20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

1. mál, fjárlög 1986

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur nú lokið störfum við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 1986. Í upphafi þessarar umræðu vil ég enn flytja samstarfsmönnum mínum í fjvn. þakkir fyrir mikil og tímafrek störf, störf sem við núverandi kringumstæður eru unnin, sem stundum áður, undir miklu álagi og eru ekki sérstaklega líkleg til vinsælda. Ég vil einnig ítreka þakkir mínar til starfsmanns nefndarinnar, Jóns Rúnars Pálssonar, og til starfsfólks Fjárlaga- og hagsýslustofnunar fyrir ómetanlega aðstoð sem kostað hefur mikla vinnu. Þá vil ég einnig leyfa mér að flytja hæstv. fjmrh., bæði núverandi og fyrrverandi, þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.

Þegar fjárlagafrv. var lagt fram lýsti hæstv. ríkisstj. þeim markmiðum sínum að draga úr þenslu í þjóðarbúskapnum og sporna gegn viðskiptahalla og verðbólgu. Frv. bar þess merki að því var ætlað að þjóna þessum markmiðum. Í fyrsta lagi var erlendum lántökum stillt í hóf, í öðru lagi var frv. með rekstrarjöfnuði og í þriðja lagi var hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu áætlað ívið lægra en ætla má að það verði á þessu ári.

Öllum má vera ljóst hve mikilvæg þessi markmið ríkisstj. eru. Eftir langvarandi viðskiptahalla, sem staðið hefur samfleytt í 14 ár að einu ári undanskildu, hafa skuldir okkar erlendis orðið sífellt alvarlegri og greiðslubyrði af erlendum lánum að sama skapi þungbær. Árið 1984 var greiðslubyrði vegna erlendra lána orðin 24% eða sem svaraði því að nærri fjórða hver króna af útflutningstekjum okkar gengi til að greiða vexti og afborganir af lánum.

Rétt er að vekja athygli á því að á þessu ári er talið að þetta greiðsluhlutfall hafi heldur lækkað og sé nú 21%. Eigi að síður verður engum marktækum árangri náð í þessum þætti þjóðarbúskaparins meðan við búum við viðskiptahalla sem er með líkum hætti og verið hefur á síðari árum. Þessum viðskiptahalla og skuldasöfnun okkar erlendis verður á hinn bóginn ekki eytt án þess að annað tveggja komi til, stóraukin þjóðarframleiðsla og útflutningstekjur eða verulega aukinn sparnaður í þjóðarbúskapnum.

Ríkisfjármálin eru að sjálfsögðu veigamikill þáttur í þessu dæmi. Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að hann telji ekki grundvöll fyrir því að þrengja meira en orðið er að kaupmætti launafólks í landinu. Því beri að ná auknum sparnaði í útgjöldum hins opinbera. Þetta er sagt jafnt fyrir það þótt áætlanir sýni að einkaneysla þjóðarinnar hafi á yfirstandandi ári vaxið um allt að 4,8%.

Vegna veigamikilla breytinga, sem urðu á gjaldeyrismörkuðum helstu viðskiptaþjóða okkar á liðnu hausti, var talið nauðsynlegt að taka fjárlagafrv. til endurmats og renna þannig styrkari stoðum undir þau markmið ríkisstj. sem ég hef hér að framan lýst. Hæstv. fjmrh. kynnti niðurstöður þessa endurmats við 1. umr. þessa máls og voru brtt. til að framfylgja þeim niðurstöðum sumpart fluttar af meiri hl. fjvn. við 2. umr. fjárlaga en sumpart eru þær fluttar við þessa umræðu.

Í öllu starfi sínu hefur meiri hl. fjvn. leitast við að halda svo á málum að þau markmið, sem kynnt voru með framlagningu þessa frv., raskist ekki, raunar frekar að þau styrkist en veikist. Rétt er að taka fram að minni hl. nefndarinnar hefur ekki gert tilraunir til að bregða fæti fyrir fyrirætlanir okkar í meiri hlutanum hvað þetta snertir.

