28.01.1986
Sameinað þing: 37. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

79. mál, sala á ferskum fiski erlendis

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er eðlilega alfarið í hendi sjútvrh. hvort slíkt ákvæði sé sett eins og þetta sem hv. fyrirspyrjandi ræddi um. Hins vegar hefði ég viljað setja ákvæði til að hindra það, þó að ég ráði ekki við það sem viðskrh., að einstaklingar, sem ekki gera skip út, geti selt fiskinn óveiddan í sjónum, og kannske er sá fiskur einnig seldur til útlanda. En það er mál sem ég ætla ekki að fara inn á hér og er lítt hrifinn af þótt meiri hluti þm. hafi verið það og sé það.

Hv. fyrirspyrjandi sagði að fiskverð væri orðið hér óeðlilega lágt miðað við það sem er í okkar nágrannalöndum. Hvenær hefur fiskverðið ekki verið talið óeðlilega lágt hér, ekki á seinni árum heldur á mörgum áratugum? Það fæst meira fyrir fiskinn, einkum þegar hann er góður, á erlendum markaði á uppboðsverði. Hins vegar fara menn auðvitað misjafnlega út úr því. Ef eitthvað er að fiskinum hrynur verðið þannig að það verður enn lægra en hér heima.

Í sambandi við þann fisk, sem ella hefði farið í skreið, þá var það oft og tíðum sumarfiskurinn, nýr fiskur sem var verið að hengja upp við erfið skilyrði, sem fór í skreið. Því er núna bjargað með þessum hætti. Það eru erfiðleikar líka að segja við sjómenn og útgerðarmenn: Við ætlum að taka þetta af ykkur. Það er heldur engin trygging fyrir því að skip, sem á heima á einhverjum ákveðnum stað þar sem vantar hráefni til vinnslu, landi endilega á þeim stað. Það geta legið til þess ýmsar aðrar ástæður að útgerð og sjómenn á því skipi vilji leita annað. En hins vegar tek ég undir það með fyrirspyrjanda að ég tel að það verði að stemma stigu við þessu. Ég tel þá hugmynd hans sem fram kom í þessum efnum síður en svo óeðlilega, en hún heyrir alfarið undir sjútvrn.