19.12.1985
Neðri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

194. mál, nefnd til að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf.

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er erfitt að bindast orða þegar talsmenn ríkisstj. koma hér endurtekið í ræðustól og tala með þessum ólíkindum um nauðsyn þess að þingið komi hvergi nálægt málinu. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki hvers vegna það er svona stórhættulegt og skaðlegt að Alþingi komi nokkurs staðar nálægt þessari rannsókn, eins og allur framgangur hennar hljóti að rústast við það eitt að þm. komi nokkurs staðar nærri.

Svo talar hv. 2. þm. Norðurl. v. um að láta „þar til dómbæra menn“ um málið. Er hann að gefa í skyn að Alþingi sé ekki dómbært og það verði að fá einhverja sérstaka menn utan úr bæ vegna þess að þeir séu sérstaklega dómbærir öðrum fremur? Ég á því ekki að venjast að menn tali með þessum hætti hér um þátt æðstu valdastofnunar þjóðarinnar í málum.

Það hvarflar að manni, herra forseti, að það hljóti að vera nauðsynlegt fyrir rannsókn Hafskipsmálsins að senda þingið bara heim. Eigum við ekki að slíta þinginu, hæstv. ráðherra og hv. 2. þm. Norðurl. v., til þess að það sé alls ekki til staðar allan tímann meðan rannsóknin fer fram? Ég held að það hljóti að verða næsta skref sem hæstv. ríkisstj. ákveður að taka til að tryggja alveg örugga rannsókn málsins.

Mér finnst furðulegt að hlusta á það hér að það geti tafið og skaðað rannsóknina að fastanefndir þingsins fái að fylgjast með hvernig henni miðar. Og hvað segir svo hv. þm. Páll Pétursson? Ef þd. eða þinginu sýnist svo mánuðum eða jafnvel árum síðar að rannsóknin hafi ekki verið nógu ítarleg og góð getur hún tekið málið upp að nýju og haldið henni áfram eða látið fara ofan í þetta aftur, segir hv. þm. Er þá ekki eðlilegra, hv. þm., að fylgjast með því hvernig rannsókninni miðar, hvernig hún gengur? Þingið getur þá á hvaða tíma sem það kýs gripið inn í málið.

Ég hefði haldið að það væri alveg lágmarksskynsemi af hæstv. ríkisstj. að játa því og beita sér fyrir því að þinginu yrði með einhverjum hætti, ekki endilega daglega en með einhverju reglubundnu millibili, gerð grein fyrir því í gegnum nefndir þar sem allir þingflokkar eiga aðild, eins og fjh.- og viðskn., hvernig rannsókninni miði og þar yrðu lagðar fram helstu upplýsingar um stöðu málsins.

Ég reyni af mikilli samviskusemi og vinsemd að skilja hæstv. ríkisstj. en það er mér illskiljanlegt hvers vegna hún tekur svona á þessu máli. Það er mjög óeðlilegt, að mínu viti, þingræðisins vegna og það er pólitískt svo óskaplega heimskulegt að þó að þessi ríkisstj. hafi oft fengið lágar einkunnir á því sviði á ég enn erfitt með að trúa því upp á hana að hún skuli bjóða heim tortryggni og andúð með þessum hætti.