Vegna þess hve haldið hefur verið fast á málum af hálfu okkar í meiri hl. nefndarinnar til að halda aftur af aukningu útgjalda er mér fyllilega ljóst að margir þeir, sem gengið hafa á fund nefndarinnar eða sent hafa henni erindi og borið upp sín mál við nefndina, hafa gengið bónleiðir til búðar. Er það iðulega þannig að sú niðurstaða verður ekki sársaukalaus.

Þótt vitaskuld megi deila um afgreiðslu nefndarinnar eða meiri hl. nefndar á einstökum málum er ég sannfærður um að sú heildarstefna var rétt og óhjákvæmileg að halda fast á málum.

Eins og fram kom í ræðu minni við 2. umr. þessa máls felur afgreiðsla fjvn. í sér að um verulegan samdrátt fjárfestingar er að ræða samkvæmt því fjárlagafrv. sem nú er komið til lokaafgreiðslu. Þegar frv. til fjárlaga og lánsfjárlaga liggja nú fyrir hér á Alþingi á lokastigi og samkvæmt því, sem vitað er um fjárfestingaráform sveitarfélaga, er reiknað með að opinber fjárfesting í landinu dragist saman á næsta ári um allt að 13,6% og að fjárfesting landsmanna í heild dragist saman um allt að 4,2%. Hér er um mjög mikinn samdrátt fjárfestingar að ræða. Hún er nú talin nema sem svarar 21,6% af þjóðarframleiðslu en hefur oft verið um og yfir 30%.

Ég vil gjarnan ítreka þá skoðun mína að ég tel nauðsynlegt að leita leiða til að draga úr umfangi ríkisbúskaparins og ná fram kerfisbreytingum til sparnaðar í ríkisrekstrinum til að gefa fjárfestingu á vegum hins opinbera aukið svigrúm að nýju. Hjá því verður ekki komist, að mínum dómi, að ná slíkum breytingum fram fyrir fjárlagaafgreiðslu að ári liðnu.

Fyrir 3. umr. fjárlaga komu forustumenn Þjóðhagsstofnunar eftir venju á fund fjvn. og kynntu nefndinni ýmsar upplýsingar um þjóðhagsspá fyrir árið 1985, sem nú er senn liðið, og einnig upplýsingar er varða þjóðhagsspá fyrir árið 1986. Jafnframt kynntu þeir eftir venju nýtt endurmat á tekjuöflun ríkisins fyrir næsta ár sem byggt er á hinum nýju spám um þjóðhagsforsendur.

Brtt. meiri hl. fjvn. um tekjuhlið frv. eru byggðar á þessum útreikningum Þjóðhagsstofnunar. Í samræmi við þetta eru niðurstöðutölur á tekjuhlið fjárlagafrv. nú 37 853,7 millj. kr., en voru þegar frv. var lagt fram samtals 33 539,5 millj. kr. og hafa því hækkað um rúma 4,3 milljarða kr. svo sem fram kemur í brtt. meiri hl. nefndarinnar. Inn í þær niðurstöður eru þá komnar þær breytingar á skattkerfi, sem hæstv. fjmrh. kynnti fyrir 2. umr. fjárlaga samkvæmt ákvörðun ríkisstj., miðað við það sem fram kemur í fjárlagafrv. Þessi hækkun á tekjuhlið fjárlagafrv. kemur því nokkuð misjafnlega niður eftir einstökum liðum.

Eins og fyrr eru sölugjöld langsamlega veigamesti tekjupóstur ríkisins samkvæmt þessari áætlun, eða um 14,3 milljarðar kr., gjöld af innflutningi 5,4 milljarðar og tekjuskattar nálega 3,5 milljarðar kr. Miðað við þessa niðurstöðu á tekjuhlið frv. munu skatttekjur ríkisins á næsta ári nema um 28% af vergri þjóðarframleiðslu. Er þá miðað við að þjóðarframleiðslan verði 136 milljarðar kr. og einnig er miðað við hina nýju uppsetningu fjárlaga. Samkvæmt þessari nýju uppsetningu lækka skatttekjur ríkisins á næsta ári miðað við það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. eftir sambærilegri uppsetningu um 0,7% af þjóðarframleiðslu.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun mun skattbyrði einstaklinga sem hlutfall af heildartekjum á næsta ári verða svipuð og hún hefur verið á þessu ári, hvort heldur sem miðað er við skatta til ríkisins eða skatta til ríkis og sveitarfélaga sameiginlega. Á hinn bóginn hefur skattbyrði einstaklinga af tekjum lækkað verulega, t.a.m. frá árinu 1982 til ársins 1986. Þannig hefur skattbyrði einstaklinga miðað við fyrra ár til ríkis og sveitarfélaga lækkað úr 20,3% af heildartekjum árið 1982 í 15,5% árið 1986 eða nærri því um 5 prósentustig, en um 0,9 prósentustig ef miðað er við greiðsluár.

