21.12.1985
Sameinað þing: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

Kosning í bankaráð Útvegsbanka Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég mótmæli því að þegar hér standa yfir þingstörf samkvæmt lögum og þm. eru að vinna samkvæmt þingsköpum og eiga að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni eftir stjórnarskránni vaði menn hér upp trekk í trekk með yfirlýsingar eins og Gabríel erkiengill væri af himni kominn til að hella sér yfir syndum spilltan lýð. Ég mælist til þess að forseti veiti slíkum mönnum vítur fyrir þau ummæli sem þeir viðhafa hér trekk í trekk um siðleysi þm. þó að þeir greiði atkvæði eins og þeim ber lagaleg skylda til.