið rétt, herra forseti. Og það á ekki að vera að reyna að mata menn með misvísandi upplýsingum af þessu tagi eins og hér er gert af stjórnarmeirihlutanum í húsnæðismálum eins og öðrum málum.

Ég kem þessu næst, herra forseti, að því fyrirbæri sem heitir Þróunarfélag. Það var stofnað með lögum í fyrra og það var mikill fögnuður í ríki útvaldra hjá íhaldinu yfir þessu félagi. Þarna væri nú loksins að koma eitthvað sem tæki á atvinnumálunum, hefði frumkvæðið og stuðlaði að nýsköpun. Mér þótti auðvitað alltaf sérkennilegt þegar Framsfl. fór að skrifa upp á þetta orð „nýsköpun“. Ég var nokkurn veginn sannfærður um að sú nýsköpun sem hann skrifaði upp á yrði í skötulíki.

Ég veit ekki í líki hvers þetta Þróunarfélag er, en hitt er alveg ljóst að við umræður um málið í Nd., í fjh.- og viðskn., kom það einum manni á óvart fyrst og fremst hvað þetta félag var vitlaust og illa útbúið. Sá eini maður var ekki nm. í fjh.- og viðskn. vegna þess að þeir þekkja þetta mál frá umræðum í fyrra. Maðurinn heitir hvorki meira né minna en Davíð Scheving Thorsteinsson og er formaður Þróunarfélagsins. Hann hélt, þegar hann var ráðinn formaður Þróunarfélagsins af flokksþægð í Sjálfstfl. af því að hann er þar miðstjórnarmaður og mætti á fundinum í Stykkishólmi, að hann ætti að fá 450 millj. kr. verðtryggðar til að leika sér með eða Þróunarfélaginu til ráðstöfunar á árinu 1986. 450 milljónir, sagði hann. Er það ekki örugglega verðtryggt, sagði hann, þegar hann kom á fund í nefndinni. Niðurstaðan varð sú að forustumenn Sjálfstfl. í nefndinni urðu að hryggja manninn með því að fjármagnið væri ekki verðtryggt. En það kom fleira til. Niðurstaðan varð sú að það er ekki einasta að það sé óverðtryggt heldur líka hitt að þetta félag hefur ekki nema 100-200 millj. kr. á árinu 1986.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé meira en nóg. Ég held að í raun og veru sé alger óþarfi að vera að leggja fé í þetta félag eins og það er, þetta gæludýr íhaldsins sem þetta félag er. Ég held að Sjálfstfl. eigi að tryggja að þeirra fyrirtækjamenn kosti sín ævintýri sjálfir og séu ekki að velta þeim á þjóðina, eins og dæmin að undanförnu sanna að getur orðið henni dýrt.

Formaður Þróunarfélagsins sagði, þegar hann hafði heyrt þessi válegu tíðindi: Ég þykist svikinn mjög. Ekki er hann svikinn af stjórnarandstöðunni vegna þess að við höfðum ekki gefið honum nein fyrirheit varðandi þetta félag. En bersýnilegt var að hann taldi og telur að hann hafi tekið við stjórn í þessu félagi á fölskum forsendum. Og það var einnig fróðlegt að hlýða á þær upplýsingar sem fram komu hjá formanni stjórnar Þróunarfélagsins um hvaða fyrirtæki það eru sem hafa lagt í Þróunarfélagið. Ætli einkaframtakið hafi stokkið til með áhættufjármagnið sitt, fullt af ævintýralöngun og uppbyggingarþrá inn í þetta Þróunarfélag? Nei, það var nú eitthvað annað.

Fram eftir öllu sumri mátti lesa í blöðum svardaga frá forustumönnum fyrirtækja og sjóða, flokksmanna í Sjálfstfl., um að þeir myndu aldrei láta peninga í þetta vitlausa kompaní, þetta Þróunarfélag. Það kæmi alls ekki til greina. Og þegar leið á sumarið var bersýnilegt að enginn mundi láta pening í þetta félag. Þá var farið af stað og settar þumalskrúfurnar á rétta menn á réttum stöðum, og þeim var sagt að skrá sig fyrir hlut í Þróunarfélaginu.

Hvaða aðilar eru það sem eiga hlut í þessu Þróunarfélagi? Hverjir eru það sem hafa komið þarna til með aukafjármagn, stórfellda fjármuni sumir, aðrir lítið? Lífeyrissjóður SÍS á í þessu félagi 15 millj. kr. Hann átti afgang og langaði að taka þátt í ævintýrinu, þessu mikla Þróunarfélagi, með því að leggja 15 millj. kr. í það. Þó að hann hafi yfirleitt staðið sig illa í að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði verkamanna og Byggingarsjóði ríkisins var samt hægt að hrúga þarna 11/2 milljónatug í Þróunarfélagið. Og það er Lífeyrissjóður verslunarmanna og er nú illa fjarri (Gripið fram í.) - og kominn í salinn hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og er boðinn sérstaklega velkominn. (GHG: Ég þori vel að hlusta á þig.) Það veit ég vel. Lífeyrissjóður verslunarmanna er svo aflögufær og brattur að hann lætur 20 millj. kr. í Þróunarfélagið, Lífeyrissjóður verslunarmanna sem einlægt hefur verið að emja undan því að hann ætti að láta peninga í Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. En þegar gæludýrið, Þróunarfélagið frá íhaldinu, kemur opna þeir veskin: 20 millj. kr. eins og ekkert sé. (Gripið fram í: Lætur Alþýðubankinn eitthvað?) Og ég vil spyrja hv. þm. af því að hann er hér: Hvaða heimildir eru það sem leiða til þess að Lífeyrissjóður verslunarmanna geti lagt þarna fram fé? Og hvaða von um hagnað fyrir hina öldruðu í landinu felst í Þróunarfélaginu? Er þetta kannske alveg sérstök gæfa fyrir gamalt fólk á Íslandi og einkum aldraða verslunarmenn að þetta Þróunarfélag hefur verið stofnað? Geta hinir öldruðu stólað á það að þetta Þróunarfélag skili svo miklum arði að á komandi árum geti menn greitt góðan lífeyri úr Lífeyrissjóði verslunarmanna? Það hljóta að vera rökin því þetta er lífeyrissjóður fyrst og fremst. Það væri fróðlegt að hæstv. fjmrh. svaraði því hvernig hann fór að því að snúa upp á handlegginn á forustumönnum Lífeyrissjóðs verslunarmanna til þess að fá þá til að leggja pening í þetta Þróunarfélag.