Það sem hér er rætt um skattbyrði og beina skatta byggist á því að skattvísitala verði ákveðin 136 stig miðað við 100 á þessu ári svo sem flutt er um sérstök brtt. af hálfu meiri hl. nefndarinnar.

Verði tillögur fjvn., sem fluttar eru við þessa umræðu um aukin útgjöld fjárlagafrv., svo og tillögur meiri hl. nefndarinnar, tillögur samvinnunefndar samgöngumála um flóabáta og vetrarsamgöngur og tillögur menntamálanefnda um heiðurslaun listamanna allar samþykktar munu útgjöld frv. aukast frá 2. umr. um 4361 millj, kr. og verða samtals 37 670,7 millj. kr. Tekjuafgangur á rekstraryfirliti fjárlaga mundi því verða að þessum tillögum öllum samþykktum 183 millj. kr.

Meginhluti þessarar hækkunar á gjaldabálki frv. er til kominn vegna hækkunar á verðlags- og launaforsendum fjárlaganna. Í brtt. meiri hl. nefndarinnar á þskj. 368 kemur fram á hvern máta þessi uppfærsla er reiknuð. Þar kemur fram að launaforsendur fjárlagafrv. við 3. umr. eru reiknaðar upp um 12,2% með undantekningum sem skýrðar eru á því þskj. Þessi 12,2% hækkun er fundin þannig að fyrst er reiknuð 4% hækkun launa frá áætlun frv. til þess sem orðið hefur í raun til ársloka 1985. Síðan er samkvæmt ákvörðun ríkisstj. reiknuð 10% hækkun launa frá árslokum 1985 til þess verðlags sem ákveðið er í fjárlagafrv. Í þriðja lagi er tekið inn í þetta dæmi lækkun um 2% samkvæmt sparnaðaráætlun ríkisstj. sem kynnt var við 1. umr. fjárlaga.

Liðurinn Önnur gjöld án eignakaupa í almennum rekstri stofnana hækkar hins vegar um 15,4%. Þar er gert ráð fyrir að verðlag frá áætlun fjárlagafrv. til ársloka hafi hækkað um 51/2%, en til viðbótar er tekið inn sem verðlagsforsendur fjárlaga fyrir næsta ár samkvæmt ákvörðun ríkisstj. 111/2%. Síðan eru dregin frá 2% til lækkunar á rekstrarliðum ríkisins til samræmis við ákvarðanir ríkisstj. um sparnað í launum og rekstri sem samtals er um 250 millj. kr.

Innflutningsverðlag er talið hækka nokkru meira en sem þessu nemur og er talið verða nokkuð breytilegt eftir einstökum gjaldmiðlum.

Eins og fyrr sagði er hækkun á gjaldabálki frv., samkvæmt þeim tillögum, sem hér liggja fyrir frá fjvn. og meiri hl. fjvn. og samvinnunefndum Alþingis, samtals 4361 millj. kr. Af þessu er hrein uppfærsla verðlags og launa liðlega 3,9 milljarðar kr. Frá því dragast nokkrar lækkunartillögur meiri hl. nefndarinnar, þannig að heildarhækkun samkvæmt brtt. meiri hl. nefndarinnar kostar 3864 millj. kr. Í öðru lagi eru brtt. frá fjvn. sem samtals fela í sér hækkun útgjalda er nemur 476,9 millj. kr. Í þriðja lagi er hækkun útgjalda samkvæmt till. frá samvinnunefnd samgöngumála um 16,9 millj. kr. og tillaga frá menntamálanefndum Alþingis um rúmlega 1 millj. kr.

