20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

1. mál, fjárlög 1986

Frsm. samvn. samgm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 409 er nál. um framlög til flóabáta, fólks- og vöruflutninga frá samvn. samgm.:

„Samvn. samgm. hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um fjárframlög til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á einstökum svæðum, svo sem Faxaflóa, um Breiðafjörð, Ísafjarðardjúp og til Vestmannaeyja, um Eyjafjörð allt til Grímseyjar og vegna samgangna milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar.

Enn fremur hefur nefndin fjallað um erindi sem borist hafa vegna flutninga á landi, svo sem til reksturs snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist fyrir viðkomandi byggðarlög að standa straum af þeim kostnaði er þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðarinnar.

Þrátt fyrir að reglurnar hafa verið rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka eitthvað þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs framlög til þeirra aðila sem að dómi nefndarinnar eru verst settir að þessu leyti.

Nefndinni bárust umsóknir frá 64 aðilum. Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í samgrn., og Guðmundur Einarsson, forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, mættu á fundi nefndarinnar og veittu henni margvíslegar upplýsingar sem komu nefndinni að verulegu gagni. Færir nefndin þeim sérstakar þakkir fyrir störf þeirra í hennar þágu.

Skal nú gerð grein fyrir hinum einstöku þáttum, sérstaklega að því er hin stærri verkefni varðar, það er flutninga á sjó. Hvort tveggja er að til þeirra gengur mestur hluti þess fjármagns sem nefndin úthlutar og um allt það er lýtur að sjóflutningum hefur nefndin fyllri upplýsingar þó að þeir aðilar, er styrks til landflutninga njóta, hafi einnig sent nefndinni greinargóðar upplýsingar um rekstur og annað er umsóknina snertir og er það mikil breyting til bóta.

Í mörgum þessum umsóknum kemur glöggt fram hvað aðstöðumunurinn er mikill hvað kostnað við allar samgöngur varðar og er nefndinni fullkomlega ljóst að full ástæða væri að hafa þessa styrki verulega hærri [í mörgum tilvikum] til að minnka þennan aðstöðumun. En á hitt er einnig að líta að margir kunna þeir að vera sem lítið betur eru settir en enga umsókn hafa sent.“

Ég mun lítillega fara yfir stærstu aðilana og byrja á Akraborg:

Í ár er styrkur Akraborgar 7 millj. og 500 þús. kr., og rann hann að fullu til greiðslu á lánum hjá Ríkisábyrgðasjóði samkvæmt sérstöku samkomulagi við hann, en þannig var það einnig á árinu 1984. Á árinu 1984 var halli á rekstri félagsins Skallagríms hf. samkvæmt rekstrarreikningi 16 millj. 258 þús. kr. Þar kemur einnig fram að í árslok það ár var eigið fé félagsins neikvætt um 54 millj. 424 þús. kr., en var í árslok 1983 rúmar 30 millj. kr. Það liggur því í augum uppi að rekstur þessa fyrirtækis er ekki sem skyldi.

Þá er það Baldur:

Í grg. rekstraraðila bátsins um starfrækslu hans fyrstu tíu mánuði þessa árs segir m.a. að áætlunarferðir Baldurs milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey, Skáleyjum, Hvallátrum og Svefneyjum hafi orðið samtals 139. Báturinn flutti í þessum ferðum 6658 farþega og 1000 bifreiðar. Til samanburðar má geta þess að í 129 ferðum bátsins fyrstu tíu mánuði ársins 1984 flutti hann 4572 farþega og 1016 bifreiðar. Í sumaráætlun bátsins kemur fram að hann fer allt að sex ferðum á viku yfir Breiðafjörð en á tímabilinu 1. okt. til 30 apríl eru að jafnaði farnar tvær ferðir á viku.

Rekstrarstyrkur á yfirstandandi ári var 7 millj. 550 þús. kr., en nú sækir hann um 10 millj. og 670 þús. kr. sem eru 54% hækkun.

Það kemur fram í þessum reikningum að þessi rekstur er mjög erfiður og kostnaðarsamur. Á undanförnum árum hafa verið uppi ráðagerðir um að byggja nýtt skip til þess að þjóna byggðum Breiðafjarðar. Margar hugmyndir hafa komið fram. Það kemur fram í þeirri umsókn sem nefndin fjallaði um að lokið hafi verið undirbúningsstörfum fyrir útboð á smíði Breiðafjarðarferju. Ég tel að það þurfi að endurskoða allt þetta mál með það fyrir framan sig hve erfitt er að reka slíkt skip á þessu svæði og athuga þetta mál betur áður en ráðist er í að byggja stórt skip.

Fram kemur að tekjur Fagranessins, þ.e. djúpbátsins á Ísafjarðardjúpi, eru mjög litlar. Tekjur fyrstu tíu mánuði þessa árs eru ekki nema 2 millj. 544 þús. kr. Það er líka hægt að lesa það út úr rekstrarreikningum að kostnaði við rekstur á þessum bát er mjög í hóf stillt. En þessari þjónustu er heldur ekki hægt að halda uppi nema með verulegum styrk frá hendi ríkisins.

