19.12.1985
Neðri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Frsm. 3. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Við 2. umræðu þessa frv. hér í hv. Nd. nú fyrir nokkrum mínútum voru felldar brtt. sem lutu að því að kosin yrði sex manna þingmannanefnd til að fylgjast með rannsókn þeirri á málefnum Hafskips og Útvegsbankans sem gert er ráð fyrir í því frv. sem við erum hér að fjalla um. Það eru ákaflega alvarleg tíðindi að meiri hluti Alþingis skuli ekki treysta sér til að fallast á þessar tillögur. Engu að síður vil ég láta það koma hér fram að ég tel að verulegar lagfæringar hafi orðið á frv. Sú niðurstaða, sem liggur fyrir í því núna, er vissulega skref þó að hún sé ekki nærri nógu stórt skref að okkar mati.

Þegar þetta mál var til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar í dag innti ég skiptaráðandann, Markús Sigurbjörnsson, eftir því hvaða skoðun hann hefði á því ef alþm. yrði gert kleift að fylgjast með rannsókn þessa máls. Skiptaráðandinn upplýsti á fundinum að hann teldi fyrir sitt leyti að ekkert væri á móti því að þingnefndir fylgdust með þeim gögnum sem frá skiptaráðandanum koma jafnóðum og þau falla til.

Ég held að það væri ákaflega mikilvægt ef það lægi fyrir, áður en þetta mál verður að lögum og afgreiðsla þess fer fram nú, hvaða skoðun hæstv. ríkisstj. hefur á þeirri rannsóknarnefnd sem hér er verið að fjalla um, hvort ríkisstj. telur eðlilegt og hvort hún vill beita sér fyrir því að þingnefndir, fastanefndir þingsins, t.d. fjh.og viðskn. eða aðrar slíkar nefndir, fái að fylgjast með gögnum rannsóknarnefndarinnar jafnóðum og þau falla til á sama hátt og skiptaráðandinn í Reykjavík hefur lýst yfir að sé eðlilegt. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh., sem ég hygg að sé húsbóndi þessa frv. sem við erum hér að fjalla um, hvaða skoðun hann hefur á þessu og hvort hann er tilbúinn til að beita sér fyrir því að fastanefndir þingsins, t.d. fjh.- og viðskn., fái aðgang að gögnum rannsóknarnefndarinnar jafnóðum og þau falla til.

Ég vil einnig skýra frá því hér, herra forseti, að á fundi með skiptaráðandanum í dag kom fram að hann taldi að rannsókn þessa stærsta gjaldþrotamáls síðustu ára á Íslandi mundi líklega ekki taka nema 3-5 mánuði eða svo, eins og hann orðaði það.

Það er gríðarlega langur tími að þurfa að bíða í óvissu eftir niðurstöðum þessa máls í 3-5 mánuði, sérstaklega ef það yrði svo ofan á að eftir að skiptaráðandinn hefði lokið sínum störfum, þá fyrst gæti rannsóknarnefndin hafið sín störf. Ég hygg þó að málið sé ekki svona. Ég hygg að eðlilegt sé að rannsóknarnefndin starfi á sama tíma og samhliða skiptaráðandanum. Óhjákvæmilegt er að þingheimur geri sér grein fyrir því að báðir þessir aðilar, bæði skiptaráðandinn og rannsóknarnefndin, hljóta að starfa samtímis og að mörgu leyti hlið við hlið og verkefni þessara aðila munu óhjákvæmilega skarast nokkuð.

Í frv., sem við erum hér að fjalla um, er gert ráð fyrir því að rannsóknarnefndin hafi það hlutverk að fjalla um hvort um hafi verið að ræða óeðlilega viðskiptahætti í samskiptum Útvegsbankans og Hafskips hf. Ljóst er að slík rannsókn þessarar sérstöku rannsóknarnefndar hlýtur einnig að snerta vinnu skiptaráðandans. Það er óhjákvæmilegt.

Fyrir því vek ég athygli á þessu, herra forseti, að ég og fleiri hafa óttast og óttast enn að rannsókn þessa máls geti tekið ótilhlýðilegan og óhæfilega langan tíma. Ég vil leggja á það áherslu fyrir mitt leyti að því aðeins sé gagn að þessari rannsókn að hún taki skjótt af. Það er best fyrir alla aðila málsins.

Ég vil endurtaka spurningu mína til hæstv. viðskrh. um það hvort hann vill beita sér fyrir því að þingnefndir, t.d. fastanefndir þingsins, eins og fjh.- og viðskn. deilda, fái aðgang að gögnum rannsóknarnefndarinnar jafnóðum og þau falla til með svipuðum hætti og skiptaráðandinn í Reykjavík lýsti yfir að ætti við um hans embætti.