21.12.1985
Sameinað þing: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

1. mál, fjárlög 1986

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Við þessa fjárlagaafgreiðslu höfum við Alþýðuflokksmenn lagt fram alls 74 brtt. Tilgangur okkar með svo ítarlegum tillöguflutningi var tvíþættur: að tryggja örugglega hallalausan ríkisbúskap á næsta ári, sem við teljum ekki tryggðan í þessu fjárlagafrv., og í annan stað að tryggja verulega lækkun erlendra skulda. Þetta gerðum við með tillöguflutningi um aukna tekjuöflun og breytingar á skattkerfi, lækkun ríkisstofnana og lækkun ríkisútgjalda, með kerfisbreytingartillögum, einkum að því er varðaði tillögur um niðurfellingu á því sem við getum kallað velferðarkerfi fyrirtækja á fjárlögum, og í fjórða lagi með því að auka þar með olnbogarými innan fjárlaga til aukinna framlaga til framkvæmda og félagslegrar þjónustu. Allar hafa þessar tillögur verið felldar. Þar með lýsum við ábyrgð á hendur stjórnarmeirihlutanum vegna þeirra afleiðinga sem af munu hljótast á næsta ári og greiðum því ekki atkvæði með þessum fjárlögum.