19.12.1985
Neðri deild: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól til að mæla fyrir brtt. á þskj. 355, sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, um hækkun á framlagi Framkvæmdasjóðs fatlaðra úr 80 millj. í 125 millj. Það mætti hafa um það langt mál hvað þessi sjóður fatlaðra hefur orðið að sæta mikilli skerðingu allt frá því hann var stofnaður 1980. Um það hef ég ítarlega rætt við hverja einustu fjárlagaafgreiðslu s.l. fimm ár. En allt kemur fyrir ekki því að með hverju árinu sem líður er sífellt þrengt meira og meira að þessum sjóði fatlaðra.

Ef gerður er samanburður á raungildi fjárveitinga til sjóðsins árin 1980-1985 og þeirra fjárveitinga, sem orðið hefðu ef verðtryggingarákvæði um sjóðinn hefðu haldið, kemur eftirfarandi í ljós:

Á árinu 1980 var skerðingin 19,4 millj. að raungildi, árið 1981 5,7 millj. að raungildi, árið 1982 8,2 millj., árið 1983 16,7 millj., árið 1984 57,8 millj. og árið 1985 59 millj. að raungildi. Samtals er hér um að ræða skerðingu á árunum 1980-1985 að upphæð rúmlega 167 millj. kr.

Í fjárlögum fyrir næsta ár kemur í ljós að sjóðnum er ætluð óbreytt krónutala milli ára eða 80 millj. kr. Hér er enn um að ræða gífurlega skerðingu sem nemur 85 millj. kr. Samtals er því um að ræða skerðingu frá stofnun sjóðsins 1980 að upphæð um 250 millj. kr.

Ljóst er að hefðu þessir fjármunir verið til staðar hefði verið hægt að leysa stóran hluta af þeim brýna vanda sem nú er til staðar, einkum í vistunarmálum fatlaðra. Sem dæmi má nefna að svæðisstjórn Reykjavíkur telur sig þurfa á næsta ári tæpar 80 millj. í framkvæmdafé til að leysa brýnasta vandann, en það er allt það fjármagn sem sjóðnum er ætlað á næsta ári og til ráðstöfunar er fyrir landið allt.

Það er líka nauðsynlegt að þm. átti sig vel á því að sjóðnum er ætlað að fjármagna framkvæmdir sem ákveðnar eru með grunnskólalögunum vegna fatlaðra og honum er ætlað að fjármagna skóladagheimili og dagvistarstofnanir fyrir fatlaða. Framkvæmdir vegna skóla- og dagvistarmála þeirra sem heilbrigðir eru eru fjármagnaðir m.a. beint af fjárlögum en ekki gegnum sérsjóð.

Tildrögin að því að sú leið var farin á sínum tíma, 1979, að flytja framkvæmdir vegna skólamála fatlaðra yfir á þennan sjóð, var að lítið sem ekkert hafði miðað til að hrinda í framkvæmd ákvæðum grunnskólalaga vegna sérkennslu fatlaðra. Því var gripið til þess ráðs að Framkvæmdasjóður fatlaðra fengi verulegt fjármagn, m. a. til að standa undir framkvæmdum vegna sérkennslu.

En hvað skeður? Vegna gífurlegra skerðinga á Framkvæmdasjóðnum er hann ekki aflögufær til að standa undir framkvæmdum vegna skólamála fatlaðra. Þó hefur vegna framkvæmda, sem í gangi eru vegna skólamála fatlaðra, orðið að láta um þriðjung af framkvæmdafé sjóðsins á ári hverju til skólamála eða nálægt 30%.

Ég nefni hér einnig að endurbætur og breytingar á eldra húsnæði fatlaðra án aukningar vistrýma hafa tekið annan þriðjung af framkvæmdafé Framkvæmdasjóðsins á fyrstu fjórum árum frá stofnun hans. Svo illa var fyrir þessum málum komið þegar sjóðurinn var stofnaður að rúmlega þriðjungur hans, eða tæplega 33%, hefur runnið til endurbóta og breytinga á eldra húsnæði án aukningar á vistrými.

Í annan stað má nefna að kostnaði vegna viðhalds á stofnunum öryrkja og þroskaheftra, sem áður var gert ráð fyrir í daggjöldum og fram til þessa á fjárlögum eftir að rekstur stofnana var færður á föst fjárlög fyrir einu eða tveimur árum síðan, er nú vísað á Framkvæmdasjóð fatlaðra og kemur það fram í fjárlagafrv. fyrir næsta ár.