En það voru fleiri aflögufærir, það voru fleiri með stórar upphæðir. Fiskveiðasjóður Íslands, þar sem ástandið er eins og kunnugt er og allt í vanskilum og vandræðum, á pening í Þróunarfélagið: 30 milljónir, eins og ekkert sé. Framleiðnisjóður landbúnaðarins sér auðvitað sína uppreisnarvon í Þróunarfélaginu, fyrir landbúnaðinn. Það er nú hætt við. Hann er þarna á blaði. Og Landsbankinn, Landsbankinn kemur auðvitað líka á vettvang og skrifar sig fyrir hlut upp á 20 millj. kr. og Búnaðarbankinn, hann skrifar sig fyrir álitlegum hlut líka og svo Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þar eru ævinlega til seðlar eða hitt þó heldur. Þeir sendu inn beiðni fyrir lánsfjárlögin upp á 7800 millj. kr. - ég held þeir hafi fengið afgreiddar 200 - og báru sig í beiðninni eins og þar væri hrein neyð, en samt eiga þeir afgang í Þróunarfélagið. Auðvitað láta þeir sig ekki vanta á þennan góðra vina fund. 20 milljónir láta þeir í Þróunarfélagið en það er sama upphæð og núna er verið að leggja á Stofnlánadeildina til að kosta afleysingaþjónustu í sveitum, 20 millj. þar. Svona er nú Stofnlánadeildin almennileg við Þróunarfélagið.

Skyldu það vera fleiri sem hafa komið þarna við sögu? Jú, það eru nokkrir fleiri aðilar, en þetta eru þeir stærstu sem ég hef talið upp og þetta eru þeir sem formaður stjórnar Þróunarfélagins, Davíð Scheving Thorsteinsson, taldi sérstaklega upp. Ég læt þá liggja á milli hluta einstaklinga sem eru með minni upphæðir. Ég tel að það komi þingheimi nánast ekki við. En þetta voru þeir stærstu sem formaður stjórnarinnar taldi upp.

Þetta er fróðlegt. Öll þessi fyrirtæki segjast vera á hvínandi hausnum. Iðnlánasjóður kemur til fjh.- og viðskn., Iðnþróunarsjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Lífeyrissjóður verslunarmanna er að basla, Lífeyrissjóður SÍS, að ógleymdum bönkunum. Allir segjast forustumenn þessara stofnana standa mjög illa um þessar mundir, mjög illa, og halda langar og hjartnæmar ræður, „rörende“ ræður, fyrir fjh.- og viðskn. Nd. Svo þegar þarf að bjarga pólitísku andliti formanns og varaformanns Sjálfstfl. eru þeim allt í einu, þessum fátæklingum, útbærir peningar, milljónatugum saman, í þetta Þróunarfélag.

Þegar formaður stjórnarinnar var spurður hvað Þróunarfélagið ætti að gera sagðist hann ekki vita það. Hann sagðist ekki vita það. Hann sagði að ekkert lægi fyrir um það og að hann vissi það ekki og engin stefna hefði verið mótuð. Hann sagði okkur að vísu að nauðsynlegt væri að tryggja varðandi svona félag að engir pólítíkusar kæmu nálægt því. Í raun og veru væri það forsenda þess að þetta félag mætti blómstra. Ég spurði þá formanninn hverjir væru í stjórn félagsins og hann taldi þá upp. Auk Davíðs Schevings Thorsteinssonar eru það Hörður Sigurgestsson hjá Eimskipafélagi Íslands, Jón Ingvarsson hjá Ísbirninum (Gripið fram í: Það heitir Grandi.) - já, Granda reyndar, það er búið að leggja Ísbjörninn niður, hann er búinn að segja sig á hreppinn, eins og kunnugt er, Guðmundur G. Þórarinsson, hann er einn af máttarstólpum atvinnulífsins líklega eða hvað og ópólitískur maður alveg sennilega, og Þorsteinn Ólafsson. (JBH: Fyrrum aðstoðarráðherra Hjörleifs.) Það er akkúrat, en hann hefur núna að undanförnu verið í vinnu hjá Erlendi. Þess vegna er honum treystandi til að vera þarna. Þetta eru auðvitað alveg hvítþvegnir menn af allri pólitík, þessir snillingar þarna í Þróunarfélaginu. Þetta er auðvitað orðið þvílíkt grín hvernig stjórnarliðið stendur að þessu Þróunarfélagi að það hlýtur að enda með því að þeir sem þar eru í forustu í stjórnarliðinu fari að átta sig á því að þeir eru að verða sér til skammar með þessu kompaníi. Og auðvitað er það alveg rétt hjá hv. 5. þm. Reykv. að það má skera niður peningana í þetta gæluverkefni íhaldsins, þetta flokkspólitíska gæluverkefni Sjálfstfl., sem hér er verið að knýja fram. Framsókn fær auðvitað að dingla með - það er nú önnur saga - en ræður auðvitað engu frekar en fyrri daginn.

Herra forseti. Ég kem þá næst, í fimmta lagi, að þeirri gr. frv. sem fjallar um Orkubú Vestfjarða. Það er 4. gr. og þar er gert ráð fyrir að heimila Orkubúi Vestfjarða að taka lán að upphæð 20 millj. kr. á árinu 1986. Það vildi svo til að ég sótti fundi í iðnn. Nd. núna á dögunum og þá kom fram að orkufyrirtækin höfðu tekið ákvörðun um taxta sína fyrir árið 1986 að einhverju leyti og einnig kom fram að þessi hækkun væri ekki alveg í samræmi við það sem orkufyrirtækin teldu óhjákvæmilegt. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvort ákvörðun hefur verið tekin um taxta Orkubús Vestfjarða og RARIK á árinu 1986 þannig að það liggi fyrir vegna þess að upplýsingar um það mál fengum við í iðnn. Nd.

