19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég orðlengi nú ekki mjög um þetta sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími Sigfússyni. Og ég veit ekki hverjum verður greiði gerður með því nú og hér að ég fari að nefna dæmi sem rökstyðja minn málflutning. En það er eins og mig minni að frá Lánasjóði ísl. námsmanna hafi komið áætlun eigi alls fyrir löngu um fjárþörf á næsta ári upp á u.þ.b. 1850 millj. kr. En ég tók áreiðanlega rétt eftir því að í gærmorgun á fundi fjh.- og viðskn. hafi sjóðurinn komið með áætlun upp á 1660 millj. kr., eða þar um bil. Ekki er þetta nú nákvæm áætlanagerð. Ég skal nefna annað dæmi um ónákvæma áætlanagerð. Í nóvembermánuði s.l. barst mér beiðni frá Lánasjóðnum um aukafjárveitingu upp á rúmlega 181 millj. kr. vegna fjárþarfar námsmanna á tveimur síðustu mánuðum ársins 1985. Við hæstv. fjmrh. urðum sammála um að síðast á árinu kæmi ekki til greina að koma aftan að námsmönnum með því að verða ekki við þessari aukafjárveitingarbeiðni. Og við þessari beiðni var orðið, svo gott sem. En hvort það hafi liðið hálfur mánuður eða hvort það voru nær þrjár vikur þangað til ég fékk neyðarkall frá Lánasjóðnum um 50 millj. í viðbót, man ég ekki alveg enda skiptir það ekki máli. Og af hvaða ástæðum? M.a. þeim að það hafði gleymst að taka með í reikninginn greiðslu vaxta og afborgana á milli 20 og 30 millj. fyrir áramót. Háttvirtur fjármálaspekingur Steingrímur J. Sigfússon má kalla þetta góðar reiður og skynsamlegar áætlanir og traustvekjandi ef honum svo sýnist.

Að mér steðjar ótrúlegur grúi ungra námsmanna sem hafa kvartanir og klaganir daginn langan að bera upp við mig vegna starfsemi þessa sjóðs. Og það má undarlegt vera ef það hefur ekki borist til eyrna fleiri. Ég ætla ekkert að setja mig í dómarasæti um réttmæti þessara klögumála, það get ég ekki. Og vafalaust segir það unga fólk mér ekki alla söguna og það kunna að vera ýmis atriði sem þau draga undan í skýrslum sínum en ég sé þó lánsloforðin í höndum þeirra. Það er of snemmt fyrir mig að setja á langar tölur um þetta efni. Og þegar hv. þm. er svo óvandaður í málflutningi að kalla það gagnrýni á forvera mína þegar ég er að tala um að ég þurfi að setja mig inn í málin og kynna mér þau, sem ég hef ekki haft nema örfáar vikur til, þá er það náttúrlega málflutningur sem er ekki sæmandi. Ég þarf að mynda mér skoðanir á þessu og koma þeim til stjórnarflokkanna og hins háa Alþingis. Og þá með nýjar tillögur ef mér sýnist, að kynningu og rannsókn lokinni, að nauðsyn beri til.

Það er þýðingarlaust að gera mér upp einhver orð vegna þess að ég tók fram að ég mundi leggja mig fram um að koma ekki aftan að ungum námsmönnum. Vafalaust er of smátt skammtað. En ég sagði líka að þessi kurl yrðu komin til grafar áður en við slitum þessu þingi þannig að þá mætti finna ráð ef nauðsyn bæri til. En það er ekki nokkur minnsti vafi á því að standi ég sjóðinn, sem fer með fé sem nemur milljörðum, að óreiðustarfsemi og lausung þá mun ég taka afar fast á því í tillögum mínum til breytinga og bóta. Þetta mega menn ekki misskilja eða túlka öðruvísi en það er sagt. Og ef menn svo vilja vera láta að ég sé með þessu að taka ákvörðun um að breyta til þannig að um yrði að ræða stórfellda röskun á högum námsmanna, t.a.m. erlendis, þá þeir um það. En þannig er ekki komið sögu enn þá frá mínum bæjardyrum af því mér hefur ekki gefist kostur á að mynda mér skoðanir þar sem ég hef ekki fengið þær upplýsingar sem ég tel nauðsynlegar um alla starfsemi og hagi þessa sjóðs.

Svona standa sakir. Því miður gat ég ekki gert þessu máli fyllri skil og því er ég ekki við því búinn að fylgja einhverjum öðrum fjárhæðum eftir en hér er lagt til. En reglu og reiðu verðum við að hafa á þessu. Meira vil ég ekki segja þótt af ýmsu kynni að vera að taka, vegna þess að ég vil að þeim sem ábyrgðina bera á starfseminni gefist kostur á því að ræða við mig og verja hendur sínar, gefa skýringar áður en ég hef hér uppi pólitískar þrætur við menn um þessi málefni. Og það verð ég að biðja hv. fyrirspyrjanda að skilja. Mönnum er ekki greiði gerður með því að toga þá og teygja sem í umræðunni eiga þess ekki kost að bera hönd fyrir höfuð sér fyrr en að öll kurl eru komin til grafar.

Þessi pólitíska árás, sem verið er að gera vegna þessa sjóðs, hún er of snemma á ferðinni, þetta tal hv. þm., sem var fullt með útúrsnúninga um orð mín og afstöðu, á þessu stigi máls. Það er ekkert nema pólitískur hráskinnaleikur engum til góðs. Og það er vonandi að hv. þm. átti sig á því að þetta er ótímabær árás og það kynni að vera að hann ætti að geyma sér það til betri tíma ef eitthvað kemur fram í málinu sem verður bitastætt til að vega að mönnum fyrir.