Hríseyjarferja. Flutningar hafa aukist mjög mikið þar bæði á vörum og farþegum. Það kemur fram að flutt hafi verið um 2000 tonn á þessu ári og tæplega 29 þúsund farþega. En það hefur komið hvað eftir annað fyrir að það hefur verið erfitt að koma vörum og farþegum þarna á milli vegna þess hvað skipið er lítið. Og uppi eru hugmyndir um að lengja skipið til þess að mæta þessari þörf.

Drangur. Nefndin telur rétt að rifja upp nú hvernig rekstur og annað sem viðkemur Drangi hefur gengið til á undanförnum árum þar sem rekstraraðilar skipsins hafa gefist upp á rekstri hans og skipið hefur verið leigt vestur um haf.

Skipið Drangur var keypt til landsins í ársbyrjun 1982 frá Noregi og kostaði í norskum krónum 7,5 millj. kr. á þeim tíma. Þegar skipið var keypt voru menn mjög bjartsýnir á að hægt væri að nýta skipið til verulegra flutninga á Norðurlandi og jafnvel víðar, en reynslan hefur sýnt að verkefni hafa farið sífellt minnkandi og svo var komið að engin leið var að halda þessu áfram.

Það verður náttúrlega að þjóna þessum byggðum með einhverjum hætti eftir að búið er að missa Drang þarna. Gert er ráð fyrir að það verði gert með Skipaútgerð ríkisins annars vegar og Flugfélagi Norðurlands hins vegar.

Mjóafjarðarbátur. Nýr bátur var keyptur til að þjóna Mjófirðingum árið 1978 og kostaði hann þá um 40 millj. kr. Stór hluti kaupverðsins er enn ógreiddur. Samkvæmt rekstrarreikningi fyrir árið 1984 og 1985 kemur í ljós að rekstur á þessum bát hefur verið mjög erfiður. En þetta er eina samgöngutækið sem Mjófirðingar hafa við umheiminn, og sérstaklega sinn verslunarstað, veturinn og oft fram á vor. Því er búseta í Mjóafirði lítt hugsanleg ef þessi bátur mundi hætta sínum ferðum fyrir þetta byggðarlag.

Þá ætla ég aðeins að minnast á Herjólf:

Í umsókn Herjólfs fyrir næsta ár kemur fram að niðurstöður liggja nú fyrir fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs og er áætlunin byggð á þeim upplýsingum sem úr þeim má lesa.

Segja má að útkoman á rekstri bátsins á yfirstandandi ári sé svipuð og hún hefur verið á undanförnum árum. Á það skal minnt að á undanförnum árum hefur í 6. gr. fjárlaga hvers árs verið heimild til þess að semja við Herjólf hf. eða rekstraraðila hans um uppgjöf vanskilaskulda fyrirtækisins hjá ríkissjóði, m.a. með niðurfellingu vaxta og dráttarvaxta. Heimildin var t.d. notuð árið 1982 og þá samþykkti þáverandi fjmrh. niðurfellingu vaxta að fjárhæð 59,6 millj. kr.

Um áramótin 1984-85 var gengið frá skuldabréfi þar sem Herjólfur hf. skuldbindur sig til þess að greiða vanskilaskuld sem stóð eftir eftir þá niðurfellingu sem þá var gerð að upphæð 25,7 millj. kr. sem átti að greiðast á árunum 1985 til 1993. Gjalddagar eru tveir á ári, 1. maí og 1. nóv. Skuldin ber 4% vexti og afborganir greiðslu lánsins eru verðtryggðar. Ákvæði er sett inn í skuldabréfið til tryggingar endurgreiðslu láns þessa. Gert er ráð fyrir að það verði borgað með rekstrarstyrkjum sem félagið kann að fá á fjárlögum vegna útgerðar skipsins á næstu árum. Það er rétt að fram komi að heildarniðurfelling á dráttarvöxtum af skuld sem Ríkisábyrgðasjóður hefur gefið eftir á undanförnum árum er samtals um 100 millj. kr. En þetta Vestmannaeyjaskip er vegasamband Vestmanneyinga til lands og er ómissandi fyrir það byggðarlag.

Málefni annarra báta verða ekki rakin hér, enda er þar um smáar upphæðir að ræða. Þeir eru Dýrafjarðarbátur, Hnúknesbátur og Mýrabátur. Ekki verða heldur tilgreindar sérstakar umsóknir um fjárveitingu til vetrarsamgangna á landi. Ítarlega var fjallað um hverja umsókn og var samstaða í nefndinni um hverja fjárveitingu.

Samvn. samgm. leggur til að á fjárlögum 1986 verði veittar samtals 73 millj. og 300 þús. kr. til flóabáta og vöruflutninga sem skiptast eins og er lagt til á sérstök þskj. Er þetta 30% hærri upphæð en veitt var til þessa verkefnis á yfirstandandi ári.