Þá vil ég þessu næst víkja, í sjötta lagi, að þeirri grein frv. sem fjallar um hitaveitur. Þeirri grein hefur verið breytt við hverja umræðu málsins frá því að umræðan hófst fyrst í Ed., þrjár umræður, og síðan í Nd. Það er bersýnilega mikill fjárhagslegur vandi hjá hitaveitunum sem þarf engum að koma á óvart. Hér er um að ræða fyrirtæki sem eru dýr og augljóst að það þarf í byrjun að gera ráðstafanir til þess að tryggja að þau geti staðið með skikkanlegum hætti. Það vakti athygli mína að þegar var verið að afgreiða hitaveiturnar koma skyndilega upplýsingar um það að vegna hitaveitna liggi fyrir óafgreiddar og ónotaðar ríkisábyrgðir upp á 40 milljónir dollara. Það eru heimildir sem liggja hér og þar í kerfinu og hafa hugsanlega þegar verið notaðar að einhverju leyti, eru hugsanlega ónotaðar, en í rauninni hefur enginn yfirlit yfir það hve mikið af þessum heimildum hefur verið notað og hvað ekki. Í tilefni af því lagði Fjárlaga- og hagsýslustofnun til að tekin yrði upp ný verklagsregla við frágang fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga sem frsm. meiri hl. fjh.og viðskn. hefur væntanlega gert grein fyrir áðan, og ég vil taka fram að ég er algerlega sammála þessari verklagsreglu. Ég hygg hins vegar að þrátt fyrir þær ráðstafanir sem gert er ráð fyrir að gera í lánsfjárlagafrv. vegna hitaveitnanna sé engu að síður um að ræða verulega stór óleyst vandamál. Ég hygg að skynsamlegt væri að reyna að fara yfir þessi málefni í heild, málefni hitaveitnanna, og í því sambandi á auðvitað að kanna allt orkuverð í landinu og niðurgreiðslur á orkuverði, hverjar svo sem þær eru, þannig að upp sé tekin eðlileg, skynsamleg stefna við verðlagningu á orku í þessu landi. Ég held að í þeim efnum höfum við ekki tekið á hlutum eins og vert væri hvorki nú né áður, m.a. vegna þess að við fengum yfir okkur hinar stóru olíuhækkanir sem kölluðu á olíustyrki á sínum tíma og allt þetta kerfi verðlagningar á orku er með þeim hætti að á þeim málum þyrfti að taka miklu betur en okkur hefur auðnast til þessa.

Ég vil þá í sjöunda lagi, herra forseti, víkja að nýrri stofnun sem ríkisstj. setti á laggirnar fyrir nokkrum mánuðum og átti að breyta miklu. Hv. þm. muna örugglega eftir því að það var hérna til stofnun einu sinni sem hét Framkvæmdastofnun. Það þótti sumum vond stofnun, en þó ekki öllum. Og menn voru búnir að tala sig svo hása í sambandi við það að Framkvæmdastofnunin væri vond stofnun að það varð stefnuskráratriði heils stjórnmálaflokks og jafnvel fleiri stjórnmálaflokka að það væri alveg höfuðatriði að leggja hana niður og koma henni fyrir kattarnef.

Í framhaldi af því fóru menn að bauka með það að semja lagafrumvörp um að leggja stofnunina niður, og sjá, það endaði með því að menn fluttu tillögur um að tvær stofnanir kæmu í staðinn fyrir þessa einu. Þær munu búa þarna í ánægjulegu sambýli við Rauðarárstíg þessar tvær stofnanir sem áður var ein, og ég hef ekki spurnir af því að orðið hafi stórkostlegur sparnaður í rekstri þessara tveggja stofnana umfram það sem var í einni stofnun áður. Ég hef engar fréttir af því að neitt hafi lagast eða breyst til batnaðar við það að þessar stofnanir urðu tvær og Framkvæmdastofnunin var að nafninu til lögð niður. Það kæmi mér ekki á óvart að eftir svona þrjú til fjögur ár eða kannske fimm standi menn í þessum ræðustól og segi: Það á að leggja niður Framkvæmdasjóð og það á að leggja niður Byggðastofnun - og niðurstaðan verði sú að sameina þær í eina stofnun sem heiti Framkvæmdastofnun ríkisins. Allt sem gerðist í kringum þetta mál var tóm sýndarmennska, innihaldsleysið svo algert að hver maður gat séð í gegnum hlutina.

Samkvæmt upplýsingum sem við í fjh.- og viðskn. Nd. fengum frá Byggðastofnuninni kom það fram að vanskil við stofnunina nema 232 millj. kr., við Byggðastofnun. Auk þess hefur stofnunin afskrifað tugi milljóna króna það sem af er starfsferli hennar þó stuttur sé. Og þegar við fórum fram á upplýsingar um Byggðastofnunina og útlánaáætlun hennar 1986 var í rauninni mjög erfitt að henda reiður á þeim upplýsingum vegna þess að lítið hafði verið farið yfir útlánaáformin. en það er augljóst að þessi nýja Byggðastofnun, þetta afkvæmi Framkvæmdastofnunarinnar, mun ekki bæta neitt stöðu byggðanna í landinu. Hún mun ekki bæta neitt stöðu hinna dreifðu byggða á Íslandi. Hagur sjávarútvegsins batnar ekkert við það þó Byggðastofnun sé til. Það er því augljós hlutur að í rauninni mun þessi stofnun ekkert laga í sambandi við byggðaþróun í þessu landi, nema síður væri.

En vegna þess að hæstv. forsrh. heiðrar okkur með nærveru sinni væri kannske fróðlegt að inna hann eftir hvað líður áformum um flutning þessarar stofnunar norður til Akureyrar. Það er mál sem var rætt nokkuð í vor og ég held að væri ástæða til að fá hér á dagskrá í tengslum við umræður um lánsfjárlög.

