20.12.1985
Efri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Eins og ráð var fyrir gert þegar frv. þetta fór héðan úr deildinni eftir 3. umr. er það komið hingað á ný með nokkrum breytingum, kannske veigaminni en búast hefði mátt við þar sem margir menn voru kallaðir til skrafs og ráðagerða í Nd., en brtt. eru mjög einfaldar og sárafáar. Þar er eiginlega nánast um að ræða breyttar verðlagsforsendur vegna afgreiðslu fjárlaga og svo eru skuldbreytingar til hitaveitna.

Í stuttu máli hækka innlendar lántökur ríkissjóðs um 250 millj. kr. og erlendar lántökur um 326 millj. kr. Hér er um að ræða áætlaðar verðlagshækkanir. Í fyrsta lagi reyndust forsendur fjárlaganna miðað við áramótaverðlag vera of lágar, laun höfðu hækkað um þrem prósentum meira en gert hafði verið ráð fyrir og rekstrargjöld um 5-5,5% meira. Þá er gert ráð fyrir um 10% meðalhækkun verðlags á næsta ári. Tölur þessar eru því upphækkaðar um 15%.

Sama á raunar við um aðrar tölur sem fram koma á brtt. Þar er fyrst og fremst um að ræða fyrirtæki með eignaraðild ríkisins, þ.e. Landsvirkjun. Þar er hækkunin 70 millj. kr., en það eru eins og áður sagði breyttar verðlagsforsendur og breytt gengi sem því valda.

Þá eru framlög til húsbyggingarsjóða. Þar er miðað við að úr lífeyrissjóðum fáist 38% og ráðstöfunarféð verði nokkru meira vegna breyttra verðlagsforsendna líka þannig að óhætt sé að hækka þessa upphæð um 100 milljónir.

Síðan eru ýmsar lánastofnanir. Það eru allt saman verðlagsbreytingar og fer allt í gegnum Framkvæmdasjóð, þ.e. annars vegar að innlend lán hækki um 40 milljónir og erlend um sömu upphæð.

Því næst eru ýmis atvinnufyrirtæki. Þar er líka miðað við annað verðlag og gengi. Sú upphæð er hækkuð um 415 millj. kr.

Þessar breytingar koma allar fram í brtt. á þskj. 361. Þar að auki er rétt að geta þess að Lánasjóður ísl. námsmanna hefur hækkað úr 1100 millj. kr. í 1265 millj. kr. Það er einnig vegna verðlagsuppfærslu.

Fellt er út skerðingarákvæði varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð þannig að hann fær framlög samkvæmt lögunum um þann sjóð.

Þá er felld út ein grein sem fyrir mistök í miklum önnum kom inn við 3. umr. Það var í rauninni tvítekið það ákvæði sem um Iðnlánasjóð fjallaði.

Þá er framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það er hækkað úr 735 millj. kr. í 805 millj. kr. Það er einnig verðlagsuppfærsla.

Þá er nýtt skerðingarákvæði um að fella niður framlag ríkissjóðs til forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum á árinu 1986, en það verði greitt af Stofnlánadeild landbúnaðarins. Sérstök brtt. er raunar um stofnlánadeildina, sem ekki varðar þetta beint, um að framlag þar hækki úr 36,7 milljónum í 41 580 000, og það er einnig verðlagsuppfærsla.

Þá eru loks tvær nýjar greinar sem heimila ríkisábyrgð vegna skuldbreytinga hjá hitaveitum. Annars vegar er þar um að ræða Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, 65 millj. kr., og hins vegar ríkisábyrgð á innlendu láni hjá Fjarhitun Vestmannaeyja, 200 millj. kr.

Hygg ég þá að ég hafi gert grein fyrir þeim brtt. sem fram hafa komið. Þær eru eins og ég sagði kannske minni en búist var við. Ef við drögum þetta saman má segja að í fyrsta lagi sé hér um hreina staðfestingu á afgreiðslu fjvn. á fjárlögum að ræða. Í öðru lagi eru breytingar á verðlags- og gengisforsendum fjárlaga og endurskoðaðrar þjóðhagsáætlunar fyrir árið 1986 sem endurspeglast einnig í lánsfjárlögum. Og í þriðja lagi eru teknar inn tvær heimildargreinar til ríkisábyrgða vegna skuldbreytinga hitaveitna.

Þær breytingar sem þannig koma fram fela það í sér að 1241 millj. kr. hækkun verður á heildarlántökum. Þar af eru um 390 millj. kr. af innlendu fé og 851 millj. kr. af erlendu lánsfé. Heildarlántökur mundu því nema, að þessu frv. samþykktu með áorðnum breytingum, 12 milljörðum 487 millj. kr. Ráðgert er að afla 4 milljarða 201 millj. kr. innanlands og 8 milljarða 777 millj. kr. með erlendum lántökum.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd.