19.12.1985
Neðri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef áður lýst því yfir að lögum samkvæmt er þetta mál í höndum skiptaráðanda og allir vita með hvaða hætti það hefur farið af stað. Það hefur farið af stað með starfi tveggja skiptaráðenda og þriggja svokallaðra bústjóra sem vinna að rannsókn þessa máls samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti.

Meiri hluti Alþingis hefur tekið þá stefnu með samþykkt þessa frv. í Ed. og nú við 2. umræðu þessa máls hér að þess verði farið á leit við Hæstarétt að hann tilnefni þrjá menn í rannsóknarnefnd. Sú rannsóknarnefnd mun væntanlega taka til starfa fljótlega eftir að hún er skipuð og hafa samráð um samstarf við skiptaráðendur þannig að það eigi ekki að tefja fyrir rannsókn málsins. Vænti ég þess að um það náist full samstaða.

Ég hef áður lýst því yfir fyrir hönd ríkisstj. að ekkert verði gert í þeim efnum að fela hvorki eitt né annað, heldur verði lögð á það höfuðáhersla að allt komi fram. Þegar rannsóknarnefndin hefur lokið störfum mun hún skila skýrslu, eins og segir í þessu frv. og margoft er yfirlýst, þar sem málið verður skýrt fyrir Alþingi. En ég tel að ekki sé ástæða til að jafnhliða þessum tveimur aðgerðum, bæði starfi skiptaráðanda og sérstakrar nefndar, verði auk þess þingnefnd í gangi sem taki við skjölum jafnóðum frá rannsóknarnefndinni. Það verður að bíða þangað til skýrsla liggur fyrir eins og margoft hefur komið fram.

Meiri hluti Alþingis hefur tekið þessa stefnu, hefur talið hana hyggilegri og fljótvirkari. En við ráðum ekki við það að þessi mál hljóta að taka langan tíma þar sem hér er um viðamikið mál að ræða sem þarf að skoða í allmörgum löndum. Allt hlýtur það að taka tíma. Höfuðatriðið er það að málið sé vandlega rannsakað og að lokum sé ekki legið á neinum þeim upplýsingum sem fram kunna að koma.