19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

198. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. með fyrirvara og ástæða hans er sérstaklega ákvæði til bráðabirgða 1, breyting á ákvæðum skattalaga um tillag til fjárfestingarsjóða og varasjóða. Að öðru leyti styð ég þetta frv. vegna þess að þar er komið að nokkru til móts við óskir milliþinganefndar í húsnæðismálum.

Ég vil þó láta þess getið, sem er galli á framlagningu málsins af hálfu ríkisstjórnarinnar, að það liggur ekki fyrir hversu mikil útgjöld þetta hefur í för með sér. Fulltrúi Fjárlaga- og hagsýslustofnunar treysti sér ekki til að svara þeirri spurningu. Hins vegar mun það hafa komið fram í ræðu hæstv. fjmrh. er hann mælti fyrir málinu að sú breyting á eignarskattsmörkum sem gert er ráð fyrir í frv. gæti haft í för með sér nokkurn tekjuauka fyrir ríkissjóð upp í það tekjutap sem hlýst af öðrum greinum frv. Ég vildi, herra forseti, gera hér grein fyrir þessum fyrirvara mínum.