24.10.1985
Efri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vildi ég rétt aðeins taka upp hanskann fyrir flugfreyjur í nokkrum atriðum sem síðasti ræðumaður vék að.

Í fyrsta lagi spurði hann hvort ástæða væri til að flugfreyjur hefðu bílastyrk þegar ýmsar aðrar stéttir landsins hefðu það ekki, svo sem eins og verkafólk og aðrir sem ynnu t.d. í fiskvinnslu. Þetta atriði kom fram. Það er svo með vinnutíma flugfreyja að vinna hefst oft og tíðum og endar oft og tíðum þegar almenningsvagnar eru ekki í gangi. Það er einnig andstætt vilja Flugleiða að flugfreyjur ferðist með almenningsvögnum. Það er andstætt vilja Flugleiðamanna að flugfreyjur komi fram í búningi félagsins annars staðar en í vélum félagsins og á þeirra vegum, verslunum og hvar sem er. Þetta skýrir kannske fyrst og fremst þann bifreiðastyrk sem flugfreyjur búa við.

Annað atriði, sem hv. þm. kom að, var varðandi dagpeninga sem mætti reikna til launa. Þarna væri hægt að fara út í langt mál. En í mörgum tilvikum má færa sönnur fyrir því að flugfreyjur þurfa að reka heimili með tvöföldum rekstrarkostnaði, þ.e. þær hafa sitt heimili hér heima á Íslandi, en þær þurfa líka að sinna daglegum þörfum erlendis á sama tíma. Allir vita hvernig slíkur kostnaður eykst þegar ekki er hægt að vinna hlutina á einum stað.

Það kom einnig fram sú spurning hjá hv. þm. hverju sætti að ávallt biðu a.m.k. 20 aðilar sem vildu ganga inn í flugfreyjustarf hjá Flugleiðum þegar eitt losnaði. Ég held að þarna sé verið að tala um gamla rómantík, gamla ævintýraþrá. Það var forðum þannig að það voru löng stopp hjá flugliðum Flugleiða, og Loftleiða á sinni tíð, erlendis þannig að fólk gat notið þess að fara jafnvel í einhvers konar frí á milli ferða, en sú tíð er löngu liðin. Nú er þetta miklu tíðari og strangari vinna og það er ekki hægt að reikna með því lengur, eins og sumir halda fram, að „sjarmi“ flugfreyjustarfsins var sá að flugvélin flaug eftir því hvað flugfreyjan deplaði hratt augunum.

Í þessu máli er það kjarni málsins að engin tillaga, sem aðilar gátu sætt sig við á nokkurn hátt, lá fyrir. Ég er sannfærður um að sú leið sem samgrh. bauð upp á hefði orðið til farsældar í þessu máli, ekki hvað síst fyrir flugfreyjur, vegna þess að á þeim grunni hefði verið hægt að taka upp þann þátt sem þær leggja höfuðáherslu á í sínu máli og það er að finna grundvöll fyrir vaktaálagi og greiðslum þess vegna.

Það má nefna eitt stutt dæmi. Flugfreyja sem á að fara í Ameríkuflug þarf að byrja að undirbúa sig að morgni dags. Hún þarf að vera mætt milli kl. 2 og 3 á Hótel Loftleiðum. Hún fer í loftið með sinni flugvél um kl. 5. Hún er komin til New York að staðartíma milli kl. 7 og 8, á hótel liðlega klukkutíma síðar. Þá er klukkan yfir miðnætti að íslenskum tíma. Nóttin fer í hvíld. Næsti dagur fer í undirbúning fyrir heimflugið sem er síðla dags. Allir þekkja hver áhrif tímamismunurinn hefur á fólk. Þarna rennur því saman í rauninni einn órofa vinnutími.

Það er margt sem skarast í þessum efnum sem er ástæða til þess að benda á. Reglan hefur orðið sú að eftir Ameríkuflug hafa flugfreyjur tveggja nátta viðdvöl heima hjá sér, en nú koma til einnig þannig reglur að nú er Ameríkuflug flogið heim í gegnum Lúxemborg. Þar dvelur flugfreyjan eina nótt og þar með telst það ekki Ameríkuflug. Þarna skarast margir hlutir og skekkjast. Það er enginn greinarmunur gerður á því hvort flugfreyjan vinnur á virkum mánudegi eða aðfangadegi jóla, páskadegi eða hverjum öðrum degi, hvort sem er að nóttu eða degi, og það er auðvitað úrelt að ekki sé tekið tillit til þess að þessi starfsstétt ætti að fá vaktaálag. Þetta er mergurinn í þeirra kröfum og þeirra kröfugerð sem hefði kannske helst verið hægt að finna flöt á með þeirri leið sem samgrh. bauð upp á. Þær höfnuðu þeirri leið, því miður að mínu mati. Töldu sjálfar að æskilegra væri að fá yfir sig kjaradóm. Það verður að ganga fyrir sig á þann hátt eins og nú horfir.

En ég vil jafnframt vekja athygli á því að að mínu mati hefur starf flugfreyjunnar um langa hríð verið vanmetið í íslenskum flugrekstri vegna þess að flugfreyjurnar eru helstu sölumenn Flugleiða. Það eru þær sem skapa það hlýlega og góða andrúmsloft sem er um borð í íslenskum flugvélum og það eru þær sem veita þá þjónustu sem veldur því að fólk flýgur aftur og aftur með flugvélum Flugleiða þótt þær séu ekki eins glæsilega búnar og margar aðrar flugvélar sem sömu farþegar eiga kost á. Það eru ekki aðeins hagstæð fargjöld sem ráða þarna. Það er einnig sérstaklega góð þjónusta íslenskra flugfreyja. (Iðnrh.: Er hægt að fljúga með nokkrum af þessum vélum?) Það er hægt að fljúga með mörgum flugfélögum yfir hafið, já. (Iðnrh.: Frá Íslandi?) Frá Ameríku til Evrópu. Það ætti nú hæstv. iðnrh. að vita.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum tók ég viðtöl við 40 farþega í Flugleiðavélum á báðum leiðum vestur um haf og það kom fram hjá þeim flestum að þeir voru fastir viðskiptavinir Flugleiða, m.a. vegna þess að þeim líkaði sérstaklega vel sú þjónusta og sú lipurð sem íslenskar flugfreyjur sýndu. Þetta ætti auðvitað félag eins og Flugleiðir að meta til fulls og koma til móts við kröfur flugfreyja eins og frekast er unnt. Mér þótti ástæða til að þetta kæmi hér fram.

Það er ekki ástæða til að teygja umræður lengi. Eftir því sem flugfreyjur hafa sagt síðustu daga í persónulegum samtölum vildu þær fremur fá yfir sig kjaradóm en reyna til þrautar þá leið sem samgrh. bauð upp á og því mun ég styðja þetta frv.