Ég tel afar mikilvægt að það yfirlit, sem ég hef hér rakið um tekjur og gjöld ríkissjóðs samkvæmt þeim till. sem fyrir liggja frá fjvn. og meiri hl. fjvn., sýnir niðurstöðu á fjárlögum fyrir næsta ár með rekstrarafgangi, sem fyrr segir, upp á 183 millj. kr.

Í yfirliti yfir lánahreyfingar og lánsfjárþörf ríkissjóðs fyrir næsta ár kemur einnig fram að gert er ráð fyrir því að unnt sé að lækka erlendar lántökur ríkissjóðs frá því sem gert var ráð fyrir þegar fjárlagafrv. var lagt fram um 174 millj. kr. og ganga jafnframt frá fjárlögum fyrir næsta ár með greiðslujöfnuði.

Ég mun hér á eftir gera grein fyrir nokkrum hinna veigamestu breytinga sem gerðar eru tillögur um af hálfu fjvn. og varða A-hluta fjárlagafrv.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að 15 sjúkrahús færist af sjúkratryggingum yfir á föst fjárlög. Meðal þessara sjúkrahúsa er Borgarspítalinn í Reykjavík. Í tillögum nefndarinnar er lagt til að 13 af þessum sjúkrahúsum færist til baka yfir á sjúkratryggingar og daggjaldakerfi. Þessar tilfæringar stafa af því að talið er að meiri tíma þurfi til undirbúnings til að samræma helstu rekstrarliði þessara sjúkrahúsa á þann máta að það geti myndað eðlilegan grundvöll fyrir því að þau verði færð á föst fjárlög. Að þessu mun verða unnið á næsta ári. Því verða það einungis tvö sjúkrahús sem við þessa fjárlagaafgreiðslu færast af daggjaldakerfi sjúkratrygginga á föst fjárlög, þ.e. sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum og Sólvangur í Hafnarfirði.

Lagt er til að hækkun á fjárframlagi til ríkisspítala verði 60,7 millj. kr. og er þá miðað við þann verðlagsgrunn sem er í fjárlagafrv. Í þessum till. er gert ráð fyrir að til rekstrargjalda vegna aukins umfangs verði veittar 36,5 millj. kr. Í aukin launagjöld verði veittar 2,8 millj. kr. sem skýrist þannig að tvær nýjar stöður verði heimilaðar við Kristnesspítala, en við Landspítalann verði heimiluð ein staða svæfingarlæknis, 50% staða hjartasérfræðings á barnadeild og 25% staða lyflæknis við gervinýra, einnig á Landspítala.

Til meiri háttar viðhalds og tækjakaupa verði varið 5,5 millj. kr., þar af 1,5 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á Kristnesspítala.

Þá er lagt til að tekin verði upp ný starfsemi, AIDS-rannsóknir, og til hennar varið 15,9 millj. kr. sem er hvort tveggja til rekstrar og til fjárfestingar við aðstöðu og tækjabúnað.

Þá er rétt að gera grein fyrir því að gert er ráð fyrir að rekstur Hafnarbúða færist til Landakotsspítala frá Borgarspítala.

Í till. er gert ráð fyrir miklum breytingum varðandi útgjöld og rekstur Tryggingastofnunar ríkisins og framlög ríkisins til sjúkratrygginga að miklu leyti í samræmi við þær breytingar sem ég hef lýst hér að framan og varða stofnanir í heilbrigðiskerfinu. Einnig er lagt til að hækka útgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins um 275 millj. kr. miðað við þá starfsemi sem þar var gert ráð fyrir í fjárlagafrv. og á fjárlagaforsendum. Standa þá áfram ákvarðanir um að ná skuli sparnaði um 150 millj. kr. í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins af lífeyristryggingum svo sem fjárlagafrv. greinir.

Þá er lagt til samkvæmt ákvörðunum ríkisstj. að hækka útgjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 100 millj. kr. og er þar með horfið frá þeim lækkunum á framlögum sjóðsins sem gerð var grein fyrir í fjárlagafrv.

