19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. 1. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér í kvöld hafa þrír hæstv. ráðh. svarað nokkrum fsp. frá mér um ýmis mál, Lánasjóð ísl. námsmanna, Byggðastofnun og húsnæðismál. Ég ætla hér að víkja aðeins að þeim svörum sem ég hef fengið um leið og ég þakka ráðherrunum fyrir þær tilraunir sem þeir hafa gert í þessa veru.

Það er þá fyrst í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna. Hvað er hér um að ræða? Hér er um það að ræða, herra forseti, að fyrir liggur að til Lánasjóðs ísl. námsmanna á að verja á næsta ári 1265 millj. kr. Það liggur fyrir að mati fjmrn., ekki Lánasjóðsins. Það er ekki við Lánasjóðinn að sakast heldur Þorstein Pálsson hæstv. ráðh. Það er hann, hæstv. ráðh., sem gefur hér út í dag töluna 1657 millj. kr. og að í sjóðinn vanti 355 millj. kr. segir ráðuneyti hans. Að vera að veitast að starfsliði og skrifstofufólki Lánasjóðsins fyrir feilreikninga í þessum efnum, það er ekki sæmandi.

Úr því að hæstv. ráðh. er hér að kenna þm. mannasiði þá er best að það verði einnig gerð tilraun til kennslustundar í þeim efnum. Það er ekki sæmandi að ráðast að þessu starfsliði fyrir þessa feilreikninga. Eða ætli hæstv. núverandi menntmrh. sé rétti maðurinn til þess að gagnrýna fyrir feilreikninga? Var hann ekki iðnrh. á þeim tíma þegar síðasti samningur var gerður við Alusuisse, þegar reikningarnir og töflurnar sýndu það að þetta nýja samkomulag myndi gefa hærri tekjur en nokkru sinni fyrr og aldrei lægra en hið gamla samkomulag? Þegar þessi gjörð núverandi menntmrh. er lögð fyrir þingið kemur í ljós að þetta er tóm vitleysa, allar forsendurnar tómt rugl. Og niðurstaðan verður sú að reiknivélin hafi bilað á hnjánum á starfsmönnum Seðlabankans. Svo koma menn hér upp og vaða fram með slíkar árásir á starfsmenn Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég held að það þjóni engum tilgangi. Það sem liggur fyrir er auðvitað það að hér vantar inn í dæmið tæplega 400 millj. kr. að mati fjmrn. Það er það sem liggur fyrir. Og úr því að hæstv. ráðh. vildi taka einhverja tölu, af hverju tók hann þá þessa tölu, 1256 millj. en ekki 1667, 1131, 944 eða hvað það nú er? Hvaða speki og vísindi eru á bak við þessa tölu, 1256 millj. kr.? Úr því að allir útreikningar eru rugl, tóm endileysa, tóm vitleysa, af hverju tók hann þá bara þessa tölu? Fyrir því eru engin rök, ekki nokkur skv. málflutningi hæstv. ráðh.

Menn eru að skjóta sér á bak við þá staðreynd að það er ekki hægt að koma fjárlögunum saman. Lánsfjárlögin eru rugl. Þar vantar allar meginforsendur. Og til þess að koma fjárlögunum og lánsfjárlögunum saman búa menn sér til einhverja tölu á Lánasjóð ísl. námsmanna og kenna reiknimeisturunum á kontórunum þar um að þeir reikni vitlaust. Þetta er aðferðin sem ríkisstj. notar í þröngri stöðu til þess að koma fjárlögunum saman. Ekki er það hraustlega gert að ætla að kenna öðrum um ríkisfjármálastjórn þeirrar ríkisstj. sem hæstv. menntmrh. ber auðvitað fulla ábyrgð á.