Í áttunda lagi, herra forseti, vil ég víkja aðeins að Iðnþróunarsjóði og Iðnlánasjóði. Því hefur verið haldið fram að iðnaðurinn hafi staðið alveg sérstaklega vel í tíð núverandi ríkisstjórnar og betur en aðrar atvinnugreinar. Það er til í því. Þegar forráðamenn Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs koma á fund fjh.- og viðskn. Nd. þá upplýsa þeir báðir að um sé að ræða mjög vaxandi vanskil hjá iðnfyrirtækjum í landinu. Það eru nefndar óhugnanlegar tölur um vanskil iðnfyrirtækja í landinu og í rauninni þarf það engum að koma á óvart sem hefur fylgst með fréttum að undanförnu. Það hefur komið fram að stór iðnfyrirtæki, sem hafa notið alveg sérstakrar velvildar og áhuga Sjálfstfl., eru við það að verða gjaldþrota og standa frammi fyrir gífurlegum erfiðleikum. Þess vegna var það í rauninni aðeins staðfesting á blaðafréttum, sem maður hafði séð, sem fram kom hjá talsmönnum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs að iðnfyrirtæki standi ekki vel, a.m.k. ekki öll um þessar mundir. Ég hygg að í þeim efnum sé mörgu um að kenna, en ég er ekki í nokkrum vafa um að hin harkalega framkvæmd vaxtastefnunnar á undanförnum árum er ein meginástæðan fyrir erfiðleikum atvinnuveganna núna, hvort sem um er að ræða iðnað, sjávarútveg eða landbúnað, að nú ekki sé minnst á húsbyggjendur í þessu landi.

Í níunda lagi, herra forseti, vil ég þessu næst víkja að Lánasjóði ísl. námsmanna. Í frv. er gert ráð fyrir að Lánasjóður ísl. námsmanna megi ekki lána út nema 1,1 milljarð á næsta ári. Að undanförnu hafa staðið yfir deilur um það milli menntmrn., fjmrn. og Lánasjóðsins hversu mikið sjóðurinn í rauninni þurfi á næsta ári, Lánasjóður ísl. námsmanna. Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur síðan tekið saman bréf um þetta mál og ég ætla að lesa það í heild, með leyfi hæstv. forseta, vegna þess að þar kemur fram skoðun ráðuneytis fjmrh. á vanda Lánasjóðs ísl. námsmanna. Í bréfinu segir, með leyfi forseta:

„Í bréfi sjóðsins frá 5. nóvember s.l. er fjárvöntun sjóðsins í fjárlagafrv. talin um 794 millj. kr. Þar af eru um 25 millj. kr. vegna skrifstofuhalds, 11 millj. kr. vegna fjármagnsútgjalda, 24 millj. kr. vegna ferðastyrkja og 734 millj. kr. vegna lánveitinga. Hér á eftir er fjallað stuttlega um einstaka liði og gerð tillaga um meðferð þeirra.“

Síðan er farið hér yfir þessa liði, þeir eru ýmist samþykktir að hluta til eða þeim algerlega hafnað, en síðan segir um lánveitingar Lánasjóðs ísl. námsmanna:

„Áætlaðar lánveitingar sjóðsins árið 1986 nema 1657 millj. kr. miðað við meðalverðlag 1986. Í frv. til fjárlaga er áætlað að verja 924 millj. kr. í þessu skyni og kemur því upp mismunur er nemur 733 millj. kr. til lánveitinga.“ 733 millj. er það sem vantar í Lánasjóð ísl. námsmanna á næsta ári að mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. „Sé tillaga sjóðsins reiknuð miðað við sömu breytingar verðlags og fjölgun lánveitinga og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir nema lánveitingarnar 1279 millj. kr. Þetta skýrir 378 millj. kr. af upphaflega mismuninum, þar af eru 329 millj. kr. vegna mismunandi verðlagsforsendna og 49 millj. kr. vegna ólíkra forsendna um fjölgun lánþega. Óskýrður munur nemur því 355 millj. kr.

Við afgreiðslu fjárlagafrv. úr ríkisstj. á liðnu sumri var ráðstöfunarfé sjóðsins lækkað um 300 millj. kr. með ákvörðun, þar af lántökur um 250 millj. kr. og fjárveiting um 50 millj. kr. Afgangurinn eða 55 millj. kr. skýrast af mun meiri lánveitingum 1985 en útlit var fyrir þegar forsendur fyrir sjóðinn lágu fyrir á s.l. sumri.

Samkvæmt framansögðu skortir verulega á að endar nái saman í fjárlagafrv. miðað við núverandi fyrirkomulag útlána. Mismunurinn nemur“ - og þar kemur hin endanlega tala Fjárlaga- og hagsýslustofnunar - „um 355 - 360 millj. kr. Ef halda á útlánum óbreyttum frá því sem frv. til fjárlaga gerir ráð fyrir er ljóst að því verður ekki náð fram nema með lækkun lána.“ Og hve mikil lækkun lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna? Því svarar Fjárlaga- og hagsýslustofnun svona: „Miðað við umræddar forsendur þyrfti að lækka lán sjóðsins um 30% frá ársbyrjun 1986.“

Þegar þessir þættir eru síðan skoðaðir nánar þá vita það allir sem til þekkja að fyrirheit eru gefin íslenskum námsmönnum við upphaf námsárs. Það er búið að gefa út fyrirheit miðað við árið 1986, fyrri hluta þess árs. Og ef greitt verður samkvæmt þeim loforðum úr Lánasjóði námsmanna 1986 þá er sjóðurinn tómur í júní 1986. Það verður ekki túkall eftir í sjóðnum. Ef standa á við það sem hér er sagt í fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun þá er Lánasjóður ísl. námsmanna tómur á miðju ári 1986.

Ég held, herra forseti, að það sé alveg óhjákvæmilegt að nú þegar við þessa umræðu svari hæstv. menntmrh. því: Ætlar hann að bera ábyrgð á þessum niðurskurði Lánasjóðs ísl. námsmanna um 400 millj. kr.? Ætlar hann að skera námslánin niður um 30%? Ætlar hann að horfa upp á það að sjóðurinn verði tómur í júní-júlí á næsta ári?

