19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

198. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það má að sjálfsögðu deila um það hvort skattfrelsismörk vegna eignarskatts hafi verið of há eða lág á þessu ári. En ef við viljum ganga út frá því að eignarskattsmörkin séu sambærileg milli ára og átt sé við hinn almenna borgara, allan fjöldann, þá er vitaskuld eðlilegt að skattgjaldsvísitala eignarskatts breytist í samræmi við fasteignamat fremur en tekjubreytingar milli ára.

Það er misskilningur hjá hv. 5. þm. Reykv. að þessi grein feli í sér að skattfrelsismörk til eignarskatts verði lækkuð í þeim skilningi að menn eigi að greiða hærri eignarskatt á næsta ári heldur en því sem nú er ef við miðum t.d. við íbúðarhúsnæði. Þessi brtt. lýtur að því að miðað við sömu eign í íbúðarhúsnæði sé greiddur sambærilegur skattur. Hins vegar er það rétt ef um annars konar eignir er að ræða, ef eign viðkomandi samanstendur t.d. af mikilli og dýrri bifreið eða öðrum slíkum eignum, þá felur þetta í sér þyngingu eignarskattsins, en miðað við það sem hv. þm. hefur áður sagt hér í deildinni þá held ég að hugsun hans sé alls ekki sú að hlífa slíkri eignasöfnun. En ég vil leggja áherslu á þetta: Það er misskilningur að þetta breytta ákvæði feli í sér þyngingu á eignarskatti miðað við sambærilegt íbúðarhúsnæði á árinu 1985 og árinu 1986. Þvert á móti markar þetta þá stefnu að eignarskattur vegna íbúðarhúsnæðis verði sambærilegur frá einu ári til annars, en það er gagnstætt því sem yrði ef við miðuðum skattfrelsismörk eignarskattsins við launaþróun í landinu.