20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

Um þingsköp

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Um það atriði, sem hv. þm. spurði um, eru að sjálfsögðu ekki til neinar upplýsingar í reikningum ríkisstj. Sá starfsmaður, sem fyllti þetta út, leitaðist við að afla sér upplýsinga frá umboðum bifreiðanna um hvað viðkomandi bifreið hefði kostað við endurnýjunarverð á þessum árum. Hann gat ekki fengið það á þeim tíma sem hann hafði til að svara fsp. Hins vegar er auðvelt fyrir hvern og einn að spyrja umboðin um endurnýjunarverð bifreiðanna á viðkomandi árum. Ef hv. þm. vill að við önnumst það er út af fyrir sig sjálfsagt að gera það.

Spurningin hljóðar upp á það hver útgjöldin hefðu verið ef ákveðin reglugerð hefði verið í gildi á þessum tíma. Þetta byggir á endurnýjunarverði bifreiðanna. Til að hafa endurnýjunarverð bifreiðanna þarf að vita nákvæmlega hvernig viðkomandi bifreiðar voru útbúnar, t.d. hvaða tæki voru í þeim o.fl. Endurnýjunarverðið fer eftir því. Um þetta var ekki hægt að fá upplýsingar frá umboðunum á þessum skamma tíma.