Undir þetta nál. skrifar öll samvn. samgm. Þá ætla ég að lesa upp þessar fjárveitingar:

Til vetrarflutninga í Breiðavíkurhreppi og Neshreppi utan Ennis 70 þús. kr.; til vetrarflutninga á norðanverðu Snæfellsnesi 70 þús. kr.; til vetrarflutninga í Dalahéraði 140 þús. kr.; snjóbifreið í A-Barðastrandarsýslu 40 þús. kr.; til mjólkurflutninga í V-Barðastrandarsýslu 150 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Rauðasandshreppi 70 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Ketildalahreppi 53 þús. kr.; til vetrarflutninga í Bíldudal 53 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Auðkúluhreppi í V-Ísafjarðarsýslu 65 þús. kr.; til vetrarsamgangna við Ingjaldssand 110 þús. kr.; snjóbifreið í Önundarfirði 100 þús. kr.; snjóbifreið um Botnsheiði 85 þús. kr., stofnstyrkur 85 þús. kr.; til mjólkurflutninga í Önundarfirði, Dýrafirði, Súgandafirði og Djúpi 370 þús. kr.; til vetrarflutninga í Álftafirði, N-Ísafjarðarsýslu 65 þús. kr.; til vetrarflutninga í Ögurhreppi 40 þús. kr.; til vetrarflutninga í Reykjafjarðarhreppi 40 þús. kr.; til vetrarflutninga í Nauteyrarhreppi 40 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Snæfjallahreppi 40 þús. kr.; til vöruflutninga í Árneshreppi 250 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Árneshreppi 125 þús. kr., stofnstyrkur 450 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Kaldrananeshreppi 40 þús. kr.; snjóbifreið á Hólmavík 44 þús. kr.; Fellshreppur 40 þús. kr.; Skefilsstaðahreppur 65 þús. kr.; snjóbifreið í Skagafirði 40 þús. kr.; til vetrarflutninga í Haganes- og Holtshreppi 65 þús. kr.; til vetrarsamgangna við Siglufjörð 260 þús. kr.; til vetrarflutninga í Ólafsfirði 65 þús. kr., stofnstyrkur 40 þús. kr.; snjóbifreið í Dalvíkurlæknishéraði 25 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Svarfaðardal 70 þús. kr.; snjóbifreið á Akureyri 50 þús. kr.; snjóbifreið í Grýtubakkahreppi 37 þús. kr.; snjóbifreið í Hálshreppi, S-Þingeyjarsýslu 41 þús. kr.; Norðausturleið, Vopnafjörður-Húsavík 550 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Fjallahreppi 160 þús. kr.; snjóbifreið Öxarfjörður- ópasker 63 þús. kr.; snjóbifreið á Þórshöfn 55 þús. kr.; til vetrarflutninga á Bakkafirði 110 þús. kr.; til vetrarflutninga á Vopnafirði 110 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Borgarfirði eystra 125 þús. kr.; til vetrarsamgangna í Hjaltastaðahreppi 40 þús. kr.; til póst- og vöruflutninga á Jökuldal 38 þús. kr.; til vetrarsamgangna á Jökuldal 63 þús. kr., stofustyrkur 130 þús. kr.; til vetrarflutninga í Möðrudal 80 þús. kr., stofnstyrkur 90 þús. kr.; snjóbifreið á Fljótsdalshéraði 35 þús. kr.; snjóbifreið á Fjarðarheiði 440 þús. kr.; snjóbifreið á Oddsskarði og Fagradal 520 þús. kr., stofnstyrkur 500 þús. kr.; snjóbifreið Stöðvarfjörður-Egilsstaðaflugvöllur 72 þús. kr.; til vetrarflutninga á Breiðdalsvík 110 þús. kr.; til vetrarflutninga Djúpivogur-Hornafjörður 150 þús., stofnstyrkur 150 þús. kr.; Svínafell í Nesjum 41 þús. kr.; til vöruflutninga á Suðurlandi 390 þús. kr.; óráðstafað 500 þús. kr. Þetta gerir 7 millj. 915 þús. kr.

Síðan eru það flóabátarnir:

Akraborg 10 millj. kr.; Baldur 8 millj. 900 þús. kr., stofnstyrkur 1 millj. 500 þús. kr.; Hnúknesbátur 53 þús. kr.; Mýrabátur 10 þús. kr.; Fagranes 8 millj. 800 þús. kr.; Dýrafjarðarbátur 85 þús. kr., stofnstyrkur 42 þús. kr.; Hríseyjarferja 1 millj. 640 þús. kr., stofnstyrkur 1 millj. 590 þús. kr.; Drangur, stofnstyrkur - því að segja má að ríkissjóður sé ábyrgur fyrir láni sem hvílir á þeim bát - 10 millj. kr.; Mjóafjarðarbátur 1 millj. 510 þús. kr.; Herjólfur 16 millj. 800 þús. kr.; Eyjafjörður-Grímsey 4 millj. 555 þús. kr. Þessi tala er 65 millj. 385 þús. kr. eða samtals eins og áður sagði 73,3 millj. kr.