Lánasjóður ísl. námsmanna er áreiðanlega ekki yfir gagnrýni hafinn og eðlilegt að farið sé ofan í saumana á hans fjármálum. Það er hlutverk menntmrh. að tryggja það og ég vil styðja hann í því fyrir mitt leyti. Ég tel eðlilegt að það sé ævinlega farið rækilega í saumana á svona stórum fjárlagaliðum eins og hér er um að ræða. Ég held að það ætti að fara mjög rækilega og vandlega í fleiri liði. En ég tek það fram að ég tel að slíkir liðir og slíkir þættir í ríkisbúskapnum eigi alltaf að vera til skoðunar. En það á ekki að skjóta sér á bak við starfslið Lánasjóðs ísl. námsmanna í þessu efni. Og ég get ekki neitað því að það hvarflaði að mér, eins og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni hér áðan undir ræðu menntmrh., hvílík aðkoman hafi verið eftir hæstv. ráðh. Ragnhildi Helgadóttur. Óskaplega hefur þetta verið erfitt að taka við að hæstv. ráðh. Ragnhildi Helgadóttur. Allt í tómri vitleysu. Áætlanir óskiljanlegar og ómarktækar og í raun og veru óbrúklegar að öllu leyti. Þess vegna er ekkert annað að gera en að setja þarna inn í lánsfjárlögin einhverja slumptölu frekar en ekkert því að menn vilja auðvitað ekki skila auðu. Ég bið ráðherrann forláts á því að ég skuli hafa látið mér detta þetta í hug. En mér kom það þó til hugar undir ræðu hans. Þannig var hún sett upp.

Það liggur fyrir samkvæmt yfirlýsingum hæstv. menntmrh., sem er í mínum huga kannske aðalatriði málsins, að það verður ekki komið aftan að mönnum miðað þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Það þýðir að það verður staðið við lánsloforð á fyrri hluta ársins 1986. Það er ljóst. Þar með er hann búinn að eyða um 1000-1200 millj. kr. úr Lánasjóðnum. Þá er eftir seinni hluti ársins 1986. Ráðherrann sagði í ræðu sinni áðan að það væri bersýnilega of naumt skammtað. Ráðherrann ætlar með öðrum orðum að knýja á um viðbótarframlag í sjóðinn á næsta ári. Ég held að það væri hreinlegast að segja það fullum fetum. En þessar yfirlýsingar ráðherrans liggja fyrir og þær eru betri en ekkert. Ef maður les töluna og ekkert annað þá þýðir þetta 30% niðurskurð á lánum til íslenskra námsmanna.

Það er ekki vegna þess, herra forseti, að menn hafi gaman af því að standa í einhverjum pólitískum skætingi að þeir taka þessi mál upp, þó að það sé yfirleitt heldur ánægjulegt að eiga orðastað við hæstv. menntmrh., ég viðurkenni það, heldur vegna þess að það er skylda stjórnarandstöðunnar að spyrja mjög vandlega út í svona hluti og fá upplýsingar um það hvaða forsendur eru á bak við málin. Sú þinglega skylda hvílir á stjórnarandstöðunni og ef hún rækir hana ekki þá er hún ekki að rækja sitt hlutverk. Þá eru þeir þm., sem skipa sér í stjórnarandstöðusveit, ekki að gegna því alvarlega hlutverki sem kjósendur þeirra hafa falið þeim. Þess vegna erum við að fara yfir málin með þeim hætti sem við höfum gert. Ég lagði ákveðnar spurningar fyrir hæstv. menntmrh. í dag og í kvöld. Þeim hefur verið svarað og ég ætla ekki að orðlengja um það frekar.