Lagt er til að Vegagerð ríkisins taki ekki uppfærslu verðlags og launa til sinnar starfsemi líkt og flestar aðrar stofnanir ríkisins. Samkvæmt endurskoðaðri tekjuhlið frv. er gert ráð fyrir að markaðir tekjustofnar Vegagerðar ríkisins verði á næsta ári 2040 millj. kr. sem er hækkun á framlögum til Vegagerðar ríkisins frá því sem ákveðið var við 2. umr. um 33 millj. kr. Í brtt. meiri hl. nefndarinnar er gert ráð fyrir að ekki verði um meiri framlög að ræða til Vegagerðar ríkisins á fjárlögum næsta árs en hér greinir og er það sem svarar 1,7% af vergri þjóðarframleiðslu.

Rétt er að taka fram að samkvæmt samkomulagi sem ég beitti mér fyrir við afgreiðslu vegáætlunar s.l. vor mun ríkissjóður bæta það upp ef markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar kynnu að skila minna en segir í fjárlögum hverju sinni.

Þá vil ég víkja að nokkrum B-hluta stofnunum, en till. meiri hl. fjvn. um B-hluta stofnanir eru á þskj. 391 og 417.

Fjárhagur Pósts og síma hefur verið tiltölulega rúmur nú hin síðustu ár og er það mikil breyting frá því sem var fyrir fáum árum. Stofnunin hefur ekki fengið gjaldskrárhækkun síðan 1. ágúst 1983. Á hinn bóginn var gjaldskrá Pósts og síma lækkuð um 7% 1. júlí 1985. Stofnunin hefur nú lokið lagningu sjálfvirks síma í sveitum og tókst það verk vel. Á næsta ári er gert ráð fyrir að stofnunin skili ríkissjóði arðgreiðslum sem nema 188 millj. kr. Til að mæta þessum greiðslum til ríkissjóðs og fjárfestingu, sem áætlað er að nemi 471 millj. kr. á næsta ári, verður stofnuninni heimilað að hækka gjaldskrá sína um 16-17% 1. febr. n.k. Fylgst verður með því eftir því sem líður á árið hvort frekari gjaldskrárbreytingar kunni að verða nauðsynlegar. Ljóst er að þessar gjaldskrárhækkanir verða verulega undir almennum verðlagshækkunum, ekki síst ef tekið er tillit til þess að ekki hefur verið um hækkun að ræða hjá stofnuninni síðan 1983.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar á vegum Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps, geti orðið um 79 millj. kr. Er það byggt á því að stofnunin hækki gjaldskrá sína um 6-8% í byrjun ársins. Fjárhagur stofnunarinnar verður tekinn til athugunar í framhaldi af þessu þegar líður á árið.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar á vegum Rafmagnsveitna ríkisins verði 175 millj. kr. á næsta ári. Er þá gert ráð fyrir að afborganir lána hjá stofnuninni verði 177,2 millj. kr. en tekin lán 90 millj. kr. Fyrir liggur samþykki iðnrn. um 14% hækkun á gjaldskrá frá 1. jan. n.k. og 17,6% hækkun á rafhitun á sama tíma. Þrátt fyrir þessa hækkun gjaldskrár 1. jan. n.k. er ljóst að sú gjaldskrárbreyting dugar ekki stofnuninni til að endar nái saman í rekstri hennar og þyrfti allt að 9% hækkun til viðbótar til að jöfnuður væri í rekstri.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um fyrirhugaðar gjaldskrárbreytingar hjá Skipaútgerð ríkisins. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram fé til að standa undir verulegum hluta af rekstri stofnunarinnar og nemur það 118,5 millj. kr. sem er geigvænlega há tala til reksturs á þessari stofnun. Á stofnuninni hvíla mikil fjármagnsútgjöld vegna fjárfestingar á síðari árum.

Í till. meiri hl. nefndarinnar er ekki gert ráð fyrir auknum fjárframlögum til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Er þar með ljóst að verulegar breytingar þurfa að eiga sér stað í útlánareglum sjóðsins til að endar nái saman á árinu 1986 í starfsemi hans.

Ég mun hér ekki víkja að fleiri B-hluta stofnunum, aðeins vísa til þess sem fram kemur í brtt., en eftir venju eru allar brtt. við B-hluta frumvarpsins fluttar af meiri hl. nefndarinnar.

