19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. sem er á þskj. 394 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Mál Hafskips hf. og Útvegsbankans hafa verið mjög til umræðu að undanförnu. Spurningar, sem hefur verið varpað fram, hafa varðað

(1) hreina viðskiptaþætti,

(2) siðferði og árekstra hagsmuna í embættisfærslu og stjórnmálum, og

(3) flokkspólitísk áhrif í bankakerfinu. Undirritaður telur að Alþingi hafi sérstöku hlutverki að gegna við eftirlit með ríkisstjórn og framkvæmdavaldi. Í samræmi við þá skoðun er undirritaður einn flm. að frv. um rannsóknarnefnd Alþingis vegna framangreinds máls.

Rökin, sem hafa verið borin fram gegn þingnefnd, eru aðallega tvenns konar:

Í fyrsta lagi er því haldið fram að Alþingi tengist málinu þegar vegna kosninga í bankaráð og setu alþm. þar og sé því vanhæft.

Í öðru lagi er því haldið fram að pólitísk uppþot af hálfu þm. til að koma höggum á einstaka menn eða flokka muni ónýta störf þingnefndar.

Um fyrri rökin er það að segja að vissulega eru fyrir hendi óheppileg og skaðleg tengsl Alþingis og framkvæmdarvaldsins. A það hefur BJ margsinnis bent.

Undirritaður er engu síður þeirrar skoðunar að Alþingi geti, og raunar eigi, að rannsaka það mál sem hér um ræðir. Vegna tengsla við bankaráðin, jafn skaðleg og röng sem þau eru, er enn meiri ástæða til vandvirkni og varúðar. Þeir sem hafna rannsóknarnefnd þingsins alfarið vegna tengslanna við bankaráð hljóta þá að styðja nú og í framtíðinni tillögur um að þingið hætti að kjósa í ráð og stjórnir framkvæmdarvaldsins, þar á meðal bankaráð. Því verður ekki trúað að þeir uni vanhæfni þingsins til rannsóknar á framferði ríkisstjórna og stofnana þeirra.

Seinni rökin eru athyglisverð, þ.e. að þingið sé vanhæft til að rannsaka málið vegna væntanlegra pólitískra skrípaláta. Morgunblaðið hefur notað þessi rök í Reykjavíkurbréfi og hluti þm. virðist sama sinnis. Því er hins vegar ekki hægt að trúa að óreyndu að meiri hluti þm, telji sjálfa sig og kollega sína svo óábyrga að þeir valdi ekki rannsóknarverkinu. Slíkt væri í rauninni yfirlýsing um miklu almennara vanhæfi þingsins og mundi einnig ná til almennra löggjafarstarfa. Það er nefnilega ekki hægt að gera minni kröfur til þingsins í löggjafarstarfi en í rannsóknarstarfi.

Undirritaður telur að þingið eigi að kjósa rannsóknarnefnd. Það fyrirkomulag rannsóknar, sem tillaga er gerð um í þessu frv., er alls ófullnægjandi.

Undirritaður mun greiða atkvæði gegn frv.“

Hér hef ég, herra forseti, lýst afstöðu minni til þessa frv. sem hér um ræðir. Þetta frv., um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka og Hafskips og að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn, er til komið sem svar ríkisstjórnarinnar við þeirri almennu kröfu að þetta mál sé rannsakað, ekki einungis hvað varðar viðskiptahætti og hugsanleg refsiverð brot í sambandi við það, heldur verði einnig athuguð siðferðileg mál og hugsanlegir hagsmunaárekstrar í sambandi við þetta.

Með hliðsjón af því að málið er til komið vegna óska um rannsókn held ég að það sé skynsamlegt að athuga þessa tvo kosti sem fyrir eru, þ.e. annars vegar að þingið láti þessa rannsókn fara fram og hins vegar að fundin sé einhver önnur leið til þess, eins og ríkisstjórnin hefur fundið með þessu frv. til l. um nefnd til að rannsaka viðskiptin. Ég legg á það áherslu að það hafa ekki komið fram nein haldbær rök í þessu máli, að mínu mati, til að hafna rannsóknarnefnd á vegum þingsins. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir slíkri nefnd eða fyrir slíkri rannsókn í stjórnarskrá. Og hvað sem mönnum kann að þykja um líkur á pólitískum uppþotum eða skrípalátum, eins og ég segi í þessu nál., þá er það nú einu sinni bara það þing sem hér situr og menn eru að tala um sjálfa sig og kollega sína. Ef menn treysta sjálfum sér og öðrum ekki til þessara rannsóknarstarfa vegna þess að pólitísk uppþot skemmi þar fyrir, þá hlýtur að vera að menn séu um leið að lýsa yfir vanhæfni þingsins til almennra starfa, eins og ég hef tekið fram. Það er ekki hægt að gera neitt minni kröfur til þm. hvað varðar almenn löggjafarstörf heldur en þessi rannsóknarstörf sem rannsóknarnefnd mundi hafa með höndum. Þetta er, eins og ég segi í nál., annar flokkur rakanna sem borin eru fram gegn rannsóknarnefnd.

