24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er vissulega mikið vandamál þegar samgöngur til Íslands stöðvast. Það er vissulega vandamál þegar kjaradeila hefur þróast í þá átt að vinnustöðvun á sér stað. Verkfallsvopnið er vissulega helgur réttur verkalýðshreyfingarinnar og ber þá að huga að prinsipástæðum, prinsipmálum, hvar upphafið á að vera og hvar endirinn.

Ég verð að játa að þegar svona mál kemur á dagskrá og maður, sem er í trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna, þarf að greiða atkvæði, þá hljóta að vera þar nokkrar innantökur og vangaveltur um hvernig með skuli fara.

Ég hlustaði á umræður í hv. Nd. í kvöld. Þar heyrði ég því fleygt að hér væri um sérstakan láglaunahóp að ræða, láglaunahóp sem verið væri að níðast á. Ég gat ekki annað en velt fyrir mér þeirri spurningu: Er það verjandi af manni, sem þurfti að skrifa undir kjarasamninga sem kveða á um að kaup fiskverkunarfólks og iðnverkafólks skuli vera 90,75 kr. á klukkustund, að taka undir sérhverjar kröfur fólks sem er miklu betur launað? Er það rétt af verkalýðshreyfingunni að hlaupa alltaf til hvenær sem einhverjum dettur í hug? Af hverju geta flugfreyjur ekki staðið að kjarasamningum með öðru fólki innan ASÍ? Hvers vegna kljúfa þær sig út úr þeim ramma sem almennt launafólk þarf að sætta sig við? Er það rétt, sem haldið var fram áðan í hv. Nd., að hér sé um sérstakan láglaunahóp að ræða? Skyldi fólk, sem er fjarri íslensku atvinnulífi, gera sér ljóst hvert er kaup og hver eru kjör almenns verkafólks? Er það óeðlilegt að manni verði hugsað til fiskverkunarkonunnar eða saumakonunnar sem þarf að una við 90,75 kr. á klukkustund, þeirra kvenna sem þurfa að vinna alla daga vikunnar í kulda, trekk, vosbúð og við óþægindi fyrir aðeins 16 437 kr. á mánuði? (Iðnrh.: En verkamaður?) Verkakona og verkamaður eru eitt í þessu. Skyldi hin almenna verkakona eða verkamaður geta undanskilið eitthvað og sagt: Þetta eru ekki laun, þetta eru bara hlunnindi? Skyldi sami verkamaður eða verkakona hafa frían vinnufatnað frá hvirfli til ilja? Skyldi þessi sami maður eða kona hafa sérstakan ökutækjastyrk vegna ferða úr og í vinnu? Skyldi það vera algengt að láglaunafólk fái sérstaka dagpeninga utan fastakaups sé það sent utanbæjar til vinnu, þá á ég við dagpeninga sem slaga hátt upp í mánaðarlaunin? Skyldi öllum sem hér eru inni vera það ljóst að hinir raunverulegu láglaunahópar í landinu, eins og t.d. fiskvinnslufólkið, eiga það yfir höfði sér að vera reknir heim hvenær sem vinnuveitanda þóknast, hvenær sem hráefni skortir? Skyldi sá hópur sem nú er rætt um missa atvinnutekjur þegar ekki viðrar til flugs?

Menn muna það frá í sumar að frystihúsin voru full af fiski og það fékkst ekki mannskapur til þess að vinna fiskinn. Menn voru almennt um það sammála að það væri vegna þess að launin væru svo lág, kjörin væru svo slæm. Nú mun það staðreynd að það eru 20 manns um hverja þá stöðu, sem losnar hjá Flugleiðum eða flugfélögunum, sem varðar flugfreyjustörf. Skyldi það ekki kalla á þá hugleiðingu að kjörum þessa fólks sé öðruvísi háttað en fólksins í fiskinum, fólksins sem er á lægstu launum?

Þetta eru vissulega hugleiðingar sem er eðlilegt að menn velti fyrir sér. Það er fjöldi atriða sem skýtur upp í kollinn þegar rætt er um láglaunahópa. Það er hins vegar grátlegt eða öllu heldur sorglegt þegar alþm. þekkja ekki til þess hvar láglaunafólkið er, telja sér trú um að fólk sem býr við mikil hlunnindi og margfalt kaup miðað við fólkið sem vinnur að undirstöðu þjóðfélagsins sé hið raunverulega láglaunafólk.