Rétt er að vekja á því athygli að í brtt. meiri hl. við A-hluta frv. er lagt til að liðurinn Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum falli niður sem í frv. er 19 913 þús. kr. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir því að þessari starfsemi verði haldið áfram svo sem verið hefur en kostnaður greiðist af tekjum Stofnlánadeildar landbúnaðarins.

Þá þykir mér rétt að vekja athygli á því hversu laun vega þungt í útgjöldum ríkissjóðs. Miðað við hinar nýju launaforsendur í brtt. meiri hl. nefndarinnar er gert ráð fyrir að launaútgjöld ríkissjóðs nemi á næsta ári 9165 millj. kr. Sést þá að hvert 1% í hækkun á launum þýðir 91,6 millj. kr. í auknum útgjöldum ríkissjóðs. Þessu til viðbótar hafa launahækkanir áhrif á útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins, sem nemur litlu lægri fjárhæð, auk annarra áhrifa. Hér getur því fljótt orðið um stórar fjárhæðir að tefla ef ógætilega er farið í launasamningum.

Ég mun þá, herra forseti, að lokum gera grein fyrir þeim brtt. nefndarinnar sem fluttar eru á þskj. 366 og þegar hefur ekki verið vikið að hér að framan.

Till. er varða menntmrn.:

Háskóli Íslands. Viðfangsefnið Mannfræðistofnun hækkar um 324 þús. og verður 1600 þús. vegna hækkunar rekstrargjalda til að standa straum af kostnaði vegna rannsókna stofnunarinnar.

Íslensk málstöð. Gjöld hækki um 1745 þús. kr. og verða 3728 þús. kr.

Listir, framlög. Tekið er upp nýtt viðfangsefni, Leikfélög, skuldagreiðslur 2,2 millj. kr. Nokkrar slíkar stofnanir búa nú við mjög erfiðan fjárhag og miklar skuldir.

Þá eru tillögur er varða utanrrn.:

Ýmis utanríkismál. Tekið er upp nýtt viðfangsefni, Tækniaðstoð við Kólumbíu. Ætlunin er að íslenskir eldfjallasérfræðingar aðstoði kólumbíska starfsbræður sína við að koma upp svokölluðum hallamælum og einnig að þeim verði í einhverjum mæli gefinn kostur á samskiptum sín á milli. Samtals er gert ráð fyrir að til þessa sé varið 970 þús. kr.

Tillögur er varða landbrn.:

Landgræðsla ríkisins. Lagt er til að sértekjur stofnunarinnar verði lækkaðar um 1200 þús. kr., en það er skoðun nefndarinnar að þær séu ofáætlaðar í fjárlagafrv.

Veiðimálaskrifstofan. Tekið er upp nýtt viðfangsefni, Laxeldisstöðin í Kollafirði 2,4 millj. kr. Hér er um að ræða framlag til laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði í fyrsta lagi til að greiða skuld sem er 800 þús. kr. og hvílir á stofnuninni, en einnig til að standa undir hluta af rekstrar- og launagjöldum. Þessi stofnun hefur nú orðið fyrir verulegum óhöppum vegna sjúkdóms í seiðum stofnunarinnar sem gerir það að verkum að tekjur stofnunarinnar falla að verulegu leyti niður á næsta ári.

Stofnlánadeild landbúnaðarins. Framlög til stofnlánadeildarinnar hækka um 4880 þús. kr. og verða samkvæmt því 41 580 þús. kr. Það er vegna hækkunar á lífeyri, en eins og kunnugt er er framlag til stofnlánadeildar aðeins bundið greiðslu hennar til Lífeyrissjóðs bænda.

Bændaskólinn á Hvanneyri, sértekjur. Lagt er til að sértekjur lækki um 1200 þús. kr. og verði 18 098 þús. kr., en sértekjur stofnunarinnar eru greinilega ofáætlaðar.

Sjútvrn.: Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi. Lagt er til að tekið verði upp nýtt viðfangsefni, Námskeið fyrir fiskvinnslufólk 5 millj. kr.

Dómsmrn.: Fangamál, ýmis kostnaður. Lagt er til að viðfangsefnið Fangahjálp hækki um 139 þús. kr. og verði 1400 þús. Hér er um að ræða framlag til samtakanna Vernd.

