27.01.1986
Sameinað þing: 36. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Með hliðsjón af þeim orðum sem forseti hefur nú látið falla er ekki ástæða til að hafa hér uppi mörg orð. Það heyrir undir almenna mannasiði að flytja fyrir hönd míns flokks árnaðaróskir til nýs utanrrh. og óska honum góðs árangurs í starfi. Að öðru leyti gefur þetta ekki tilefni til nokkurra umræðna um stjórnmál. Hæstv. utanrrh. hefur sjálfur tekið fram skilmerkilega að ekki sé að vænta neinna breytinga á utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar af þessu tilefni og engin ástæða til annars en taka þau orð trúanleg.

Um það sem gerst hefur í stjórnmálum frá því að Alþingi var slitið nokkrum dögum fyrir jól að lokinni afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga er auðvitað hægt að hafa uppi mörg orð, en forseti hefur óskað eftir því að sú umræða fari ekki fram hér og nú og er sjálfsagt að verða við óskum hans um að fresta því.

Hins vegar er kannske ástæða til að vekja athygli þingheims á öðru máli. Það er ekki aðeins að nýr maður hafi tekið við embætti utanrrh. heldur hefur jafnframt verið tilkynnt að forveri hans, Geir Hallgrímsson fyrrv. formaður Sjálfstfl., muni innan tíðar taka við embætti sem einn af bankastjórum seðlabanka. Nú geta menn haft skiptar skoðanir á hvert skuli vera hlutverk seðlabanka og hvort seðlabanki sé yfirleitt þörf stofnun í hagstjórn okkar Íslendinga, en hver svo sem skoðun manna kann að vera á því er eitt alla vega ljóst og það er að ef menn telja að seðlabanki hafi einhverju hlutverki að gegna í hagstjórn verður það að teljast mjög varasöm þróun að gera hann að dvalar- eða hvíldarheimili stjórnmálamanna sem dregið hafa sig í hlé frá stjórnmálum. M.ö.o.: ef við ætlum að hafa seðlabanka og ætla honum ákveðið hlutverk þarf þar að vera bankastjórn sem skipuð er á faglegum grundvelli og sem reynir þá að beita hagstjórnartækjum á faglegum grundvelli fremur en að það sé bætt við pólitískt kjörið bankaráð með pólitískt skipaðri bankastjórn. Það er sérstaklega ástæða til að vekja athygli þingheims á því að það er varhugavert þegar tveir af bankastjórunum eru orðnir fyrrv. stjórnmálamenn og kannske skammt í að sá þriðji víki sæti líka.

Þetta vekur upp spurningar um hvort ekki sé tímabært að gera sérstakar ráðstafanir til að koma á fót sérstakri stofnun fyrir þreytta stjórnmálamenn sem þarf að „parkera“ einhvers staðar. Oft hafa menn nefnt utanríkisþjónustuna í þessu samhengi. Það er líka mjög varhugavert að nota hana til þeirra hluta. Sumir eru að vísu þeirrar skoðunar að það sé óþarfi fyrir lýðveldið Ísland að hafa utanríkisþjónustu í þeim skilningi sem við höfum haft, en ef við teljum það nauðsynlegt engu að síður eru líka uppi þau sjónarmið að þar þurfi að vera einhver fagmennska á ferðinni. Ég tek eftir því með ánægju að nýskipaður utanrrh. hefur lýst sérstökum áhuga sínum á því að auka tilstuðlan utanríkisþjónustunnar að markaðsöflun og markaðsmálum þjóðarinnar. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það verði ekki gert nema í mjög takmörkuðum mæli á grundvelli utanríkisþjónustunnar óbreyttrar. Nær væri að leita þar meira til fulltrúa sem skipaðir væru af samtökum atvinnuvega eða fyrirtækjanna sjálfra milliliðalaust.

En ef menn eru á því máli að það sé varhugavert að gera stjórn Seðlabankans eða utanríkisþjónustuna að stofnunum þar sem stjórnmálamenn sem dregið hafa sig í hlé eigi að leita starfa seinustu ár starfsaldurs síns kemur upp sú spurning hvort ekki sé rétt að gera sérstakar ráðstafanir af þessu tilefni. Þm. er kunnugt um glæsilegt fordæmi frá Bretlandi. Þar er sérstök lávarðadeild þar sem menn sem búa yfir mikilli stjórnmálareynslu geta komið og vakið athygli alþjóðar á málum eða hugleiðingum um það sem þeir hafa til málanna að leggja. Ég held að það eina sem þessar breytingar gefi m.ö.o. tilefni til umræðu um sé þetta: Þurfum við ekki hér á hinu háa Alþingi að hugleiða með hvaða hætti við komum þessum málum fyrir „prinsipielt“ framvegis? Eigum við að koma á sérstakri lávarðadeild sem væri þá skipuð með öðrum hætti eða ekki?

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.