28.01.1986
Sameinað þing: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

79. mál, sala á ferskum fiski erlendis

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Við hv. 2. þm. Austurl. stöndum saman að þessari fsp. svo og annarri fsp. um sambærilegt mál sem við lögðum fram og báðum um skriflegt svar við og hefur þegar verið svarað.

Hér er um það að ræða, eins og þm. vita, að stöðugt hefur verið að aukast útflutningur á ferskum fiski, nú síðast útflutningur á gámafiski, á sama tíma og atvinnuerfiðleikar hafa steðjað að fiskverkunarfólki og öryggisleysi í fiskverkun hefur verið mjög mikið.

Samkvæmt upplýsingum sem þegar liggja fyrir Alþingi í svörum við fyrri fsp. frá okkur hv. 2. þm. Austurl. liggur nú fyrir að horfur eru á að um eða yfir 60 þús. tonn af ferskum fiski verði flutt út á þessu ári, og þá ekki aðeins til erlendra neytenda beint heldur er talið líklegt, eins og kemur fram í svari hæstv. ráðh., að a.m.k. hluti af þessum afla sé seldur til verkunar í fiskverkunarstöðvum erlendis. Svo virðist vera samkvæmt svörum hæstv. ráðh. að hvorki meira né minna en 40% af þessum mikla afla séu þorskur.

Þá kemur einnig fram í svörum hæstv. ráðh., þó að það séu mjög takmarkaðar upplýsingar sem þar koma fram, að það eru stórvirk fiskiskip á Íslandi sem árum saman selja svo til allan sinn aflakvóta beint á erlenda markaði án þess að sá afli verði til þess að útvega nokkrum atvinnu í landi. Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú, eins og einnig kemur fram í svörum hæstv. ráðh., að aðilar í útlöndum telja sig geta borgað 8-100% hærra fiskverð en aðilar á Íslandi treysta sér til að borga. Það er að sjálfsögðu ástæðan fyrir þessum mikla flótta óunnins hráefnis úr landi.

Þetta horfir hins vegar við gagnvart okkur Íslendingum eins og hafnar séu á ný veiðar vestur-þýskra og breskra fiskiskipa í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Að vísu má segja að menn fái meira fyrir þann fisk sem þannig er seldur úr landi til vestur-þýskra og breskra neytenda en menn fengu á meðan þeirra eigin fiskiskip veiddu hér, en munurinn er aðeins í fjármunum en enginn eðlismunur. Þetta er það sama eins og Íslendingar hefðu samþykkt að selja eða leigja þessum þjóðum ákveðin veiðiréttindi á Íslandsmiðum og ákveðin nýtingarréttindi á fiskistofnum við Ísland. Og það er umhugsunarvert þegar stór og öflug fiskiskip í kvótakerfi komast upp með það ár eftir ár að selja svo til allan kvóta sinn til erlendra kaupenda. Alvarlegast er þetta þó að sjálfsögðu ef svo háttar að á sama tíma og þetta gerist sé alvarlegur atvinnubrestur hjá fiskverkafólki, atvinnuóöryggi eða erfiðleikar vegna þess að það vanti hráefni. Því höfum við hv. þm. Helgi Seljan leyft okkur að beina svofelldri fsp. til hæstv. viðskrh. á þskj. 86:

„Eru veittar heimildir til sölu á ferskum fiski erlendis þótt svo hátti til í heimahöfn veiðiskips að vinnsla fari ekki fram eða sé stopul í vinnslustöðvum vegna hráefnisskorts?"