Ýmis kirkjuleg málefni. Lagt er til að liðurinn hækki um alls 352 þús. kr. vegna hækkunar rekstrargjalda á viðfangsefninu Kirkjugarðaeftirlit og 227 þús. kr. vegna hækkunar á viðfangsefninu Ýmislegt sem skipt er með sérstöku bréfi fjvn. til dómsmrn.

Tillögur er varða félmrn.:

Málefni fatlaðra, Reykjavík. Lagt er til að gjöld hækki alls um 1701 þús. kr. vegna þess að tekið verði upp nýtt viðfangsefni, Sambýli, Sóleyjargötu 1531 þús. kr. sem skiptist þannig að laun eru áætluð 1 millj. kr. og 531 þús. kr. til rekstrargjalda. Enn fremur að viðfangsefnið Sambýli, Víðihlíð 7 hækki um 350 þús. kr. vegna launa eins starfsmanns.

Málefni fatlaðra, Reykjanesi. Viðfangsefnið Nýtt sambýli breytist í Sambýli Klettahrauni 17, Hafnarfirði, og er lagt til að framlög til þessa sambýlis hækki um 350 þús. kr. vegna launa nýs starfsmanns.

Málefni fatlaðra, Suðurlandi. Lagt er til að viðfangsefnið Svæðisstjórn hækki um 200 þús. kr. vegna launa félagsráðgjafa.

Félagsmál, ýmis starfsemi. Lagt er til að tekið verði upp nýtt viðfangsefni, Markarfljót, varnargarðar 2,5 millj. kr. gegn jafnháu framlagi frá Viðlagatryggingu Íslands.

Tillögur er varða heilbrrn.:

Tryggingastofnun ríkisins. Ég hef áður skýrt þann lið, en samtals er lagt til að framlag til sjúkratrygginga hækki um 1 865 934 þús. kr. sem er vegna þess að sjúkrahús, sem voru í fjárlagafrv., eru færð yfir á sjúkratryggingar að nýju og nemur sú breyting 1 590 934 þús., en einnig vegna aukins framlags til sjúkratryggingakerfisins um 275 millj. kr. eins og áður hefur verið frá greint.

Atvinnuleysistryggingasjóður. Ég hef áður frá því greint að lagt er til að hækka framlög hans um 100 millj. kr.

Þá eru tillögur er varða ríkisspítala sem ég hef einnig skýrt hér að framan.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Lagt er til að rekstrargjöld hækki um 2,5 millj. kr. vegna kostnaðar við nýja gjörgæsludeild sem ekki var áætluð fyrir í fjárlagafrv.

Lyfjamál. Viðfangsefnið Lyfsölusjóður hækki um 250 þús. kr. og verði 500 þús. vegna þess að sjóðurinn verður lögum samkvæmt að kaupa lyfjalager af lyfsala á Seyðisfirði sem er að hætta rekstri og enginn lyfjafræðingur hefur sótt um að taka við apótekinu þar.

Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Lagt er til að tekið verði upp nýtt viðfangsefni, Atvinnusjúkdómar. Er reiknað með að það gæti orðið lokagreiðsla, en á fjárlögum margra undanfarinna ára hefur verið varið nokkru fé til rannsókna á þessu viðfangsefni.

Tillögur er varða fjmrn.:

Uppbætur á lífeyri. Lagt er til að viðfangsefnið hækki um 1056 þús. kr. vegna greiðslu á lífeyri til starfsmanna stjórnmálaflokkanna.

Samgrn.:

Vegagerð ríkisins. Auk þess sem að framan hefur verið frá greint um Vegagerð ríkisins er lagt til að viðfangsefnið Yfirstjórn hækki um 40 þús. kr. vegna hækkunar á tilfærslum um þá fjárhæð, en þær tilfærslur verði þá alls 500 þús. kr. Þessum lið er síðan skipt með bréfi fjvn. til Vegagerðar ríkisins og ganga þær til þess að styrkja ferðamannaþjónustu og greiðasölu að vetrarlagi í afskekktari byggðum og við fjallvegi landsins.

