19.12.1985
Neðri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Frsm. 2. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það fer ekki mjög mikið fyrir hv. Alþingi í ýmsum málaflokkum núna. Okkur er öllum ferskt í minni hvernig kvótamálið hefur verið. Þar hefur þingið afar lítið komið nærri og þegar best lætur hefur það komið inn klásúlum í lögin um að það fái að vera nokkurs konar ráðgjafi ráðherra í málum sem þessu viðkemur. Í kvótamálum hefur því þingið redúserast niður á einhvers konar ráðgjafastatus.

Sama virðist mér koma fram í þessu máli hér. Fyrst voru uppi tillögur um það að skipaðar yrðu rannsóknarnefndir þingsins og þingið tæki myndarlega á því, af skörungsskap, að komast til botns í þessu máli sem varðar einhverjar mikilvægustu stofnanir þjóðarinnar, þ.e. bankana og peningakerfið. Ekki var orðið við því.

Síðan voru bornar hérna fram tillögur um að búin yrðu til nokkurs konar gægjugöt fyrir þingmenn. Fram komu tvær tillögur við umræðuna hérna í kvöld um að kosnar yrðu nefndir þm. sem fengju að kíkja á plöggin. Ég harma út af fyrir sig ekki að þær tillögur skuli hafa verið felldar vegna þess að ég álít það alls ekki þinginu samboðið að komast niður á þann status að þurfa að kíkja í gegnum skráargöt.

Hins vegar er augljóst að enginn vill að þingið sé neitt að skipta sér af þessu. Síðast kemur hér upp hæstv. viðskrh. og svarar spurningum um það hvort fjh.- og viðskn. þingsins, sem bankarnir þó heyra undir, verði kannske leyft að fylgjast með málinu svolítið af því að skiptaráðandi taldi í dag að það yrði málinu svo sem ekki til skaða ef þm. færu ekkert að tala um það út í frá. En það er náttúrlega alveg óþarfi að mati ráðherra, auðvitað eiga þm. ekkert að vera að fylgjast með því heldur.

Þannig er sem sagt komin sú niðurstaða að þingið fær hvorki að taka málin í sínar eigin hendur né fær það að kíkja á skráargötin né á það að fá nokkrar upplýsingar um málið fyrr en skýrslan liggur endanlega í höndum ráðherra.

Af því að menn tala gjarnan um virðingu þingsins ætla ég að rifja upp að við ungir þm. vorum minntir á að ganga hér prúðlega til fara og vera með bindi og sýna Alþingi ýmsan sóma. En virðing Alþingis er ekki spurning um það hvort menn eru í Kórónafötum. Virðing Alþingis hlýtur að vera spurning um allt önnur mál og mér sýnist hún vera orðin býsna lítil.