Hinn flokkurinn er sá að menn telja að Alþingi tengist málinu nú þegar vegna kosninga í bankaráð og setu alþm. þar og þess vegna sé þingið vanhæft. Ég tek undir að tengsl þingsins og bankaráðanna eru skaðleg og mundu valda vissum erfiðleikum ef rannsóknarnefnd þingsins ætti um að fjalla. Það eru þó ekki næg rök til þess að hafna rannsóknarnefndum þingsins. Menn yrðu bara að gera sér grein fyrir þessum vanköntum og halda þá þannig á málum að tengslin við bankaráðin yrðu rannsókninni ekki til skaða. En ég legg líka ríka áherslu á það - og beini þeim orðum mínum sérstaklega til talsmanna Sjálfstfl. sem við ýmis tilefni í þessu svokallaða Hafskips- og Útvegsbankamáli hafa notfært sér það að Alþingi tengist bankaráðum á þennan hátt, hafa notfært sér það til þess að tala ákaft á móti rannsóknarnefndum þingsins - að ef það er trú þeirra að Alþingi sé vanhæft til að rannsaka Útvegsbankamálið vegna þessara tengsla þá hlýtur að vera hægt að álykta út frá því að þeir telji að þessi tengsl þingsins við bankaráð og önnur ráð og stjórnir framkvæmdarvaldsins beri að slíta. Því það getur ekki verið vilji þessara talsmanna Sjálfstfl. að Alþingi sé vanhæft til að rannsaka allar þær stjórnir og öll þau ráð sem þingið kýs í, vegna þess að ef þessi rök eru notuð áfram þá væri Alþingi vanhæft til þess að rannsaka Sementsverksmiðju, það væri vanhæft til þess að rannsaka Síldarverksmiðjur ríkisins og það væri vanhæft til þess að rannsaka öll þessi dýrðarinnar kompaní sem Alþingi kýs stjórnirnar fyrir.

Ég trúi því ekki að talsmenn Sjálfstfl. uni því, að þeir uni þessu almenna vanhæfi þingsins til rannsóknarstarfa á framferði framkvæmdarvaldsins. Af því tilefni bendi ég á að ég lagði fram lagafrv., sem voru brtt. við viðskiptabankalög, þar sem Sjálfstfl. er, eins og reyndar öðrum þm., gefinn kostur á að merkja sig í þessu máli. Þ.e. það frv. gengur út á það að Alþingi hætti að kjósa í bankaráð. Það verður mjög fróðlegt að sjá afstöðu fulltrúa Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. þegar þeir skila áliti um það frv. en það hefur þegar verið afgreitt úr nefndinni. Menn bíða þess nú að sjá nál. í því máli.

Ég held að þessu máli eigi að fylgja eftir og ég mun fyrir mitt leyti fylgja því eftir með því að leggja fram brtt. við lög um Síldarverksmiðjur, um Sementsverksmiðju og önnur þessi „drottinsdýrðarkompaní“, sem Alþingi telur sér skylt að kjósa í, breytingar sem gera ráð fyrir að viðkomandi ráðherrar skipi í þessar stjórnir. Það hlýtur að vera eina ráðið. Nema menn telji það eðlilegt að Alþingi verði að beygja sig og geti ekki látið fara fram fyrir eigin tilverknað sjálfsagðar rannsóknir á högum þessara fyrirtækja.

Á grundvelli þessara vangaveltna, herra forseti, leggst ég gegn þessu frv. til laga um nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips. Það er leið ríkisstj. til þess að komast hjá því að taka á þessu máli eins og þinginu ber samkvæmt stjórnarskrá. Ég uni ekki þessari leið vegna þess að ég tel að þinginu sé vanvirða að því að láta segja sér það og samþykkja það yfir sig, að það sé vanhæft til þess að láta þessa rannsókn fara fram sjálft og verði þess vegna að kalla til Hæstarétt. Það er biti sem ég fyrir mitt leyti ætla ekki að kyngja.

Þó að ég hafi við ýmis tækifæri látið ýmis orð falla um ýmsa siði og ýmsan skikk sem viðgengst innan þessara veggja þá tel ég að hér sé um ákveðið grundvallaratriði að ræða. Ég fel að þeir þm., sem hafna rannsóknarnefnd þingsins og taka þennan kost sem hérna býðst, séu að játast undir þann dóm að þeir séu annaðhvort af vanhæfi eða af tilhneigingum til pólitískra skrípaláta óhæfir til þess að láta fara fram eðlilega rannsókn skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar.

Þess vegna, herra forseti, legg ég áherslu á að þingnefnd er hin rétta leið í þessu máli. Allt annað er undansláttur og því greiði ég atkvæði gegn þessu frv.