Siglingamálastofnun ríkisins. Lagt er til að gjöld hækki alls um 1400 þús. kr. Lagt er til að laun hækki um 1260 þús. vegna ráðningar fjögurra nýrra skipaskoðunarmanna, en rekstrargjöld hækki um 140 þús. Nefndin flytur hins vegar till. um hækkun á skipaskoðunargjaldi, sem kemur á tekjuhlið fjárlaganna, um 2146 þús. kr. Skipaskoðunargjaldið verði þá í heild 4346 þús. kr. og er það í samræmi við áætlanir stofnunarinnar sjálfrar.

Sjóslysanefnd. Tekið er upp nýtt viðfangsefni, Öryggismálanámskeið fyrir sjómenn 5,5 millj. kr., vegna námskeiða sem fyrirhuguð eru víðs vegar um landið á næsta ári.

Ýmis framlög. Lagt er til að tekin verði upp tvö ný viðfangsefni. Hið fyrra er Sjálfvirkt tilkynningarkerfi 900 þús., sem er framlag til að halda áfram eða ljúka rannsóknum á sjálfvirku tilkynningarkerfi fyrir skip, en fyrir liggur að þeirri rannsókn lokinni að taka um það ákvörðun hvort ráðast eigi í þá fjárfestingu sem því er samfara að taka þetta sjálfvirka tilkynningakerfi í notkun. Bíður sú ákvörðun næsta árs eða næstu fjárlagagerðar. Tekinn er upp nýr liður, Ferðamálasamtök, sem lagt er til að fái 250 þús. kr.

Tillögur er varða iðnrn.:

Orkusjóður: Lagt er til að framlög til sjóðsins vegna sveitarafvæðingar verði hækkuð um 5 millj. kr. og verði samtals 10 millj. kr. Hér er um framlög að ræða sem ganga til þess að tengja ný hús, sem byggð eru víðs vegar á samveitukerfi landsmanna, og verður að leggja fram nokkurt fé til þess að þau verði tengd. Rétt er að taka fram að á þessum lið er nú skuldahali upp á 9,2 millj. kr. svo að það fjárlagaframlag sem hér er lagt til að verði rúmlega nægir til þess að vinna upp þann hala.

Þá eru hér brtt. frá meiri hl. fjvn. á þskj. 421. Í fyrsta lagi er lagt til að gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra verði hækkað úr 75 millj. kr. í 95 millj. kr. og er það í samræmi við nýafgreidd lög á hv. Alþingi. Með sama hætti kemur á móti sambærilegt framlag þannig að þessi fjárhæð kemur bæði tekna- og gjaldamegin í fjárlagafrv. við afgreiðslu fjárlaganna í samræmi við hin nýsettu lög.

Þá er einnig á tekjuhlið gert ráð fyrir leiðréttingu er varðar slysatryggingagjald sem gert er ráð fyrir að hækki um 7 millj. 221 þús. kr., hækkun sem bætist við á tekjuhlið frv. og er komin inn í yfirlit sem ég hef frá greint, en hér er um leiðréttingu að ræða.

Þá er við 4. gr. gjaldamegin lagt til að framlag til vatnsveitna hækki um 1,9 millj. kr. og verði samtals 9,9 millj. kr. Ég vil gjarnan taka það fram að þessi útgjaldaliður, 1,9 millj. kr., er ekki kominn inn í það yfirlit um tekjur og gjöld ríkissjóðs sem ég hef greint frá hér að framan og breytast þær tölur í samræmi við það. Þessi till. kom það seint inn.

Þá er hér ný grein, 7. gr., sem tillaga er flutt um af meiri hl. fjvn., svohljóðandi:

„Skattvísitala árið 1986 skal vera 136 stig miðað við 100 stig árið 1985.“

Þá hef ég, herra forseti, lokið við að greina frá og skýra brtt. fjvn. og meiri hl. fjvn. utan þess að ég hef ekki skýrt tillögur er varða 6. gr. fjárlaga, þ.e. heimildargrein, en ég vísa til þeirra tillagna eins og þær liggja fyrir. Ég ætla að þær muni skýra sig sjálfar.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef mælt fyrir og fjvn. og meiri hl. fjvn. hafa lagt fram.