Í nál. mínu á þskj. 359 eru birt yfirlit yfir Lánasjóð ísl. námsmanna. Þar kemur það fram hvernig staða sjóðsins er. Þar kemur það glöggt fram að Lánasjóður ísl. námsmanna er tómur á árinu 1986 í júní eða júlímánuði. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. menntmrh. sé hér til staðar til að svara því: Ætlar hann að skera niður námslánin í byrjun ársins 1986, koma þannig aftan að námsmönnum sem hafa fengið loforð um lán á þeim árshluta eða ætlar hann að standa við loforðin á fyrri hluta ársins 1986 þannig að sjóðurinn verði tómur í júní-júlí 1986 og námslán á Íslandi verði lögð niður frá miðju næsta ári?

Hér er um að ræða, herra forseti, milli tvö og þrjú þúsund fjölskyldur Íslendinga sem hafa byggt sína afkomu, meðan þetta fólk er við nám, á Lánasjóði ísl. námsmanna og það er ekki við hæfi að standa að hlutum eins og ríkisstj. hyggst gera í þessu efni. Á fundi fjh.- og viðskn. Nd. í gærkvöldi, þar sem ég óskaði eftir að hæstv. menntmrh. yrði kallaður fyrir, upplýsti hann að hann mundi reyna að halda þannig á málum að lánin á fyrri hluta ársins 1986 yrðu ekki skert og hann mundi reyna að halda þannig á málum að hérna yrði ekki um að ræða mjög tilfinnanlegt högg. Ef það er, þá er hann að segja það að þessi afgreiðsla hér sé vitleysa. Þá er hann að segja við hæstv. fjmrh. að hann samþykki að vísu þessa tölu núna við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga en hann ætli sér að koma á næsta ári með beiðni með rökum um þrjú, fjögur, fimm hundruð milljónir króna í viðbót. Og það er ljóst að þær þrjú, fjögur, fimm hundruð milljónir króna í viðbót eru ekki til meðan ríkissjóður sleppir fyrirtækjum og öðrum slíkum aðilum við að borga skatta eins og eðlilegt væri.

Ég vænti þess, herra forseti, að séð verði til þess að hæstv. menntmrh. taki þátt í þessum umræðum ef mögulegt er og geri grein fyrir því hvernig hann ætlar að leysa málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna á næsta ári. Ég sé ekki að hæstv. ráðherra sé kominn í salinn, kannske er hann ekki í húsinu. (Forseti: Hæstv. menntmrh. vék sér frá og er ekki í húsinu eins og er, en þessum athugasemdum verður komið á framfæri við hann. Það er hins vegar ekki á valdi forseta að draga neinn í stólinn.) Það er á valdi forseta að fresta umræðunni ef þm. geta ekki haldið henni áfram með eðlilegum hætti. (Gripið fram í: Mun hv. frsm. minni hl. klára ræðuna sína í dag?) Það getur vel verið að ég klári ræðuna í dag, þó er ekki útséð um það alveg enn þá. Það eru enn þá 6 tímar til miðnættis. En það væri ekki lakara ef stjórnarliðið vildi sýna þá lipurð að kalla menntmrh. til, ég er viss um að hann vill gjarnan segja eitthvað um þetta mál. Ég vona að hæstv. fjmrh. hafi ekkert á móti því að menntmrh. tali í þessu máli, þó gæti það verið, en ég vil þá heyra í menntmrh.

Ég víl þessu næst, herra forseti, víkja að 73. gr. frv. sem fjallar um Kvikmyndasjóð. Þar er gert ráð fyrir því að framlög til Kvikmyndasjóðs á árinu 1986 verði um 16 millj. kr. Á árinu 1985 námu framlög til Kvikmyndasjóðs samtals um 30- 32 millj. kr. Sveinn Einarsson kom á fund fjh.- og viðskn. Nd. og greindi okkur frá því að þessi niðurskurður á framlögum til Kvikmyndasjóðs gæti haft mjög alvarleg áhrif á þá íslensku kvikmyndagerðarmenn sem núna eru, sem brautryðjendur, að fara af stað í þessari listgrein. Auðvitað er niðurskurðurinn á Kvikmyndasjóði svipaður og sama eðlis og niðurskurðurinn á fé til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Auðvitað er niðurskurðurinn á Kvikmyndasjóði sama eðlis og niðurskurður á fé til lista- og menningarstarfsemi í fjárlagafrv. Skv. upplýsingum sem við fengum í fjh.- og viðskn. Nd. nema framlög til lista 0,37% af fjárlagafrv. ársins 1986 og hefur þar orðið u.þ.b. fjórðungs lækkun að ræða miðað við fjárlögin núna á nokkru árabili. Í afstöðunni til Lánasjóðs ísl. námsmanna og til menningarmála yfirleitt kemur auðvitað fram stefna af hálfu Sjálfstfl. Það er sama stefna og birtist í plagginu „Ráðdeild í ríkisrekstri“, þar sem sérstaklega er vegið að lista- og menningarmálum og gerð tillaga um að þeir þættir verði skornir niður í raun og veru umfram allt annað.

Ég tel að það sé fróðlegt, til að menn skynji þá stefnu sem er á bak við lánsfjárlagafrv. og Kvikmyndasjóð og Lánasjóð námsmanna, að átta sig á í hvaða heimi íhaldið býr í menningarmálum yfirleitt. Það er best gert með því að lesa hér tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna, en þar ólust þeir upp, varaformaður og formaður Sjálfstfl. Hvaða tillögur ætli þeir geri um niðurskurð á ríkisútgjöldum? Listskreytingasjóður, auðvitað á hann að fara. Þýðingarsjóður, Listasafn Sigurjóns Ólafssonar, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar, leiklistarstarfsemi almennt, Bandalag ísl. leikfélaga, Leiklistarráð, Alþýðuleikhús, Íslenska óperan, Íslenski dansflokkurinn, tónlistarstarfsemi, listasöfn, Myndlistarskólinn í Reykjavík, Myndlistarskólinn á Akureyri, Félag ísl. myndlistarmanna, Bandalag ísl. listamanna, listkynning, styrkir, lista- og menningarmál ýmis, húsfriðun o.s.frv. Auðvitað kemur fram í þessum tillögum hæstv. fjmrh. stefna íhaldsins í menningarmálum. Auðvitað er þetta stefna sem hér er lögð áhersla á og verið að framkvæma.

