19.12.1985
Neðri deild: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég er einn þeirra sem skrifa undir nál. meiri hl. og styð að sjálfsögðu þetta frv. sem hér er til umræðu. Ég vil hins vegar að það komi skýrt fram að það er ekki vegna þeirra raka sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, að ég treysti ekki þm. fyrir nefndarstörfum, hvort sem það er í rannsóknarnefndum eða öðrum nefndum, eða haldi að þm. séu með pólitísk skrípalæti. Þær röksemdir hafa ekki komið fram frá mér eða öðrum sjálfstæðismönnum á þingi að ég best veit.

Það er hins vegar bent á að það geti verið óeðlileg og seinfær leið að 14 þm. úr öllum stjórnmálaflokkum sitji í slíkri rannsóknarnefnd. Hafa skiptaráðendur tekið það skýrt fram að slíkt geti skaðað rannsóknina sjálfa, enda kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns að það væri aðili utan þingsins sem hefði bent á þessa röksemd. Ástæðan fyrir því að við viljum ekki notast við 39. gr. stjórnarskrárinnar er sú að sú grein hefur örsjaldan verið notuð, gefur takmarkaðan möguleika. Slík nefnd hefur verið kosin 1911, 1955 og 1956 og þeir, sem hafa kynnt sér þau mál sem þá voru til umfjöllunar, vita að slíkri nefnd er settur æðiþröngur rammi og þarf ekki annað en að vitna til þessara þriggja mála. Meira að segja hv. varaþm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði á sínum tíma að hér væri á ferðinni úrelt lagaákvæði. Það var 1978 þegar hann flutti tillögu um rannsóknarnefnd sem átti að vera kosin af Sþ.

Síðan - og það er nú aðalástæðan fyrir því að ég kem hér í ræðustól - sagði hv. síðasti ræðumaður að sjálfstæðismenn hefðu aðallega beitt þeirri röksemd fyrir sig að þeir vildu ekki kjósa rannsóknarnefnd vegna þess að hér væri verið að rannsaka m.a. samskipti þm. við aðila utan þingsins. Ég held að sá maður, sem hafi fyrst og fremst notað þessa röksemd, hafi einmitt verið hv. síðasti ræðumaður sem sagði í útvarpsræðu sinni, hinni síðari þegar þetta mál var til umræðu, þ.e. tillaga Alþýðuflokksmanna o.fl. um að kjósa rannsóknarnefnd, orðrétt, með leyfi forseta:

„Þetta fyrirkomulag“ - og ég skýt því hér inn í að átt er við það fyrirkomulag að ráðherra skipi bankaráðsmenn, en hv. síðasti ræðumaður hafði flutt frv. þess efnis hér á þinginu - „að ríkisstjórn og ráðherrar beri ábyrgð á fyrirtækjum ríkisins eins og ríkisbönkum er forsendan fyrir því að þær (þ.e. rannsóknarnefndirnar) geti virkað vegna þess að við t.d. sjáum nú að þegar við erum að tala um að setja rannsóknarnefnd til þess að rannsaka starfsemi bankaráðs Útvegsbankans og við erum að tala um að setja þingnefnd, þá er þingið á vissan hátt að tala um að rannsaka sjálft sig.“ Þetta er ekki úr ræðu sjálfstæðismanna, þetta er úr ræðu hv. síðasta ræðumanns í útvarpsumræðum sem þjóðin hlustaði á fyrir nokkrum dögum. Það er hann fyrst og fremst sem beitir þeim rökum að það sé forsendan fyrir því að slík rannsóknarnefnd geti virkað, að það sé fyllilega skilið í sundur á milli löggjafarvaldsins og eftirlitsvaldsins og framkvæmdarvaldsins hins vegar. Þetta eru æðisterkar röksemdir en hann verður að taka það fram, hv. síðasti ræðumaður, að það er BJ og þó einkum og sér í lagi hv. 4. landsk. þm., sem hafa beitt þessari röksemd sem er æðisterk, gegn því að kjósa rannsóknarnefnd skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar.