21.12.1985
Sameinað þing: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

1. mál, fjárlög 1986

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil biðja hv. þingdeildarmenn að láta ekki öryggisleysi sitt gagnvart hinu óþekkta hlaupa með sig í strákslegar gönur eins og þeir hafa þegar gert. Nær væri þeim, fyrst áhugi þeirra er svo lifandi á þessu efni, að kynna sér framsöguræðu hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur fyrir þessari brtt. þar sem hún lýsir því hvað kvennarannsóknir eru eða geta verið. Sömuleiðis mætti benda öllum þeim þm. sem hér eru inni á að kynna sér hina blómlegu og fjölsóttu ráðstefnu sem haldin var í hugvísindahúsinu Odda snemma í haust um kvennarannsóknir. Þangað komu meira en tvö þúsund manns, mest konur að vísu, og sú bók sem gefin var út með erindum af ráðstefnunni seldist upp á nokkrum dögum. Það sem meira var og óvanalegra: Ráðstefnan borgaði sig og skilaði reyndar hagnaði. Má ég vinsamlega benda hæstv. fjmrh. á það fordæmi, svo og fjvn.

Nei, hv. þm. Látið nú af strák ykkar. Það er ekkert að óttast þó rannsakaður sé hagur kvenna og allar aðstæður - eða hvað? Haldið þið, hv. þm., að eitthvað gruggugt komi í ljós, einhver ójöfnuður sem hagstæðara væri að fela? Það er þó ekki þess vegna sem moldin rýkur hér í logninu? Ég tel það hins vegar mikilvægt fyrir réttindabaráttu kvenna að rannsóknir séu framkvæmdar sem varpa ljósi á stöðu kvenna og hag almennt. Slíkar rannsóknir hljóta að auka á skilning kvenna og vonandi karla líka á því hverju þarf að breyta til þess að réttindi kvenna geti orðið sambærileg á við réttindi karla. Og er nokkur á móti því í þessum sal? Ég segi já.