Þó er það þannig að tilgangurinn með öllu þessu puði okkar á Alþingi eða í stjórnmálaflokkum eða í verkalýðsfélögum, hvar sem við störfum, á auðvitað að vera sá að búa hér betra menningarlífi. Tilgangurinn er ekki hagvöxtur og gróði og aukin þjóðarframleiðsla, heldur betra líf mannsins sjálfs, víðtækt og gott menningarlíf í víðtækasta skilningi. Þessi niðurstaða og tillögur hér í lánsfjárlagafrv. varðandi menningarmál lýsa átakanlegri þröngsýni íhaldsins í þeim málaflokki. Það er svo sem ekki nýtt en í þessu fjárlagafrv. er gengið býsna langt í þeim efnum.

En það er fleira, herra forseti, sem ræður úrslitum um það hvort við getum litið á okkur sem menningarþjóðfélag eða ekki en listsköpunin sem slík. Menning þjóðar ræðst líka af því hvernig hún býr að sínu fólki, einnig fötluðum og öldruðum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að skera Framkvæmdasjóð fatlaðra niður í 80 millj. kr. þegar umsóknir eru upp á 270 millj. kr. Umsóknir í Framkvæmdasjóð fatlaðra fyrir næsta ár eru upp á hvorki meira né minna en 270 millj. kr. og ég held að það sé rétt að lesa þær upp eftir svæðum hverjar þær umsóknir eru og hvaða aðilar það eru sem sækja í þessar 80 millj.

Númer eitt og stærsti umsækjandinn er menntmrn.

Eitt ráðuneytanna sækir þarna í 43,6 millj. kr. af þessum 80. Menntmrn. hefur með öðrum orðum í huga að sækja meira en helming af þeirri upphæð sem á að leggja í Framkvæmdasjóð fatlaðra 1986. Fjölmörg verkefni eru á dagskrá í málefnum fatlaðra í Reykjavík. Þar er sótt um 62,7 millj. kr. Í Reykjaneskjördæmi 56,1 millj. kr. Á Vesturlandi 13,1 millj. kr, Vestfjörðum 5,5 millj. kr., Norðurlandi vestra 10,9 millj. kr., Norðurlandi eystra 33,7 millj. kr., Austurlandi 8,6 millj. kr., Suðurlandi 33,7 millj. kr. eða samtals 268 millj. kr. umsóknir úr 80 millj. kr. sjóði. Ég fæ ekki séð hvernig stjórnarnefnd um málefni fatlaðra ætlar að ráða fram úr þessu verki þegar ríkið sjálft sækir um meira en helminginn af allri upphæðinni í Framkvæmdasjóði fatlaðra.

Ég veit ekki hvort allir þm. gera sér ljóst hvað það eru fjölþætt verkefni sem þessi sjóður er að fást við. Stundum heyrist sagt að hann sé aðallega að sinna Reykjavík, þéttbýlinu, sinni í raun og veru engu öðru. Ég ætla að rifja hér upp nokkrar staðreyndir um verkefni þessa sjóðs á árinu 1985. Á því ári er það þannig að Framkvæmdasjóðurinn veitir til 12 verkefna í Reykjavík. Það eru sambýli, endurhæfingarstöð, Gigtarfélagið, Sjálfsbjörg, Öryrkjabandalagið, Meðferðarheimilið Trönuhólum og fleiri aðilar. Á Reykjanessvæði veitti sjóðurinn á þessu ári til 10 verkefna. Það eru Reykjalundur, Tjaldanes, verndaður vinnustaður í Kópavogi, sambýli í Hafnarfirði, skammtímavistun í Kópavogi og fleira. Á Vesturlandi veitti þessi sjóður í þrjú verkefni: Sambýli á Akranesi, þjónustumiðstöð í Borgarnesi, verndaðan vinnustað á Akranesi. Á Vestfjörðum veitti hann í þrjú verkefni: Bræðratungu Ísafirði, Sjálfsbjörg Ísafirði og grunnskóla, sérdeild, Ísafirði. Á Norðurlandi vestra í fjögur verkefni, á Norðurlandi eystra í sjö verkefni, á Austurlandi í sex verkefni, á Suðurlandssvæði í níu verkefni á árinu 1985. Hér er m.ö.o. um að ræða milli 30 og 40 viðfangsefni sem sjóðurinn tók sér fyrir hendur að reyna að sjá fram úr á árinu 1985. Ég held að við þurfum að gera okkur ljóst hvaða áhrif það hefur til frambúðar á lífskjör á Íslandi ef við búum illa að fötluðu fólki. Fatlað fólk er ekki að fara fram á forréttindi á Íslandi, fatlað fólk er að biðja um jafnrétti í þessu landi. Fatlað fólk er að biðja um jafnrétti til þess að fá að leggja það sem það getur til verðmætasköpunar þjóðfélagsins. Ég hygg að ekki aðeins sé það í rauninni fráleitt frá almennu siðferðilegu sjónarmiði að ganga svo nærri þjónustu við fatlaða eins og hér er gerð tillaga um, heldur hygg ég einnig að með því séu menn að ráðast að fólki sem gæti skapað íslenska þjóðarbúinu verulega aukin verðmæti ef rétt væri að því búið.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja aðeins að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir því að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, eina verðtryggða tekjustofn sveitarfélaganna. Upplýsingar hafa ekki komið fram um það hversu mikil skerðingin verður á árinu 1986 en það er ljóst að hér er verið að taka af sveitarfélögunum mörg hundruð milljónir króna.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að við gerum okkur grein fyrir því að forustumenn Sjálfstfl. lýstu því yfir fyrir síðustu kosningar að þeir ætluðu sér að stuðla að stórauknu og efldu fjárhagslegu sjálfstæði sveitarfélaganna í landinu. Útkoman er sú að þeir skera niður eina verðtryggða tekjustofn sveitarfélaga. Þetta sýnir m.ö.o., herra forseti, að allt geipið um fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna hefur verið markleysa eins og ýmislegt fleira sem kom frá Sjálfstfl. fyrir kosningar og var svo svikið jafnharðan eftir kosningar, nema auðvitað loforðin sem voru gefin forustuliðinu í verslunarráðinu.