Í kjaradeilu þessari, kjaradeilu Flugleiða og flugfreyja, er ósamkomulag um flest eða allt. Það er ósamkomulag um mat á kröfunum, það er ósamkomulag um reikningsaðferðir o.fl. o.fl. Ég tek það fram að ég vorkenni Flugleiðum ekki að borga hærra kaup. Flugfreyjur eru vissulega alls góðs maklegar. Þær vinna vel og eru önnum kafnar þegar flogið er. Það er hins vegar rangt að gera sér ekki grein fyrir umhverfinu. Laun eru yfirleitt skammarlega lág. Það er hins vegar mikill launamunur í þjóðfélaginu. Ég fellst ekki á að flugfreyjur séu láglaunahópur. Það eru ósannindi sem ekki eiga að heyrast. Þeir sem halda því fram vita greinilega ekkert um ástandið í launamálum þjóðarinnar.

Ég hef yfirfarið þetta frv. Þar er kveðið á um gerðardóm sem þarf að skila áliti fyrir ákveðinn tíma. Í 2. gr. frv. segir: „Kjaradómur skal við ákvörðun kaups og kjara flugfreyja hafa til viðmiðunar við úrskurð sinn síðastgildandi kjarasamning aðila, almennar kaup- og kjarabreytingar sem orðið hafa síðan hann tók gildi svo og breytingar á launum annarra starfsmanna Flugleiða hf.“ - Ég treysti því vissulega að þessi dómur komist að sanngjarnri niðurstöðu og ég tek það fram að ég vorkenni Flugleiðum ekki að greiða betri laun, en ég tek það líka fram að mín prinsip ná ekki til þeirra hópa sem eru mun betur haldnir en almennt verkafólk í landinu. Ég tel mig vera baráttumann fyrir því að þeim sem verst eru settir verði gert betra til en öðrum, launin verði jöfnuð og þá á þann veg að sem flestir geti haft há laun, en ég get fallist á að deilu sem þessari sé frestað um sinn einmitt vegna þess að frv. er þannig orðað að það er reiknað með að dómurinn taki mið af því sem umhverfið segir til um. Ég ætla því að greiða þessu frv. atkvæði mitt.

Ég segi það aftur að menn geta velt fyrir sér grundvallaratriðum, en menn mega ekki vera fangar þessara grundvallaratriða. Menn eiga að hugsa rökrétt og menn eiga að hugsa á þann veg að þeir séu samkvæmir sjálfum sér. Ég tel mig ekki vera samkvæman sjálfum mér ef ég samþykki hvað sem er, hvað sem fram kemur hverju sinni frá hverjum sem er. Ég tel launamun of mikinn í þjóðfélaginu og ég tel rangt að auka þennan launamun. Ef verkalýðshreyfingin og þeir sem vilja styðja við bakið á henni hlaupa eftir hvers konar kröfuhópum án tillits til efnisatriða fer svo að þeir sem verst eru settir og versta aðstöðuna hafa til að ná fram betri launum sitja eftir. Þá munu hinir grimmu sérhagsmunahópar geta skarað eld að sinni köku. Hinir, hið almenna verkafólk, verða eftir.

Það eru vissulega teikn á lofti um að þessi þróun gangi hraðar og hraðar, að hin almennu stéttasamtök slitni í sundur vegna gauragangs þeirra sem hafa aðstöðuna. Heildarsamstarf um baráttumál og betri lífskjör er á undanhaldi. Það stefnir allt í það sem einhver sagði einhvern tíma: Það hugsa allir um sig nema ég. Ég hugsa bara um mig. - Ég tel að hlusti verkalýðshreyfingin á hvað sem er og verði á uppboðsmarkaði þeirra sem besta hafa aðstöðuna og sannanlega eru miklu betur settir en aðrir, þá sé hið gamla „solidaritet“, samstaða, rofið og þá sé heildarhagsmununum ekki borgið. Þetta er vandi sem flæðir yfir verkalýðshreyfingu Vestur-Evrópu og ég tel ástæðu til að standa gegn.

Ég hef gert hér samanburð á því fólki sem ég umgengst mikið, láglaunafólkinu í landinu sem býr við mjög þröngan kost, og tel að mín prinsip nái til þess fólks, en get fellt mig við það, þegar erfið deila er komin á það stig að samgöngur til landsins eru stöðvaðar, að aðrar aðferðir verði viðhafðar. Hér er um frestun að ræða, kjaradóm, og ég er þeirrar skoðunar reyndar að flugfreyjur muni koma betur út úr þessari leið en að standa í löngu verkfalli. Ég held að það sé skynsamlegri leið við þessar aðstæður þar sem ljóst er að deiluaðilar hafa haldið illa á málum og hleypt þeim það langt að í óefni er komið.

Ég endurtek: Nauðsyn brýtur lög.