21.12.1985
Sameinað þing: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

Kosning endurskoðenda Húsnæðisstofnunar ríkisins

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég tel að þessi athugasemd, sem komin er frá hv. 2. þm. Reykv., sé allrar athugunar verð því að þær yfirlýsingar sem hér hafa verið gefnar um að fólk taki ekki þátt í atkvæðagreiðslu má túlka þannig að menn hafi skilað auðu án þess að orða það þannig. En leiki einhver vafi á um slíkar yfirlýsingar held ég að það sé eðlilegast að kanna það með því að höfða mál á hendur þeim mönnum vegna þessara laga - (HBI: Þm. eru í þinghelgi.) Þing stendur ekki allt árið ef þm. leyfist að segja það. - eða fá í þessu máli úrskurð. (HBI: Menn eru þm. í þessu húsi.) Já, það veit ég. Ég kom ekki hérna í stólinn, hv. þm. Halldór Blöndal, til þess að grínast. Ég er að tala um þetta í alvöru. Ég tel að það eigi að úrskurða í þessu máli.