Mér er sagt að stjórn málefna fatlaðra telji þessar viðhaldsframkvæmdir ekki verkefni sjóðsins en nú er þessu verkefni varðandi viðhald stofnana fatlaðra í fyrsta skipti vísað á Framkvæmdasjóðinn. Hér er því enn bætt verkefnum á sjóðinn án aukinna framlaga því að ekki er tekið tillit til viðhaldskostnaðar í rekstri stofnana fatlaðra á fjárlögum.

Fyrir það litla fjármagn sem sjóðnum er ætlað auk framkvæmda vegna sérkennslu og skólamála fatlaðra og nú viðhaldskostnaðar á stofnunum fatlaðra verður sjóðurinn að standa undir framkvæmdum vegna skóladagheimila, dagvistarstofnana, skammtíma fósturheimila, leikfangasafna, meðferðarheimila fatlaðra, sumardvalarheimila, sambýla, hjúkrunarheimila, verndaðra vinnustaða, hæfingar- og endurhæfingarstöðva og vistheimila. Á sex árum hafa einungis runnið tæpar 390 millj. að raungildi miðað við verðlag 1985 til allra þessara framkvæmda, þar með talið vegna skólamála sem löggjafar- og fjárveitingavaldinu ber skylda til að sinna skv. ákvæðum annarra laga, þ.e. grunnskólalaganna, því að fatlaðir eiga á því kröfu jafnt og heilbrigðir að fá lögboðna kennslu.

Lögin um málefni fatlaðra og framkvæmdir í þágu fatlaðra taka til mjög stórs hóps í þjóðfélaginu, eða allra þeirra sem á einhvern hátt eru andlega eða líkamlega fatlaðir. Ég geri ráð fyrir að hér sé ekki um að ræða minni hóp en 15-18 þúsund manns.

Það aukna framlag, sem hér er farið fram á með þessari till. okkar hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, er 45 millj. kr. hækkun á sjóðnum á milli ára, eða 55%, sem er sama hækkun milli ára og Alþingi er þessa daga að samþykkja að því er varðar sjóð aldraðra. Vissulega er nauðsynlegt og brýnt að hækka framlög í Framkvæmdasjóð aldraðra og því ber að fagna. En það er engu að síður nauðsynlegt að hækka framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Hér er þó um nálægt því jafnstóran hóp að ræða og aldraða sem mikið eiga undir að Alþingi sýni málefnum þeirra skilning og ljóst er að þar er þörfin brýn ekki síður en hjá öldruðum.

Ég held að nauðsynlegt sé að stjórnarliðar svari því hér við umræðuna, t.a.m. hæstv. fjmrh., hæstv. félmrh. og hæstv. heilbrrh.: Eru ekki sömu rök fyrir hendi að hækka framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra og í Framkvæmdasjóð aldraðra? Af hverju beitir hæstv. félmrh. sér ekki, líkt og hæstv. heilbrrh. gerir um sjóð aldraðra, fyrir því að sjóður fatlaðra verði hækkaður t.a.m. til samræmis við það sem ákveðið hefur verið um sjóð aldraðra?

Ég verð að segja að þau eru einkennileg forgangsverkefnin hjá þessari hæstv. ríkisstj. Fyrir ekki löngu síðan átti fjmrh. fjármagn, 40 millj. kr., til að fleygja í áfengisútsölu. Ég spyr: Var það brýnna verkefni en að auka framlög til málefna fatlaðra? Hér er farið fram á svipað framlag og fjmrh. fyrrverandi setti í eina áfengisútsölu.

Núna er ríkisstj. aflögufær um 110 millj. til að kaupa húsnæði Mjólkursamsölunnar. Á sama tíma eru framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra skert um 85 millj. Í stað 80 millj. á fjárlögum ætti það að vera 165 millj.

Ég bið þm., áður en þeir gera upp hug sinn til þeirrar brtt. sem ég hér mæli fyrir, að leiða hugann að því hvort sömu rök réttlæti ekki að hækka framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og Framkvæmdasjóðs aldraðra. Ég fagna hækkun á framlagi til aldraðra en það skulu vera mín lokaorð að ég bið hv. þm. að hafa sama skilning á málefnum fatlaðra.