Varðandi Mjólkursamsöluhúsið, sem ég spurði um, þá skýrði hæstv. menntmrh. frá því að það mál yrði lagt fyrir fjárveitinganefnd, kæmi síðan hér inn í þingið og ekki nema gott eitt um það að segja. Ég var að gagnrýna aðferðina en ekki það að teknar voru snaggaralegar ákvarðanir um að leysa húnæðisvandamál Þjóðskjalasafnsins. Ég fagna því að slíkar ákvarðanir skuli hafa verið teknar og ég vona að þær verði til góðs fyrir Þjóðskjalasafnið. Um það veit ég hins vegar ekkert því ég hef aldrei séð húsið eða skoðað. (Gripið fram í.) Já, utan frá. Og reyndar kaffistofuna á vinnustaðafundum Guðmundur, það er rétt. (GJG: Við höfum boðað saman fagnaðarerindið þar.) Já, við höfum haldið þar vissar samkomur, það er rétt.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans. Ég ætla ekki að fara að rökræða neitt við hann sérstaklega. Ég ætla aðeins að víkja að þessum umræðum um erlendu skuldirnar. Hann er oft að tala um þær og það er gott. Hann segir að ríkisstj. stefni markvisst að því að minnka erlendar skuldir og reka ríkissjóð hallalaust. Hann sagði það líka hér áðan. Hér er verið að afgreiða fjárlög með með nokkur hundruð millj. kr. halla. En hann heldur sig samt við það að ríkisstj. eigi sér þá hugsjón að hafa þetta í jafnvægi. Hann vitnaði til þess að erlendar skuldir hefðu verið 27% af þjóðarframleiðslu 1981 og 40% 1982. Það lá í orðum hans að farið hefði verið mjög geyst í erlendar lántökur á milli þessara ára. Nú vill svo til að við sátum báðir, ég og hæstv. ráðh., í þeirri ríkisstjórn sem þá bar ábyrgð á hlutunum. Það er dálítið sérkennileg tilhneiging hjá hæstv. forsrh. að gagnrýna þessa stjórn og þar með Framsfl. í fortíðinni og öll þau verk sem hann hefur unnið. (Gripið fram í: Hann er búinn að koma víða við.) Sem betur fer er það nú ekki þannig með Framsfl., eins og menn geta lesið í bókum Eysteins, að flokkurinn sé sögulaus. Hann hefur t.d. setið í ríkisstjórnum um alllangt árabil hér á landi. En af hverju hækkuðu skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu milli áranna 1981 og 1982? Var það vegna þess að menn bættu svona stórkostlega við erlendar skuldir og erlendar lántökur? Hækkuðu erlend lán þjóðarinnar á milli áranna 1981 og 1982 um 50%? Staðreyndin er sú að hækkunin á þessum hlutfallstölum stafar ekki af því að menn tækju aukin erlend lán í svo stórum mæli heldur af því í fyrsta lagi að þjóðarframleiðslan féll verulega og í öðru lagi af því að vextir af erlendum lánum þjóðarinnar hækkuðu frá því að vera neikvæðir upp í það að vera jákvæðir raunvextir milli 5 og 6 prósent. 1% raunvextir á erlendum lánum, hvað þýðir það fyrir þjóðarbúið? Hvert 1% í þessu efni þýðir 250 millj. kr. Sú 5% hækkun á raunvöxtum erlendis sem átti sér stað á milli áranna 1981 og 1982 þýddi á einu ári 1,3 milljarða kr. í aukin útgjöld fyrir þjóðarbúið. Hæstv. forsrh. á auðvitað ekki að gleyma þessum skýringum á hinu hækkandi erlenda lánahlutfalli þjóðarbúsins. Það er fall þjóðarframleiðslunnar og það eru stórhækkaðir erlendir vextir.