Ég vil í fjórtánda lagi, herra forseti, víkja að 29. gr. frv. sem fjallar um sölu á raðsmíðaskipum. Þar er enn þá tillaga um að raðsmíðaskipin verði fimm. Því hefur ekki verið breytt og ég spyr vegna þess að í reglugerð um ríkisábyrgðir vegna smíði fiskiskipa innanlands er aðeins talað um fjögur skip í þessu sambandi. Um raðsmíðaverkefnið má margt segja en það er ljóst að það verður að taka á því máli og það verður að leysa það. Ég held hins vegar að frumvarpsgreinin, eins og hún liggur hér fyrir, sé ekki nægilega skýr vegna þess að ég veit ekki betur en að þessi skip séu fjögur en ekki fimm og það munar um það hvort þau eru fjögur eða fimm því hér er um talsverðar upphæðir að ræða.

Ég bendi á það að 29. gr. er opin. Það er ómögulegt að segja skv. 29. gr. hversu mikið fé fellur á ríkið. Það veit það enginn. Mér finnst öll ástæða til þess að líta rækilega yfir málefni skipasmíðastöðvanna og mér finnst ekkert óeðlilegt þó að komið sé til móts við skipaviðgerðir með þeim hætti sem gerð er tillaga um hér af ríkisstj. En ég held að greinin, eins og hún liggur hér fyrir, verði að breytast á milli 2. og 3. umr. vegna þess að það er ekki sæmandi þinginu að ganga svona frá henni. Greinin er ekki í samræmi við þau lög sem heimiluðu raðsmíðaverkefnið á sínum tíma, 1982, og heldur ekki í samræmi við reglugerðina sem var gefin út 21. júlí 1982 af fjmrn. Ég vil því fara þess á leit við hv. stjórnarliða í fjh.- og viðskn. þingsins og hæstv. fjmrh. að hann athugi þessa grein sérstaklega vegna þess að ég held að hún sé vitleysa eins og hún stendur hér og það getur verið dýrt fyrir ríkið að ganga illa frá málum eins og þessu.

Þessu næst vil ég, herra forseti, víkja í fimmtánda lagi að því að á undanförnum árum er mikið búið að tala um fiskeldi. Það á allan vanda að leysa. Ef þröngt er fyrir dyrum í landbúnaðinum, þá er það fiskeldi. Ef þröngt er fyrir dyrum í sjávarútveginum, þá er það fiskeldi. Ef þarf að efla nýjar atvinnugreinar og sækja fram til nýsköpunar, þá er svarið fiskeldi. Þetta hefur kveðið við hér að undanförnu og haldnar langar og margar ræður um þetta hér á hv. Alþingi.

Við afgreiðslu lánsfjárlaga er þessari nýju atvinnugrein vísað á fimm sjóði. Fiskeldinu er vísað á Byggðasjóð. Fiskeldinu er vísað á stofnlánadeild landbúnaðarins. Fiskeldinu er vísað á Framkvæmdasjóð. Fiskeldinu er vísað á Iðnlánasjóð. Fiskeldinu er vísað á Fiskveiðasjóð og fiskeldinu er reyndar vísað á Þróunarfélagið. Það eru sex aðilar og það er engin samræming varðandi þessa fjármuni sem á að nota til fiskeldis. Ég held að þetta sé hættulegt, þetta stjórnleysisástand sem uppi er í þessum efnum, ég held það sé beinlínis hættulegt. Ég held að við þurfum að skipuleggja þessa hluti miklu betur og ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því, úr því hann er hér: Hvenær er ætlun ríkisstj. að leggja fram frv. um samræmda stefnu og ákvarðanatöku í þessum efnum?

Ég hef undir höndum skýrslu fiskeldisnefndar sem Gunnlaugur Sigmundsson veitti forstöðu. Hún skilaði áliti núna í þessum mánuði, trúi ég, og auðvitað ekki ástæða til að krefjast þess að menn hafi afgreitt hana nú þegar eða séu að því núna þessa sólarhringana. En mér finnst margt athyglisvert í þessari skýrslu og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að á því verði tekið nú hið allra fyrsta og strax eftir áramótin að setja lagaramma um fiskeldisstarfsemi í landinu. Þetta er ómögulegt hjá okkur svona, að vera með þetta í fimm eða sex sjóðum, hlutirnir ekki samræmdir og ekki tekið á málinu með neina heildarstefnu í huga.

Það hafa komið fram upplýsingar um að hægt sé að tryggja þjóðarframleiðslu í fiskeldi um aldamót, ef við stöndum rétt að, upp á 11 milljarða króna á núverandi verðlagi. Ég held að þessi von sé í hættu ef ekki verður skipulegar tekið á málefnum fiskeldisins en nú er verið að gera og ég harma að þessi mál skuli vera afgreidd svona við lánsfjáráætlun, að fiskeldinu og þróun þess er vísað á eina sex lánasjóði og enginn samræmingaraðili er til. Ég vil þess vegna endurtaka þessa spurningu mína til hæstv. forsrh.: Hvenær hyggst ríkisstj. taka á þessu máli í samræmingarskyni? Ég tel það hættulegt að þessi grein, sem getur skilað okkur miklum verðmætum, þróist tilviljunarkennt á komandi árum svo sem verið hefur.

