20.12.1985
Sameinað þing: 34. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

1. mál, fjárlög 1986

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 sem ég flyt á þskj. 383. Það er í fyrsta lagi brtt. um fjárveitingu til Rannsóknasjóðs og í öðru lagi brtt. um fjárveitingu til Blindrabókasafns Íslands.

Varðandi till. um hækkun á framlagi til Rannsóknasjóðs get ég í grófum dráttum vísað til ræðu sem hér var flutt fyrr í kvöld af hv. 3. landsk. þm. sem gerði þessi mál að umtalsefni. Vakti hún m.a. athygli á bréfi sem alþm. hafa borist frá forstöðumönnum fjölmargra íslenskra rannsóknastofnana þar sem þeir leggja á það áherslu að nokkuð verði aukið við það fé sem veitt var á síðasta ári til almennrar rannsóknastarfsemi. Á s.l. ári ákvað ríkisstj. að veita 50 millj. kr. til rannsóknastarfsemi og var sá háttur hafður á að rannsóknastofnunum og einstökum fyrirtækjum var gefin kostur á að sækja um fjármuni úr þessum rannsóknasjóði. Fjöldamörg fyrirtæki gáfu sig fram og rannsóknastofnanir með mjög álitleg verkefni. Er ekki nokkur vafi á að þessi ákvörðun hafði mjög jákvæð áhrif á rannsókna- og þróunarstarfsemi hér á landi strax vegna þess að þarna eygðu menn von um að úr væri að rætast fyrir þessum mikilvæga þætti okkar atvinnu- og menningarlífs. Þess vegna kom það nokkuð á óvart, þegar frv. til fjárlaga var lagt fram fyrir árið 1986, að ríkisstj. skyldi vera með óbreytta krónutölu í þetta verkefni á því ári. Þess vegna er það sem ég flyt hér till. á þskj. 383 um að hækka nokkuð þessa tölu frá því sem er í fjárlagafrv. eða í um 100 millj. kr.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa bréf sem barst frá fjölmörgum forustumönnum rannsóknastofnana um þetta efni, en þar segja þeir:

Við undirrituð viljum vekja athygli alþm. á eftirfarandi: Á liðnum árum höfum við Íslendingar dregist aftur úr nágrannaþjóðum okkar í nýtingu þekkingar og nýrrar tækni. Þetta hefur leitt til stöðnunar í íslensku atvinnulífi. Fyrir ári beitti ríkisstjórn landsins sér fyrir merku átaki þegar ákveðið var að verja á yfirstandandi ári 50 millj. kr. til rannsókna í þágu nýsköpunar í atvinnulífinu. Umsóknir í þennan rannsóknasjóð sýndu ljóst hinn mikla fjölda góðra hugmynda sem virkja má til að efla íslenskt atvinnulíf. Sjóðurinn hefði þurft liðlega tvöfalt meira fé til að geta sinnt öllum álitlegum umsóknum. Við undirrituð skorum því hér með á Alþingi og ríkisstjórn að veita á fjárlögum næsta árs 150 millj. kr. til hins nýja rannsóknasjóðs.“

Undir þetta rita forustumenn rannsóknastofnana, Háskóla Íslands, Raunvísindastofnunar háskólans, Sambands íslenskra fiskframleiðenda, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Líffræðistofnunar háskólans, Iðntæknistofnunar o.fl. rannsóknastofnana og fyrirtækja, þar á meðal Marels hf.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvað hér er um að ræða stórt og þýðingarmikið atriði fyrir okkar atvinnu- og efnahagslíf á komandi árum, að við bætum aðstöðu rannsóknastofnana okkar. Það er svo sáralítil upphæð sem forustumenn þessara stofnana eru að fara fram á þegar allt kemur til alls. Vissulega munu mörg af þeim verkefnum sem er verið að sækja um peninga til kannske ekki skila verulegum fjármunum á næstunni. Hins vegar er ljóst að einhver þeirra verkefna geta aftur á móti skilað okkur stórfelldum verðmætum sem geta skipt sköpum og endurgreitt allt það sem við kunnum að leggja í slíka rannsóknastarfsemi á komandi árum.