Ég vildi síðan vekja athygli á því sem fram kom hér í máli hæstv. félmrh. og hv. þm. Halldórs Blöndals. Mundi vera hugsanlegt að þeir væru hér viðstaddir þessir ágætu menn, einkum og ekki síst Halldór Blöndal, en ekki væri nú verra að hafa ráðherrann líka, þannig að þeir væru tveir? (Forseti: Það verður athugað.) Hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði að samkvæmt mínum orðum hér fyrr í kvöld væri óþarfi að flytja lög um húsnæðissamvinnufélög og ég væri í rauninni að snupra félaga minn hér, Steingrím J. Sigfússon, fyrir að hafa staðið að flutningi slíks frv. Ég veit að hv. þm. veit að þetta er ekki rétt hjá honum. Auðvitað er frv. um húsnæðissamvinnufélög ekki um neitt annað en að festa lagareglur um það form húsnæðis hér á landi. Það sem hins vegar hefur gerst er að hæstv. félmrh. hefur tekið af skarið og ákveðið lán til húsnæðissamvinnufélaga og þannig skákað hv. þm. Halldóri Blöndal út í horn, og var vissulega tími til kominn að mati okkar flestra hv. alþm., gæti ég trúað. Hv. þm. Halldór Blöndal sagði hins vegar: „Ég er á móti húsnæðisstefnu sem úthýsir Bandalagi íslenskra sérskólanema. Ég er á móti húsnæðisstefnu sem úthýsir Félagsstofnun stúdenta. Ég er á móti húsnæðisstefnu sem úthýsir Blindrafélaginu. Ég er á móti húsnæðisstefnu sem úthýsir Öryrkjabandalaginu. Ég er á móti húsnæðisstefnu sem hafnar Samtökum aldraðra.“ Ég veit ekki við hvern hv. þm. var að tala. Var hann að tala við félmrh.? Er hann á móti fötluðum, öldruðum og sjúkum alveg sérstaklega? Eða hvað? Ég skil ekki hvað þessar árásir á hæstv. félmrh. eiga að þýða og ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. hvort hann vildi ekki segja okkur af tilraunum sínum til þess að fá hæstv. félmrh. til að taka undir málefni fatlaðra, sjúkra og aldraðra. Vill hann ekki segja frá þeirri baráttu sem hann hefur háð í ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum til þess að leiða hæstv. félmrh. af villu síns vegar, þetta hroðamenni sem er vondur við aldraða, fatlaða og sjúka? Það væri fróðlegt að vita um þær orrustur sem hæstv. félmrh. og hv. þm. Halldór Blöndal hafa háð um húsnæðismál fatlaðra, öryrkja og aldraðra. Það væri fróðlegt að vita hvenær þær hafa staðið þessar orrustur. Ég skil ekki þessar árásir hv. þm. Halldórs Blöndals öðruvísi og ég vil taka undir með honum: Ég er á móti húsnæðisstefnu sem hafnar þessu fólki og er reiðubúinn að taka þátt í því að berjast gegn slíkri stefnu eins og hv. þm. greindi hér frá áðan. (HBl: Þá skaltu bara tileinka þér mína stefnu og þá leysist þetta.) Hitt er fjarstæða að sú stefna sem hv. þm. hefur barist fyrir sé nokkuð sem hægt er að taka undir, enda er hann í minni hluta á Alþingi í þessu efni, sjóðandi minni hluta, og nú hefur hæstv. félmrh. tekið af skarið og lýst því yfir að hann ætli að framkvæma þá stefnu í húsnæðissamvinnufélagamálum sem meiri hluti þingsins stendur að. Þar með er hv. 2. þm. Norðurl. e. settur út í horn og er vissulega tími til kominn og það fagnaðarefni, herra forseti.

Og svo að allra síðustu þetta. Hæstv. félmrh. rakti hér nokkrar tölur um Byggingarsjóð ríkisins. Þær voru svona: Í lánsfjárlagafrv. eru 2050 millj. kr. í Byggingarsjóð ríkisins í lánveitingar. Sú tala hefur verið hækkuð upp í 2500 millj. Þar með er búið að gera ráð fyrir þessum fjármunum til sérstakra ráðstafana í húsnæðismálum upp á 200 millj. kr. En þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra vegna þess að inni í þessari tölu er verðlagshækkun og hún ein gleypir 322 millj. kr., þannig að ráðherrann hefur bersýnilega ekki enn þá svarað því hvaðan á að taka þessar 200 millj. kr. Þetta er sönnun þess, sem ég gat um hér í ræðu minni í dag, að í rauninni vantar hér nokkur hundruð milljónir króna til þess að lánsfjárlög varðandi húsnæðismálin gangi upp. Þess vegna eru þessi lánsfjárlög vanburða og ófullkomin að flestu leyti og þess vegna eina rökrétta afstaðan að þingið vísi þeim frá eins og lagt var til hér í dag.