Ég vil loks minna á það, herra forseti, í sextánda lagi, að í fjárlögum þessa árs og lánsfjárlögum var gert ráð fyrir 50 millj. kr. til rannsókna og þróunarstarfsemi. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 50 millj. kr. í þessu skyni. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að framlög af þessu tagi til rannsókna og þróunarstarfsemi geta skipt mjög miklu máli og haft afgerandi þýðingu fyrir okkar atvinnulíf í framtíðinni. Ég bendi hins vegar á að ríkisstj. er með óbreytta tölu í þessu efni í fjárlögum ársins 1986 og það er engin tala í lánsfjárlögum. Ég held að það sé í raun og veru mjög alvarlegt mál að við skulum ekki sýna þeirri sókn til betri lífskjara og nýsköpunar í atvinnulífinu meiri áhuga en þetta. Þess vegna mun ég við afgreiðslu fjárlaga flytja sérstaka tillögu um þennan lið því ég held að þarna sé um að ræða eitt mikilvægasta verkefni okkar samtíðar, að stuðla að alhliða eflingu rannsókna og þróunarstarfsemi, samstillingu rannsóknastofnana og umfram allt betri nýtingu þeirra fjármuna sem þegar fara til þessara mála og einnig stuðla að því að Háskólinn geti staðið skipulegar að þessum málum en hann hefur átt kost á að undanförnu.

Herra forseti. Nú væri ég kominn að lokum máls míns ef ekki hefði komið fram í gærkvöldi á fundi fjh.- og viðskn. brtt. frá ríkisstj., ákaflega sérkennileg brtt., sem gerir ráð fyrir því að láta bændur sjálfa borga kostnað við afleysingaþjónustu í sveitum og velta kostnaðinum af þessu út í verðlagið. Þannig er að bændur hafa greitt stofnlánadeildargjald, 1% af sínum framleiðsluafurðum. Þetta gjald hefur ekki komið út í verðlag landbúnaðarafurða. Nú er ákveðið að Stofnlánadeild landbúnaðarins borgi afleysingaþjónustu í sveitum og að stofnlánadeildargjaldið fari út í verðlagið. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, ef hann má nema mál mitt, hvernig hann ætli að fara að því að tryggja að stofnlánadeildargjaldið fari út í verðlagið. Hv. þm. Stefán Valgeirsson lýsti því yfir á fundi fjh.- og viðskn. í gær að þessu yrði velt út í verðlagið en ekki á bændur og ég hefði viljað vita hvernig hæstv. fjmrh. ætlar að fara að því að pína Sexmannanefndina til að samþykkja þessa hækkun. Ég veit ekki til þess að ríkisstjórnin eða fjmrh. ráði neitt yfir þeirri nefnd með formlegum hætti. Þess vegna fannst mér yfirlýsing hv. þm. Stefáns Valgeirssonar um það að þetta mundi ekki lenda á bændum afar sérkennileg. Ég er smeykur um að þeir framsóknarmenn hafi misskilið málið mjög alvarlega þegar þeir voru að pína Sjálfstfl. til að samþykkja þetta. Eða var það ekki þannig? Var það ekki framsókn sem beitti sér fyrir því að leggja þetta á bændur og taka afleysingaþjónustu í sveitum út úr ríkissjóði, eða var það kannske Sjálfstfl.? Það væri fróðlegt að vita hvor það var sem átti frumkvæðið.

Herra forseti. Ég hef hér í fáeinum orðum farið yfir nokkur meginatriði í lánsfjárlagafrv. og þeim málum sem því tengjast. Umræðan um þetta mál á þessu þingi verður bersýnilega minni en á síðustu þingum, því miður. En þegar allt kemur til alls og þegar ég fer yfir þetta mál kemst ég að eftirfarandi meginniðurstöðum:

1. Allar forsendur frv. eru á floti. Málið hefur fengið litla meðferð hér í þinginu og augljóst er að ríkisstj. gæti þurft að leggja hér fram frv. til aukalánsfjárlaga þegar líður á árið 1986.

2. Bersýnilega vantar verulegt fjármagn í húsnæðismálin miðað við fyrirheit og óbreytta starfsemi svo nemur hundruðum milljóna króna og bersýnilegt er skv. þessum áætlunum að starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna í nýjum verkefnum á næsta ári verður stöðvuð.

3. Í frv. er ekki tekið á alvarlegum vandamálum í okkar hagkerfi, sbr. vandamál hitaveitnanna sem ég rakti hér áðan.

4. Hvergi örlar í þessu frv. á framsýnni atvinnustefnu. Iðnaðarsjóðir birta vaxandi vanskil. Nýjar stofnanir eins og Byggðastofnun og Þróunarfélag hanga í lausu lofti. Rannsókna- og þróunarstarfsemi er úti og þannig mætti lengi telja af þessu tagi.

5. Hér er mjög harkalega vegið að Lánasjóði ísl. námsmanna og lánin skorin niður um 30%, ella vantar 4-500 millj. kr. í Lánasjóð ísl. námsmanna á næsta ári.

6. Vegið er sérstaklega að mennta- og menningarmálum. Það kemur fram í Kvikmyndasjóði og það kemur einnig fram í framlögum ríkisins til lista og menningarmála skv. fjárlagafrv.

7. Gerð er alvarleg tilraun til þess að stöðva þróun félagslegrar þjónustu m.a. með beinni árás á Framkvæmdasjóð fatlaðra sem er ætlað að hafa á næsta ári 80 millj. kr. þegar umsóknir í sjóðinn nema 268 millj. kr. eins og ég rakti hér áðan.

8. Í frv. er vegið að fjárhag og sjálfstæði sveitarfélaganna.

9. Ég tel að það sé mjög alvarlegt hvað meðferð fiskeldismála er ruglingsleg í þessu frv.

Þetta eru þau meginatriði, herra forseti, sem valda því að ég get ekki tekið þátt í að afgreiða þetta mál, ég var á móti því að taka málið úr nefnd. Við Alþýðubandalagsmenn munum beita okkur fyrir breytingum á þremur greinum frv., þeim sem snúa að stækkun álversins, skerðingu framlaga í Framkvæmdasjóð fatlaðra og skerðingu framlaga í Lánasjóð ísl. námsmanna. Að öðru leyti teljum við að frv. sé með þeim hætti að eðlilegast væri að vísa því til ríkisstj. með rökstuddri dagskrá eins og við leggjum til, þm. Alþýðubandalagsins, Kvennalistans og Bandalags jafnaðarmanna í þessari deild.