Alþb. lagði á það áherslu á landsfundi sínum fyrir nokkrum vikum að eitt höfuðverkefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir væri að efna til alhliða nýrrar sóknar í atvinnulífinu. Það hefur um áratugaskeið verið hlutverk íslenskra sósíalista að beita sér fyrir frumkvæði og átaki í atvinnulífinu til að bæta möguleika til batnandi lífskjara í landinu og einnig til að treysta efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Við teljum að rannsóknastarfsemi af því tagi sem hér er verið að flytja tillögu um geti skipt ákaflega miklu máli. Ég er þó ekki þeirrar skoðunar að peningar einir geti hér leyst allan vandann. Jafnframt þarf að tryggja að þær rannsóknastofnanir sem til eru starfi sem best saman þannig að fjármunir nýtist sem best og ekki verði um margverknað og tvíverknað að ræða á vegum þessara aðila.

Ég ætla ekki, herra forseti, að endurtaka neitt af því sem ég sagði í gær í umræðum um lánsfjárlög varðandi rannsókna- og þróunarstarfsemi. Ég vildi aðeins fylgja þessari till. minni úr hlaði með þessum orðum og læt hér staðar numið varðandi fyrri till. á þskj. 383.

Á þskj. 383 flyt ég einnig litla till. um að hækka fjárveitingu til Blindrabókasafns Íslands um 2 millj. kr. eða úr 6 millj. 746 þús. kr. í 8 millj. 746 þús. kr. Ef Blindrafélagið og Blindrabókasafn Íslands eiga að geta starfað með eðlilegum hætti á næsta ári og án verulegra aukafjárveitinga verður þessi fjárveiting að koma til. Það er ekkert annað en raunsæi að gera sér það ljóst. Ég vænti þess að ríkisstj. og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sjái sér fært að samþykkja till., jafnvel þó að hún komi frá stjórnarandstöðunni.

Ég vil í þriðja lagi, herra forseti, minna á að við afgreiðslu fjárlaga nú verður hlutur Reykjavíkur sem byggðarlags ákaflega illa úti. Ef við lítum á framlög til skólamála í Reykjavík kemur á daginn að stór skólasvæði þar sem til hefur staðið að gera við eða byggja upp nýja skóla fá enga fjárveitingu þó þar sé um að ræða margar þúsundir íbúa. Í þessu sambandi bendi ég á Vesturbæjarskóla sem hefur staðið til að hefja framkvæmdir við og ég bendi á að til þess að ljúka Grafarvogsskóla þarf mun meiri fjármuni en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Þá vil ég einnig benda á að Reykjavík hefur setið mjög á hakanum í sambandi við uppbyggingu heilsugæslunnar. Það er búið að byggja upp út um allt land milli 40 og 50 heilsugæslustöðvar. Í Reykjavík hefur í rauninni ekkert hús verið byggt sérstaklega fyrir heilsugæslustöð. Er Reykjavík eina byggðarlagið á landinu þar sem ekki hefur verið byggð upp nein heilsugæslustöð. Að vísu hafa Reykvíkingar aðgang að nýrri heilsugæslustöð þar sem er heilsugæslustöðin á Seltjarnarnesi sem vesturhluti bæjarins hefur aðgang að. Þá er um að ræða heilsugæslustöð í Borgarspítalanum fyrir Fossvogssvæðið, heilsugæslustöð í Asparfelli og heilsugæslustöð í Árbæjarhverfi. Þá er Reykjavíkurborg nú að leggja fram talsverða fjármuni til þess að innrétta heilsugæslustöð við Drápuhlíð. Reykjavíkurborg og borgarstjórnin í Reykjavík fóru fram á fjármuni til þess að hefja framkvæmdir við byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar við Hraunberg í Breiðholti. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefur ekki séð sér fært að koma til móts við þessa tillögu og hlýt ég að láta í ljós verulega óánægju með það, svo og að þm. Reykjavíkur hafa ekki komið saman nema einu sinni til að fjalla um fjárlögin þrátt fyrir óskir þar um til 1. þm. Reykjavíkurkjördæmis, hæstv. iðnrh.

Ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir fjárveitingavaldið og ríkissjóð á hverjum tíma að halda þannig á málum að fullt jafnvægi sé á milli byggðarlaga, að fjárveitingavaldið og Alþingi sýni þörfum Reykjavíkur og Reykvíkinga engu síður skilning en íbúum annarra landshluta. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt fyrir Alþingi og fjárveitingavald og ríkisstjórn þegar verið er að afgreiða fjárlög að tekið sé á málefnum Reykjavíkur líka. Reykjavík er höfuðstaður landsins og það er skylt að tryggja þar félagslega þjónustu engu síður en í öðrum byggðarlögum.

Ég fullyrði, herra forseti, að heilbrigðisþjónusta í Reykjavík er lakari en í flestum öðrum byggðarlögum. Ég geri ráð fyrir áð þeir séu margir þm. Reykvíkinga sem hafa búið við það langt árabil eins og ég að hafa engan heimilislækni. Það eru nefnilega 20 þúsund Reykvíkingar sem hafa engan heimilislækni. Það er vegna þess að uppbygging heilsugæslunnar í Reykjavík hefur setið á hakanum undanfarin ár. Það var eðlilegt að landsbyggðin hefði forgang. Hið gamla héraðslæknakerfi var ófullkomið og það var dýrt og tryggði ekki þjónustu eða öryggi. Þegar heilsugæsla á landsbyggðinni hefur hins vegar verið byggð upp er eðlilegt að menn snúi sér af krafti að uppbyggingu heilsugæslunnar í Reykjavík. Það er vanrækt og svo er einnig í þessu frv.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson, ræddi þessi mál fyrir nokkru við okkur þm. Reykjavíkurkjördæmis. Hann gagnrýndi mjög harðlega hvernig á þessum málum hefði verið haldið og vitnaði til áætlana sem gerðar voru 1982 í þessum efnum og hann taldi og telur að væri eðlilegt að hrinda í framkvæmd frá sjónarmiði okkar Reykvíkinga.

Það er ekki oft sem talað er um kjördæmismál í Reykjavík í þessum stól. Þó er Reykjavík líka kjördæmi og Reykvíkingar eru líka fólk. Ég held að það væri eðlilegt að um þau mál væri fjallað engu síður en vandamál hinna dreifðu byggða í landinu sem eru bæði stór og alvarleg. Ég held að ein forsenda þess að Reykvíkingar skynji Alþingi sem sitt þing eins og aðrir sé sú að málefnum Reykjavíkur sé sinnt engu síður en annarra. Ég hef hins vegar orðið var við það þau ár sem ég hef setið á Alþingi, en þetta er mitt áttunda eða níunda þing, að þegar ég hef hreyft hér málefnum Reykvíkinga eins og einu sinni tvisvar á hverju þingi hef ég iðulega orðið var við að flestallir þm. hafa talið það hinn mesta óþarfa, hégilju og í rauninni alveg fráleitt. Ég vísa slíkum ásökunum á bug. Ég er fulltrúi fyrir kjósendur í Reykjavík og tel að mér sé skylt að koma sjónarmiðum þeirra á framfæri hvað svo sem aðrir kunna að segja.

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af þessum orðum mínum víkja að því að fyrir kosningarnar 1983 var það eitt meginbaráttumál Sjálfstfl. að stuðla bæri að sjálfstæði sveitarfélaganna. Staðreyndin er sú að aldrei hefur í opinberum framlögum verið þrengt eins að sveitarfélögunum og í fjárlagafrv. ársins 1986. Fjárframlög til sveitarfélaganna allra eru skorin heiftarlega niður, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson hefur rakið skilmerkilega úr þessum ræðustól nýlega. Það er einnig svo að ríkisstj. undir forustu formanns Sjálfstfl. ræðst sérstaklega á eina verðtryggða tekjustofn sveitarfélaganna. Borgarstjórn Reykjavíkur fjallaði um þetta mál á dögunum. Í dag barst mér í hendur bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík dags. 20. des. 1985 um þessi mál þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gær var eftirfarandi ályktun gerð með 21 shlj. atkvæði: Borgarstjórn Reykjavíkur mótmælir harðlega þeirri stefnu stjórnvalda að skerða hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tekjum af söluskatti og aðflutningsgjöldum frá því sem ákveðið er í lögum um tekjustofna sveitarfélaga og skorar á Alþingi og ríkisstj. að falla frá áformum um þetta efni í frv. til fjárlaga fyrir árið 1986.“

