20.12.1985
Efri deild: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

2. mál, lánsfjárlög 1986

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. gaf sínar skýringar á þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á gjaldi bænda til stofnlánadeildarinnar. Ætla ég ekki - einkum og sér í lagi þar sem tíminn er að renna frá okkur - að fjölyrða um það mál. Ég hygg þó að það megi færa mjög glögg og greinileg rök fyrir því að bændur séu að skila þessum félagsmálapakka einfaldlega vegna þess að bersýnilegt er að þeir munu taka á sig að greiða kostnað sem áður hefur verið greiddur af ríkinu.

En ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að lokum: Er það ekki rétt skilið að í kjölfar þessara breytinga, sem hann hefur nú boðað og tengjast þessu máli, muni vextir hjá stofnlánadeildinni bersýnilega hækka og óhjákvæmilegt verði að hækka þá einmitt vegna þessara breytinga?