21.12.1985
Sameinað þing: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

Þingfrestun

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það er nú loks komið svo eftir vinnusaman dag að dagskrá þessa fundar er tæmd. En með því að þetta er síðasti fundur Alþingis fyrir þingfrestun vegna jólanna vil ég leyfa mér að flytja öllum hv. alþm., skrifstofustjóra og starfsliði þingsins mínar bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á því ári sem nú er senn lokið. Ég vil flytja hv. þm. öllum óskir um gleðileg jól og gott og farsælt komandi ár, svo og skrifstofustjóra og öllu starfsliði þingsins. Utanbæjarmönnum óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu. Ég vona að við hittumst öll heil til starfa þegar Alþingi kemur saman á ný á komandi ári.