Eftirfarandi grg. fylgdi till. sem var lögð fram í borgarstjórn:

„Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga á Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ákveðna hlutdeild í innheimtum söluskatti og verðtollstekjum. Á árinu 1984 var sett þak á þessa hlutdeild þegar verið var að stoppa í fjárlagagatið sem fannst snemma á því ári. Þá var jafnframt tekið skýrt fram að hér væri um tímabundna ákvörðun að ræða sem mundi aðeins taka til ársins 1984. Þrátt fyrir gefin fyrirheit, ótvíræð lagaákvæði og sjálfsforræði á tekjustofnum sínum var aftur sett þak á hlutdeild Jöfnunarsjóðs árið 1985 og í frv. til fjárlaga fyrir árið 1986 er enn haldið við sömu áform. Að auki hafa ráðstöfunartekjur sjóðsins verið skertar með breyttum uppgjörsreglum vegna innheimtu á barnsmeðlögum. Talið er að skerðingin á tekjum Jöfnunarsjóðs árið 1985 hafi numið um 100 millj. kr., en erfitt er að meta hve fyrirhuguð skerðing er mikil á árinu 1983 þar sem ekki liggja fyrir endanlegar áætlunartölur um innheimtu á söluskatti og aðflutningsgjöldum, en reynslan hefur einnig leitt í ljós að áætlunartölur fjárlaga hafa verið of lágar. Með þessum aðgerðum hafa sveitarfélögin verið svipt einu verðtryggingunni á tekjustofnum sínum á sama tíma og mestur hluti ríkissjóðstekna fylgir verðlagi. Það er réttmæt krafa sveitarfélaga að Jöfnunarsjóður fái lögmæltan hlut í tekjum af söluskatti og aðflutningsgjöldum en ríkissjóður bæti ekki sífellt sinn hag á kostnað sveitarfélaganna.“

Þetta var úr bréfi borgarstjórnarinnar í Reykjavík til forseta Sþ. dags. 20. des. 1985.

Að lokum vil ég víkja að því, herra forseti, að á þskj. 359 er birtur samanburður á lánsfjárlögum og erlendum lántökum 1985. Þennan samanburð rakti ég í gær því þar kemur fram að í lánsfjárlögum var gert ráð fyrir 6,8 milljörðum kr., en reyndin varð 10,4 milljarðar kr. Það var nákvæmnin í fjárlaga- og lánsfjárlagagerð þessa árs. Þegar málið var til meðferðar í fjh.- og viðskn. hv. Nd. óskaði ég eftir því við greiðslujafnaðardeild Seðlabankans að upplýsingar fengjust um hve stór hluti lánanna hefði verið kominn inn þegar í júní 1985 þegar áætlunin var gerð. Það er býsna athyglisvert sem þar kemur í ljós. Þar kemur það t.d. fram að þá þegar, í júnímánuði, voru komin inn lán til sveitarfélaganna að upphæð 403 millj. kr., en í áætluninni sem var samþykkt í júní var gert ráð fyrir lánum á öllu árinu upp á 326 millj. kr. Sömu daga og við vorum að afgreiða lánsfjárlögin í þinginu var búið að taka inn lán upp á 400 millj. kr. þó að í lánsfjárlögunum stæðu 320 millj. kr. Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Er ekki bersýnilega margt að í þessum efnum þegar áætlanagerð varðandi fjárlög og forsendur þeirra er jafnmikil endileysa, jafnmikil grautargerð og þessi tala ber með sér? Ég óttast að þó að menn séu að afgreiða fjárlög og lánsfjárlög fyrir árið 1986 muni koma í ljós þegar líður á árið að verulega skorti á að allar forsendur standist. Í þeim efnum spái ég því að hæstv. fjmrh. muni á sínu starfsári 1986 lenda í því, sem áður hefur hent forvera hans, að gefa út aukafjárveitingar á aukafjárveitingar ofan til að bjarga hlutunum vegna þess að forsendur standist ekki.

Ég vil að allra síðustu, herra forseti, benda á að nú liggja fyrir tölur um erlendar skuldir í lok þessa árs. Hver er árangurinn? Hafa þær minnkað? Hver er árangurinn? Þjóðhagsstofnun sendi frá sér áætlun um þetta í dag og þar segir: „Erlendar skuldir til lengri tíma en eins árs virðast munu aukast úr 52,2% af landsframleiðslu árið 1984 í 54,8% á þessu ári.“ Þessar tölur láta ekki mikið yfir sér. Þetta er 2,6% aukning á skuldahlutfallinu af landsframleiðslu. En hvað eru það miklar upphæðir sem ríkisstj. hefur bætt við erlend lán á þessu ári? Þetta eru u.þ.b. 2,6 milljarðar kr., miðað við að landsframleiðsla sé í kring um 100 milljarðar eða svo.

Það er einnig athyglisvert sem fram kemur í þessu plaggi Þjóðhagsstofnunar og styður það sem ég var að segja hér við hæstv. fjmrh. í gærkvöld. Vextirnir ráða úrslitum um greiðslubyrði erlendra lána. Hér segir, með leyfi forseta: „Greiðslubyrði vegna langra erlendra lána er talin verða tæplega 21% af útflutningstekjum sem er lægra hlutfall en 1984, en þá var greiðslubyrðin 24%.“ - Það er lækkun úr 24% í 21%. Skyldi það vera hinni vitru fjármálastjórn ríkisstj. að þakka, fjmrn. og fjmrh., að þetta skuldahlutfall lækkar? Ber að þakka fjármálastjórninni fyrir þetta mikla afrek eða hvað? Svarið er auðvitað þetta: Í fyrsta lagi hafa vextir erlendis lækkað verulega og í öðru lagi hafa útflutningstekjur aukist. M.ö.o. er hér ekki um að ræða neitt sem skrifast á reikning ríkisstj. Hér hefur hún orðið fyrir óvæntum happdrættisvinningi, lækkandi hlutfalli greiðslubyrði, vegna lækkunar vaxta á alþjóðamarkaði og vegna aukinna útflutningstekna. Þjóðhagsstofnun telur að vextir á dollaralánum á alþjóðamarkaði verði á þessu ári að meðaltali 9%, svonefndir LIBOR-vextir, sem er meira en 1% lægra en 1984. Hvað þýðir þetta, 1% lægri vextir en 1984? Það þýðir sparnað fyrir íslenska þjóðarbúið um 250 millj. kr. Þannig leggst þetta saman: óvenjuhagstæð ytri skilyrði, aukinn afli, auknar útflutningstekjur, lækkandi vextir á alþjóðamörkuðum, aukin þjóðarframleiðsla um 2-21/2% og áfram á næsta ári. Samt eru menn að sýna viðskiptahalla á þessu ári, eins og fram kemur í þessum plöggum mjög verulegan, upp á 5% af vergri þjóðarframleiðslu, og lægsta kaupmátt kauptaxta í 30-40 ár. Hvar er nú öll fjármálasnilldin? Svo mikið er víst að hennar hefur ekki enn þá orðið vart í opinberum tölum hjá þeim sem kunna að lesa slíkar tölur. Ég veit að hæstv. fjmrh. kann það mætavel. Hins vegar reynir hann iðulega að blekkja umhverfi sitt með fullyrðingum um eitt og annað, eins og ég rakti t.d. hér í gærkvöld. Það versta væri ef hann færi að trúa tilraunum þeim sem hann gerir til þess að blekkja aðra. Ég vona að það verði seint.